Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2001

Mánudaginn, 23. apríl 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 15. febrúar 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærður er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Málavextir eru þeir að A sendir inn kæru, dags. 13. febrúar 2000 (á að vera 2001 innsk.), til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Hún tilkynnti sínum atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs 3. október 2000. Í nóvember 2000 sækir hún um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða um fæðingarstyrk samkvæmt lögum nr. 95/2000. Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 1. janúar 2001 til 30. júní 2000 (á að vera 2001 innsk.). A fæðir barn 3. janúar 2001.

Kærandi fer þess á leit að mánaðarlegar greiðslur sem hún telur sig eiga rétt á úr Fæðingarorlofssjóði verði reiknaðar út frá meðaltekjum hennar frá því að hún lauk námi við Háskóla Íslands í júní 2000, en að útreikningurinn miðist ekki við tólf mánaða tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs eins og Tryggingastofnun hefur gert. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Í júní sl. útskrifaðist ég úr Háskóla Íslands sem sjúkraþjálfari eftir að hafa verið í fullu námi frá því haustið 1996. Um sama leiti þ.e. 19. júní 2000, hóf ég störf við mitt fag hjá B og vann þar fulla vinnu þar til í lok desember sl. þegar ég fór í barnsburðarleyfi. Ég var því búin að vinna 6,5 mánuði og hafði þannig unnið mér inn rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ég taldi því eðlilegt að sú mánaðarlega upphæð sem ég ætti rétt á yrði reiknuð frá þeim tíma sem ég kláraði skólann og fór út á vinnumarkaðinn. En sú varð ekki raunin. Þar sem ég af sjálfsbjargarviðleitni og illri nauðsyn vann u.þ.b. 30% láglaunavinnu með skólanum, eru greiðslurnar reiknaðar frá tekjum 12 mánuði aftur í tímann. Þar af leiðandi lækkar sú upphæð sem ég fæ greidda úr Fæðingarorlofssjóði mjög mikið. Hefði ég hins vegar ekkert unnið með skólanum og lifað eingöngu af lánum, væru meðaltekjurnar reiknaðar úr frá síðustu 6,5 mánuðum og greiðslurnar því óhjákvæmilega mun nær þeim tekjum sem ég er að missa af í fæðingarorlofinu. Þetta finnst mér í hæsta máta óréttlátt og ef rétt reynist stórt gat í hinu nýja og að mörgu leyti stórgóða fyrirkomulagi. Ég lít svo á að þegar ég var í skólanum eða ekki búin að vinna 6 mánuði eftir útskrift, hafi ég tilheyrt kerfinu um fæðingarstyrk og fengið greitt skv. því hefði dóttir mín fæðst þá. En úr því ég uppfylli nú skilyrði um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði tel ég rökrétt að tekjurnar séu reiknaðar frá þeim tíma sem ég tilheyri því kerfi. Ef það er ekki svo er enn verið að refsa mönnum fyrir að vinna hlutastarf með skólanum og um leið að umbuna þeim sem engar tekjur hafa. Þetta hélt ég einmitt að væri andstætt þeirri hugsun sem felst í hinum nýju lögum um greiðslur í fæðingarorlofi. Ég fer því góðfúslega fram á að útreikningar bak við greiðslur til mín úr Fæðingarorlofssjóði verði endurskoðaðir og meðaltekjurnar reiknaðar frá júní 2000 í stað nóvember 1999."

Með bréfi 20. febrúar 2001 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 12. mars 2001. Í greinargerðinni kemur fram að A hafi fætt barn 3. janúar og að greiðslur til hennar muni miðast við 1. janúar 2001 til 30. júní 2001. Greiðslur til hennar skuli vera 80% af meðaltali heildarlauna hennar fyrir tímabilið nóvember 1999 til og með október 2000 með vísan til 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Síðan segir:

"Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er ekki að finna heimild til að reikna meðaltal heildarlauna út frá styttra tímabili en þeim 12 mánuðum [sem] 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof kveður á um á þeirri forsendu að tekjur hafi verið lægri hluta tímabilsins vegna náms.

Tryggingastofnun ríkisins telur samkvæmt framansögðu að ekki sé heimilt að taka tillit til þess að launatekjur A hafi verið lægri á hluta viðmiðunartímabilsins vegna þess að hún hafi þá verið í námi."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. mars 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Hinn 20. mars 2001 bárust viðbótargögn varðandi launaupplýsingar, þ.e. ljósrit af launaseðlum frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum til A vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 1. janúar 2001 til 30. júní 2001.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs skal samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Í athugasemdum með 13. gr. segir: "Hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skal miða við meðalheildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Kærandi var í 100% námi í sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands frá því að haustmisseri hófst 1999 og fram til 19. júní 2000, frá þeim tíma er kærandi í 100% starfi sem sjúkraþjálfari. Samhliða háskólanámi sínu var kærandi í 36% hlutastarfi.

Samkvæmt ffl. er ekki miðað við að foreldri sé í meira en 100% námi eða starfi, sbr. 4. mgr. 13. gr. ffl. og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Í ljósi þess og með vísan til þess sem að framan greinir telur nefndin að líta skuli framhjá því að kærandi hafi verið í hlutastarfi samhliða 100% námi.

Kærandi hefur með starfi sínu frá 19. júní 2000 til og með 31. desember 2000 áunnið sér rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. Með hliðsjón af því skulu mánaðarlegar greiðslur til kæranda nema 80% af meðaltali heildarlauna fyrir tímabilið 19. júní 2000 til og með október 2000.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sem lagður er til grundvallar greiðslum til A, úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Mánaðarlegar greiðslur til kæranda skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna fyrir tímabilið 19. júní 2000 til og með október 2000.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta