Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 1. nóvember 2011

Mætt: Alexandra Þórlindsdóttir, tiln. af innanríkisráðuneyti, Einar Jón Ólafsson, tiln. af velferðarráðherra, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Hannes Ingi Guðmundson, frá umboðsmanni skuldara, Hrefna K. Óskarsdóttir, frá ÖBÍ og Þroskahjálp, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af SA, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln af Rauða krossi Íslands, Ragnheiður Bóasdóttur, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, formaður jafnréttisráðs, tiln. af velferðarráðherra, Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir sem stýrði fundi.

1. Fundargerð

Fundargerðir 54. og 55. fundar voru samþykktar.

2. Framhald umræðu um niðurstöður starfsdags, 4. október sl.

  1. Á velferðarvaktin að vera á Facebook? Samþykkt að skoða málið með jákvæðum augum. Ljóst er að starfsmaður þyrfti að halda utan um verkefnið.
  2. Tengsl velferðarvaktarinnar út á við – er vinnan okkar að skila sér?
  1. Stungið var upp á og rætt um að vaktin fengi tíu manna utanaðkomandi rýnihóp til að fara yfir og leggja mat á störf vaktarinnar frá upphafi. Hópurinn myndi vinna saman í tvær klukkustundir með góðum stjórnanda, en ekki er gert ráð fyrir að greitt yrði fyrir þetta. Krefst góðs undirbúnings.
  2. Vaktin þarf, þegar við á, að fylgja betur eftir upplýsingum sem hún fær í gegnum fyrirlestra gesta og vinna meira á dýptina gagnvart einstökum viðfangsefnum. Þrátt fyrir það er vaktin ekki framkvæmdaraðili; hún á að varpa ljósi á aðstæður.
  3. Vaktin þarf að nýta betur baklandið: Fulltrúar þurfa að miðla upplýsingum frá baklandinu til vaktarinnar og frá vaktinni til baklandsins.
  4. Stungið var upp á og rætt um að velferðarvaktin leggi fram framtíðarsýn sína: Hvernig hún vill að samfélagið verði eftir 5–10 ár. Þetta sé tímabært nú að þremur árum liðnum frá bankahruni.

Í umræðum undir þessum lið var eftirfarandi samþykkt í ljósi þess að fjárlagagerð er nú í fullum gangi hjá bæði ríki og sveitarfélögum:

    1. að senda ríki og sveitarfélögum á ný hvatningu um aðgát og vönduð vinnubrögð við gerð fjárlaga og fjárhagsáætlana og minna um leið á leiðarljósin frá grunnþjónustuhópnum 2009.
    2. að senda ályktun þar sem velferðarvaktin lýsir áhyggjum yfir niðurskurði á fjárframlögum til Barnaverndarstofu.

Enn fremur var samþykkt að bjóða formönnum tiltekinna nefnda á Alþingi á fund velferðarvaktarinnar að minnsta kosti velferðarnefndar og fjárlaganefndar. Athuga einnig hvort bjóða ætti formönnum þingflokka til fundar.

3. Hópastarf velferðarvaktarinnar

  • Hópurinn um fjármál heimilanna (Þorbjörn) lagði fram tillögu um að ríkisstjórnin kanni afleiðingar aðgerða sinna gagnvart skuldavanda heimilanna. Ríkisstjórnin brást vel við og er unnið að þessu á vegum hennar. Hópurinn hyggst bíða átekta þar til niðurstaða í þetta mál er komin.
  • Hópurinn um þá sem standa höllum fæti(Vilborg) hyggst fara yfir nýjar skýrslur um stöðu þessa hóps og taka saman niðurstöður.
  • Hópurinn um fólk án atvinnu (Kristján og Sigurrós). Í tengslum við störf hópsins var rætt um að gagnlegt væri að fá fréttir af átaksverkefnunum Ungt fólk til athafna og Nám er vinnandi vegur. K og S munu kalla saman fund og fá upplýsingar frá Karli Sigurðssyni hjá Vinnumálastofnun, sem situr í hópnum, og miðla síðan þeim upplýsingum til velferðarvaktarinnar.
  • Formenn annarra hópa á vegum vaktarinnar voru fjarverandi nema Suðurnesjahópsins sem hélt velheppnaðan samstöðufund á Suðurnesjum 27. október sl.

4. Staða rýnihópanna sem stofnaðir voru á síðasta fundi, 55. fundi

  1. Hópurinn um fjárlögin (Einar Jón, Guðrún, Ragnheiður, Vilborg og Þorbjörn) fór strax af stað og hefur leitað upplýsinga hjá BHM, SA, ASÍ og BSRB. Útlitið virðist ekki gott, meðal annars að meiri skerðingar verði í heilbrigðiskerfinu á næstu misserum. Gert er ráð fyrir að niðurstaða frá hópnum liggi fyrir um mánaðamótin nóvember/desember næstkomandi.
  2. Hópurinn um viðbrögð við reiðinni í samfélaginu (Valgerður, Salbjörg, Hannes Ingi, Björg og Þórhildur). Greinargerð er í undirbúningi. Vonleysis gætir hjá fagfólki sem nauðsynlegt er að kanna betur, einnig hvernig reiðin bitnar á börnum. Rætt um að fólki í atvinnuleit séu boðin „endalaus“ sjálfsstyrkingarnámskeið, en þörf sé á einstaklingsmiðaðri nálgun gagnvart mörgum í þessari stöðu. Mikilvægt að beina reiðinni í jákvæðan farveg og líta megi á reiðina sem skapandi afl.

Næsti fundur verður 15. nóvember nk. í velferðarráðuneyti.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta