Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Þróun lyfjakostnaðar 2008-2010

Ríkisendurskoðun
Ríkisendurskoðun

Aðgerðir stjórnvalda til að draga úr lyfjakostnaði hafa skilað verulegum árangri samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um þróun lyfjakostnaðar árin 2008-2010.

Helstu aðgerðir felast í því að greiðsluþátttaka ríkisins í nokkrum dýrum lyfjaflokkum hefur verið einskorðuð við ódýrustu lyfin, lyfjagreiðslunefnd hefur haldið lyfjaverði í heild- og smásölu sambærilegu við verð í viðmiðunarlöndunum og loks hefur Landspítali náð árangri í lækkun lyfjakostnaðar með útboðum á lyfjum síðastliðin ár.

Í skýrslunni er bent á að meðalgengi helstu gjaldmiðla hækkaði um 35,8% á milli áranna 2008 og 2009. Þetta leiddi til mikilla hækkana á lyfjaverði en vegna aðgerða stjórnvalda hækkuðu útgjöld ríkissjóðs 2,7 milljörðum krónum minna árið 2009 en raunin hefði orðið ef gengishækkunin hefði komið að fullu fram í verði lyfjanna. Lyfjakostnaður ríkisins árið 2009 var 17,9 milljarðar króna.

Árið 2010 lækkaði gengi helstu gjaldmiðla um 1,8% gagnvart krónunni frá fyrra ári. Lyfjakostnaður ríkissjóðs árið 2010 var 16,7 milljarðar króna. Sparnaðurinn sem var 1,2 milljarðar króna skýrist að hluta til af styrkingu krónunnar en um 0,9 milljarðar spöruðust vegna aðgerða stjórnvalda segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Útreikningar Sjúkratrygginga Íslands fyrir árið 2010 benda til þess að lyfjakostnaður stofnunarinnar á föstu verðlagi hafi lækkað um 10,8% frá fyrra ári og hefur Ríkisendurskoðun komist að sömu niðurstöðu.

Í maí 2011 gerði Ríkisendurskoðun athugun á meðalheildsölu- og smásöluverði 33 vörunúmera sem leiddi í ljós að það hefur farið lækkandi frá árinu 2007 miðað við verð sömu vörunúmera annars staðar á Norðurlöndunum. Árin 2009 og 2010 var meðalsmásölu- og heildsöluverð þessara vörunúmera orðið lægra á Íslandi en í nágrannalöndunum. Ríkisendurskoðun segir að að þessi athugun gefi vísbendingar um að verð á þeim lyfjum sem seld eru hér á landi sé nú sambærilegt verði sömu lyfja hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Ábendingar sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar til velferðarráðuneytisins eru í fjórum liðum: Vinna þurfi að því í samvinnu við yfirvöld annarra landa að bæta aðgengi Íslendinga að stærri lyfjamörkuðum, leita leiða til að fjölga lyfjum á markaði, skilgreina hvernig meta skuli árangur þegar viðamiklar breytingar eru gerðar á heilbrigðiskerfinu og loks þurfi að tryggja að útboð leiði ekki til fákeppni. Nánar má lesa um ábendingarnar í skýrslunni og viðbrögð velferðarráðuneytisins við þeim.

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta