Fjórir af hverjum fimm töldu sig við góða heilsu á Íslandi
Fjórir af hverjum fimm fullorðnum á Íslandi (80%) töldu sig vera við góða heilsu árið 2009 í samanburði við 69% fullorðinna í ríkjum OECD að meðaltali. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ritinu Health at a Glance 2011, OECD Indicators, sem gefið er út af Efnahags- og framfarastofnuninni í París en í því er að finna margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í 34 aðildarríkjum stofnunarinnar.
Í umfjöllun Hagstofu Íslands um útgáfu ritsins kemur fram að árið 2009 var meðalævilengd á Íslandi 81,5 ár en í sex ríkjum OECD var hún lengri. Lífslíkur íslenskra karla við fæðingu voru þá 79,7 ár, aðeins lægri en í Sviss þar sem þær voru hæstar. Lífslíkur kvenna á Íslandi voru 83,3 ár eða í 11. sæti OECD landa. Þá kemur jafnframt fram að árið 2009 var tíðni ungbarnadauða lægst á Íslandi eða sem svarar 1,8 látnum á fyrsta ári af 1.000 lifandi fæddum. Meðaltal OECD landa var 4,4 börn en var 30 árið 1970.
Helmingur fullorðinna of þungur eða feitur
Fram kemur að rúmlega helmingur fullorðinna er nú talinn of þungur eða of feitur í 19 af 34 löndum OECD þ.á.m. á Íslandi. Árið 2009 var hlutfall of feitra hæst í Bandaríkjunum eða 34% en lægst í Kóreu og Japan, um 4%. Á sama tíma var þetta hlutfall 20% á Íslandi sem er svipað og í Finnlandi en var 10-13% á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt skýrslu OECD voru tíu aðildarlönd með hærra hlutfall of feitra en Ísland. Eitt af hverjum fjórum til fimm börnum á aldrinum 5-17 ára hér á landi teljast of þung eða of feit.
Gæði heilbrigðisþjónustu
Ísland stendur sem fyrr almennt vel að vígi þegar kemur að gæðum heilbrigðisþjónustu. Dæmi um slíkt er árangur af meðferð við kransæðastíflu á Íslandi, mældur sem hlutfall látinna innan 30 daga eftir innlögn. Þar er Ísland með fjórða besta árangurinn en á árinu 2009 létust þrír af hverjum 100 sjúklingum sem voru lagðir inn vegna bráðrar kransæðastíflu. Var hlutfallið svipað eða heldur lægra í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en það var rúmlega fimm að meðaltali í löndum OECD. Þá var Ísland vel fyrir neðan meðaltal OECD hvað varðar dauðsföll innan 30 daga eftir innlögn vegna heilaáfalla, bæði vegna blóðþurrðar og blæðinga. Dánartíðni vegna leghálskrabbameins er sú þriðja lægsta á Íslandi samanborið við hin OECD-ríkin. Hér á landi er aldursstöðluð dánartíðni 1,3 á hverjar 100.000 konur, í Finnlandi 1,2 en 0,8 á Ítalíu þar sem tíðnin er lægst. Meðaltal OECD-ríkjanna er 3,2
Útgjöld til heilbrigðismála
Heildarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD voru að meðaltali 9,6% af vergri landsframleiðslu (VLF) ríkjanna árið 2009. Í Bandaríkjunum var hlutfallið hæst eða 17,4% en hér á landi voru heildarútgjöld til heilbrigðismála 9,7% af VLF árið 2009, samanborið við 9,1% árið 2008. Var Ísland í 14. sæti OECD ríkja á þennan mælikvarða. Danir vörðu 11,5% af VLF til heilbrigðismála árið 2009, Svíar 10,0% og Norðmenn 9,6%, Hollendingar 12,0%, Frakkar 11,8% og Þjóðverjar 11,6%.