Hoppa yfir valmynd
26. júní 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2002: Dómur frá 26. júní 2002.

Ár 2002, miðvikudaginn 26. júní, var í Félagsdómi í málinu nr. 4/2002:

Guðmundur Kristinn Erlendsson o.fl.

gegn

Samtökum atvinnulífsins vegna

Flugleiða hf.

og Flugfélags Íslands hf.

og Arngrími Arngrímssyni o.fl.

kveðinn upp svofelldur


dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var 6. þessa mánaðar, var höfðað 26. mars síðastliðinn.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Arngrímur Ísberg, Erla Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.


Stefnendur eru Guðmundur Kristinn Erlendsson, kt. 130875-­4089, Benedikt Gunnarsson, kt. 040476-3699, Guðni Diðrik Óskarsson, kt. 270167­-3069, Stefán Davíð Helgason, kt. 070477-3279, Atli Freyr Þórðarson, kt. 270777-­4069, Sigurður Einar Guðmundsson, kt. 230669-4499, Steinþór Páll Ólafsson, kt. 270670-4079, Albert Þór Sverrisson, kt. 080770-5029, Þórir Kristinsson, kt. 100872-­4049, Davíð Davíðsson, kt. 140271-4469, Magnús R. Sigtryggsson, kt. 060372-3819, Davíð Björn Ólafsson, kt. 300673-5979, Jón Þór Þorvaldsson, kt. 290675-5539, Jenna Lilja Jónsdóttir, kt. 130476-4069, Stefanía Bergmann Magnúsdóttir, kt. 270172-5559, Össur Brynjólfsson, kt. 020275-5459, Grétar Þórarinn Gunnarsson, kt. 260273-4429, Matthías Ragnars Arngrímsson, kt. 071170-4119, Magnús Ómar Jóhannsson, kt. 310372-4129, Eyjólfur Svanberg Gunnbjörnsson, kt. 290374-4649, Sigrún Björg Ingvadóttir, kt. 271171-4719, Jóhann Þór Guðmundsson, kt. 221077-5989, Kristján Hjörvar Hallgrímsson, kt. 190978-5599, Matthías Örn Friðriksson, kt. 180270-4939, Elías Egill Elíasson, kt. 170174-3729, Arnar Már Baldvinsson, kt. 040274-4999 og Guðjón Sverrir Guðmundsson, kt. 070873-5169.


Stefndu eru Samtök atvinnulífsins vegna Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. og Arngrímur Arngrímsson, kt. 210771-3529, Axel Ingi Eiríkssoni, kt. 150163­5799, Baldur Þorsteinsson, kt. 190546-3309, Bjarki Viðar Hjaltasson, kt. 200845­3159, Ellef Ellefsson, kt. 010258-5089, Elmar Gíslason, kt. 081268-3559, Frímann Svavarsson, kt. 260164-5469, Georg Hansen, kt. 260968-2979, Guðjón H. Gunnarsson, kt. 040969-5439, Guðni Páll Nielsen, kt. 300675-3609, Gunnar Björn Bjarnason, kt. 140174-4169, Gústaf Guðmundsson, kt. 241146-3679, Hafliði Páll Maggason, kt. 100764-3509, Hákon Helgason, kt. 061049-4449, Heimir Helgason, kt. 210870-3429, Hlynur Bjarkason, kt. 180668-4939, Ingimar Örn Erlingsson, kt. 170474-3849, Jóhann Skírnisson, kt. 290659-7449, Jónas Jónasson, kt. 110564­7249, Karl Jónsson, kt. 050570-3129, Kolbeinn Ingi Arason, kt. 110651-3689, Kristján Jakobsson, kt. 230664-4719, Ólafur Georgsson, kt. 050767-4269, Ólafur Pétursson, kt. 220168-5149, Ragnar Arnarsson, kt. 050264-5139, Ragnar Árni Ragnarsson, kt. 060772-3989, Ragnar Magnússon, kt. 090864-5699, Ragnar Smári Ólafsson, kt. 271058-5869, Rúnar Rúnarsson, kt. 070463-4319, Rögnvaldur S. Hilmarsson, kt. 081163-4569, Sigurður Aðalsteinsson, kt. 011247-2459, Sveinbjörn M. Bjarnason, kt. 191068-2979, Torfi Gunnlaugsson, kt. 240541-3510, Tryggvi Jónsson, kt. 181255-4129, Vilhjálmur Þ. Arnarsson, kt. 060976-3259, Þorleifur E. Pétursson, kt. 171172-5359 og Þórhallur Magnússon, kt. 110941-3669.


Dómkröfur stefnenda 

  1. Að viðurkennt verði með dómi að Flugleiðir hf. hafi brotið gegn 5. gr. samkomulags milli Flugleiða hf., Flugfélags Íslands hf. og Félags íslenskra atvinnuflugmanna, dagsettu 29. desember 1999, með því að ráða ekki að nýju flugmenn Flugleiða hf. samkvæmt reglum um starfsaldur og starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf. í þær stöður á Fokker 50 flugvélum í rekstri hjá Flugfélagi Íslands hf. sem losnuðu við uppsagnir 11 flugmanna Flugleiða hf. á Fokker 50 flugvélunum haustið 2001.
  2. Að viðurkennt verði með dómi að Flugleiðir hf. hafi brotið gegn 5. gr. samkomulags milli Flugleiða hf., Flugfélags Íslands hf. og Félags íslenskra atvinnuflugmanna, dagsettu 29. desember 1999, með því að hafa haustið 2001 sagt upp 45 flugmönnum Flugleiða, 197-241 á fyrirliggjandi starfsaldurslista félagsins samkvæmt reglum þess, þar af 7 aðstoðarflugmönnum er gegndu stöðum á vegum félagsins á Fokker 50 flugvélum sem eru í rekstri hjá Flugfélagi Íslands hf. án þess að gefa jafnframt flugmönnum á sama lista, eftir starfsaldursröð, kost á ráðningu í stöðurnar á Fokker 50 vélunum sem losnuðu við uppsagnirnar.
  3. Að viðurkennt verði með dómi að í 5. gr. samkomulags milli Flugleiða hf., Flugfélags Íslands hf. og Félags íslenskra atvinnuflugmanna, dagsettu 29. desember 1999, felist að Flugleiðum hf. sé skylt að ráða að nýju flugmenn Flugleiða hf., samkvæmt reglum um starfsaldur og starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf., í þær stöður á Fokker 50 flugvélum í rekstri hjá Flugfélagi Íslands hf. sem losna við uppsagnir flugmanna Flugleiða hf. vegna samdráttar í millilandaflugi félagsins.
  4. Að viðurkennt verði með dómi að þeir flugmenn, sem eru á starfsaldurslista Flugleiða hf. samkvæmt starfsaldursreglum kjarasamnings Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða hf. frá 2. júní 2000, eigi forgang samkvæmt 5. gr. samkomulags milli Flugleiða hf., Flugfélags Íslands hf. og Félags íslenskra atvinnuflugmanna, dagsettu 29. desember 1999, til 19 staða á Fokker 50 flugvélum í rekstri hjá Flugfélagi Íslands hf. þar til þeir flytjast yfir á þotur Flugleiða hf. eftir því sem stöður þar losna.

Þá er krafist málskostnaðar.


Dómkröfur stefndu Samtaka atvinnulífsins vegna Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands


Stefndu krefjast þess að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnenda og að stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað.

 

Dómkröfur stefndu Arngríms Arngrímssonar o.fl. 

Þess er krafist að stefndu verði sýknaðir af kröfum stefnenda. Þá krefjast stefndu þess að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda.


Málavextir

Frá því að innanlandsflug Flugleiða hf. og Flugfélags Norðurlands hf. var sameinað undir merkjum Flugfélags Íslands hf. hefur verið mikið um það rætt innan Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hvort taka ætti upp sameiginlegan starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. Mun slíkur starfsaldurslisti meðal annars hafa verið til umræðu í kjarasamningaviðræðum FÍA og Flugleiða hf. vorið 1997 án þess að gengið væri frá samkomulagi um sameiginlegan lista. Drög að slíku samkomulagi lágu fyrir við samningsgerðina 1997, svonefnt ,,blátt blað?. Við gerð kjarasamninga FÍA og Flugleiða hf. um vorið 1997 var gengið frá sérstakri bókun þar sem því var lýst yfir af samningsaðilum að gengið væri út frá því að Flugleiðir hf. hefðu áfram í rekstri Fokker 50 flugvélar í innanlandsflugi og flugi til næstu grannlanda líkt og verið hafði fram til þess tíma. Jafnframt var því lýst að kæmi til þess að Fokker 50 vélarnar flyttust yfir á flugrekstrarleyfi annars flugrekanda eða félagið hætti rekstri vélanna á samningstímanum gæti FÍA krafist viðræðna um breytingar á samningnum og væri hann uppsegjanlegur ef ekki næðist samkomulag milli aðila innan 30 daga frá upphafi slíkra viðræðna.

Flugfélag Íslands hf. tók við rekstri innanlandsflugs Flugleiða hf. l. júní 1997 og tók á sama tíma á leigu Fokker 50 flugvélar af Flugleiðum hf. með fullri áhöfn. Í kjarasamningi FÍA og Flugfélags Íslands hf. frá árinu 1997 var því lýst yfir að aðilar væru sammála um að kanna leiðir til að taka upp sameiginlegan starfsaldurslista flugmanna Flugfélags Íslands hf. og Flugleiða hf. á grundvelli bláa blaðsins svonefnda. Ekki náðist samkomulag um sameiginlegan starfsaldurslista en 29. desember 1999 var undirritaður samningur milli FÍA annars vegar og Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. hins vegar þar sem tekið var á álitaefnum í tengslum við mönnun Fokker 50 vélanna. Í samningnum er gert ráð fyrir að tveir aðskildir starfsaldurslistar muni gilda, annar fyrir flugmenn Flugleiða hf. og hinn fyrir flugmenn Flugfélags Íslands hf. Í 4. gr. samningsins er mælt fyrir um að allar nýjar stöður flugmanna og flugstjóra á Fokker 50 vélum muni verða mannaðar af flugmönnum Flugfélags Íslands hf. frá gildistíma samningsins. Samkvæmt 5. gr. samningsins eiga þeir flugmenn Flugleiða hf., sem fljúga Fokker 50 vélum, að flytjast yfir á þotur Flugleiða hf. eftir því sem stöður losna á þeim.

Í júlí, september og október síðastliðinn var 45 flugmönnum sagt upp störfum hjá Flugleiðum hf. vegna samdráttar í áætlunarflugi. Við uppsagnirnar var tekið mið af starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf. og var þeim flugmönnum, sem stystan starfsaldur höfðu, sagt upp störfum.  Nánar tiltekið var um að ræða flugmenn sem voru númer 197 til og með 241 á þágildandi starfsaldurslista.  Meðal þeirra voru 7 flugmenn Flugleiða hf. sem störfuðu á Fokker 50 vélum hjá Flugfélagi Íslands hf. Á sama tíma var 6 flugstjórum Flugleiða hf. á Fokker 50 vélunum sagt upp flugstjórastarfinu og áttu þeir allir að flytjast yfir í aðstoðarflugmannsstörf á þotum Flugleiða. Uppsagnir tveggja flugstjóranna voru síðar dregnar til baka.

Í kjölfar uppsagnanna kom upp ágreiningur um það hvernig skilja bæri framangreindan samning frá 29. desember 1999. Skilningur stefndu er sá að það sé á valdi Flugfélags Íslands hf. að ráða í þær 11 stöður á Fokker 50 vélunum, sem fylla þarf eftir framangreindar uppsagnir, og að við slíkar ráðningar gildi forgangsréttarákvæði aðalkjarasamnings FÍA við Flugfélag Íslands hf.  Vegna þess ágreinings, sem upp var kominn, var nafnfgreindum lögmanni falið af FÍA að vinna álitsgerð um réttarstöðu þeirra flugmanna Flugleiða hf. sem starfa hjá Flugfélagi Íslands hf. Í álitsgerðinni, sem dagsett er 2. október 2001, komst lögmaðurinn að þeirri niðurstöðu að flugmenn Flugfélags Íslands hf. eigi ekki rétt á að taka yfir þær stöður sem losnuðu hjá Flugfélagi Íslands hf. við framangreindar uppsagnir. Eftir að álitið lá  fyrir sendu nokkrir flugmenn Flugleiða hf. bréf til forstjóra Flugleiða hf., þar sem uppsögnum þeirra var mótmælt, og fóru fram á að þær yrðu dregnar til baka. Í bréfinu var vísað til samningsins frá 29. desember 1999 og nefndrar álitsgerðar. Svarbréf var sent til FÍA 13. nóvember 2001 þar sem því var lýst yfir að af hálfu Flugleiða hf. sé litið svo á að uppsagnirnar séu í samræmi við samninginn frá 29. desember 1999 og félagið sjái sér ekki fært að draga uppsagnirnar til baka.

Í lok janúar 2002 voru uppsagnir 15 flugmanna Flugleiða hf. dregnar til baka en það eru flugmenn nr. 189 til og með 203 á núgildandi starfsaldurslista.


Málsástæður og lagarök stefnenda

Kröfur stefnenda eru einkum reistar á kjarasamningi FÍA við Flugfélag Íslands hf. og Flugleiðir hf. frá 29. desember 1999. Með samningnum hafi því verið slegið föstu að tveir aðskildir starfsaldurslistar skyldu gilda, annar fyrir flugmenn Flugfélags Íslands hf. og hinn fyrir flugmenn Flugleiða hf. Fokker 50 vélarnar, sem notaðar eru í innanlandsfluginu, hafi verið leigðar frá Flugleiðum hf. með fullri áhöfn en með samningnum hafi flugmenn Flugleiða hf.samþykkt að gefa þau störf eftir með þeim hætti að allar nýjar stöður yrðu mannaðar af flugmönnum Flugfélags Íslands hf., sbr. 4. gr. samningsins. Í 5. gr. samningsins sé mælt fyrir um við hvaða skilyrði flugmenn Flugleiða hf., sem fljúga Fokker 50 vélum, gefa þær stöður eftir. Þar segi svo:

,,Þeir flugmenn Flugleiða sem fljúga Fokker 50 vélum munu flytjast yfir á þotur Flugleiða eftir því sem stöður þar losna. Þó er gert ráð fyrir að þeir flugstjórar Flugleiða á Fokker 50 sem ekki hafa reynslu til flugstjórastarfa á þotum geti starfað sem flugstjórar á Fokker 50 uns nauðsynlegri reynslu er náð. Á meðan að þessir flugmenn bíða eftir lausri stöðu á þotum Flugleiða og fljúga Fokker 50 flugvélum munu þeir áfram verða starfsmenn Flugleiða og þiggja laun frá Flugleiðum skv. gildandi samningum?.

Að mati stefnenda verði framangreint ákvæði 5. gr. samningsins ekki skilið öðruvísi en svo að flugmenn Flugleiða hf. eigi að halda stöðum á Fokker 50 vélum hjá Flugfélagi Íslands hf. þar til stöður losna á þotum Flugleiða hf. Eftir því sem stöður losna á þotum Flugleiða hf. fækki þannig að sama skapi þeim stöðum sem mannaðar séu af flugmönnum Flugleiða hf. á Fokker 50 vélunum. Samningurinn sé ekki tímabundinn og renni því sitt skeið á enda þegar síðustu stöðum flugmanna Flugleiða hf. á Fokker 50 vélunum hafi verið ráðstafað með framangreindum hætti.

Við ákvarðanir um fækkun flugmanna beri Flugleiðum hf. að fara eftir starfsaldursreglum sem sé að finna í aðalkjarasamningi félagsins við FÍA, sbr. gr. 03-1 í núgildandi samningi frá 2. júní 2000. Í gildi sé starfsaldurslisti sem sé útbúinn af starfsráði FÍA og Flugleiða hf. á grundvelli áðurnefndra starfsaldursreglna. Við uppsagnir flugmanna Flugleiða hf. í júlí, september og október sl. hafi þeim flugmönnum Flugleiða hf., sem voru aftast á starfsaldurslistanum, verið sagt upp störfum. Meðal þeirra hafi verið 7 af 19 flugmönnum Flugleiða hf. á Fokker 50 vélunum. Jafnframt hafi 6 flugstjórum á Fokker 50 vélunum verið sagt upp flugstjórastarfinu og þeir átt að flytjast yfir í aðstoðarflugmannsstarf á þotum Flugleiða. Uppsagnir tveggja flugstjóranna hafi hins vegar verið dregnar til baka. Af þessu leiði að 11 flugmenn Flugleiða hf. hafi misst störf sín á Fokker 50 vélum.

Þegar samningurinn frá 29. desember 1999 var undirritaður hafi tæplega 40 flugmenn á starfsaldurslista Flugleiða hf. verið við störf á Fokker 50 vélum í rekstri hjá Flugfélagi Íslands hf. Þegar til uppsagnanna kom síðastliðið haust hafi 19 flugmenn verið enn við störf á Fokker 50 vélunum en aðrir hafi flust yfir á þotur Flugleiða h. vegna aukinna umsvifa í millilandaflugi. Hafi Flugfélag Íslands hf.  mannað þær stöður sem losnað hafi með þessum hætti á Fokker 50 vélunum.

Samningurinn frá 29. desember 1999 sé ekki bundinn við nafngreinda flugmenn Flugleiða hf. heldur taki hann til allra flugmanna sem félagið kunni í krafti stjórnunarréttar síns að fela að fljúga Fokker 50 flugvélum til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum. Brotthvarf þeirra flugmanna, sem gegndu störfum á Fokker 50 vélunum, leiði að mati stefnenda til þess að Flugleiðum hf. sé rétt og skylt að manna þær stöður að nýju með öðrum flugmönnum félagsins enda bendi ekkert til þess að til standi að hætta rekstri Fokker 50 vélanna. Samkvæmt samningnum eigi flugmenn Flugleiða hf. rétt til þessara staða þar til stöður losna á þotum Flugleiða hf. Það skilyrði hafi enn ekki verið uppfyllt varðandi þær 19 stöður sem flugmenn Flugleiða hf. gegndu á Fokker 50 vélunum þegar til uppsagnanna kom. Uppsagnir flugmanna, sem starfa á þotum Flugleiða hf., vegna samdráttar í rekstri, leiði augljóslega ekki til þess að stöður losni á þeim vélum.

Ákvæði gr. 01-3 í kjarasamningi Flugfélags Íslands hf. og FÍA frá 8. júní 2000 um forgangsrétt flugmanna Flugfélags Íslands hf. til flugverkefna á vegum Flugfélags Íslands hf. geti ekki leitt til þess að flugmenn Flugfélags Íslands hf. eigi rétt til þeirra starfa sem losna með þessum hætti á Fokker 50 vélunum. Með kjarasamningnum frá 29. desember 1999, sem samþykktur hafi verið við allsherjar- atkvæðagreiðslu meðal flugmanna Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. innan FÍA, hafi verið settar sérstakar reglur um samskipti flugfélaganna vegna reksturs Fokker 50 vélanna og réttindi og skyldur flugmanna félaganna beggja í tengslum við þann rekstur. Þær reglur gangi framar almennum reglum í aðalkjarasamningi félagsins. Þá beri að hafa í huga að þegar kjarasamningurinn frá 29. desember 1999 var undirritaður hafi verið í gildi kjarasamningur Flugfélags Íslands hf. og FÍA frá 19. apríl 1997. Ákvæði gr. 01-3 í þeim samningi um forgangsrétt flugmanna Flugfélags Íslands hafi verið samhljóða ákvæði kjarasamningsins frá 8. júní 2000. Þrátt fyrir tilvist þess ákvæðis í þágildandi kjarasamningi hafi verið ákveðið að semja á þann veg sem gert var í samningnum frá 29. desember 1999. Að mati stefnenda sé ljóst að ef hverfa átti frá því fyrirkomulagi, sem komið var á með samningnum frá 29. desember 1999, hefði þurft að gera það með skýrum og afgerandi hætti og jafnframt þannig að skuldbindandi væri bæði fyrir flugmenn Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf.

Stefnendur máls þessa séu meðal þeirra flugmanna Flugleiða hf. sem sagt var upp störfum síðastliðið haust. Nánar tiltekið sé um að ræða 27 flugmenn Flugleiða hf. af þeim 30 sem enn séu án starfs hjá Flugleiðum hf. eftir uppsagnirnar síðastliðið haust. Þrír þeirra, sem sagt var upp störfum, hafi ráðist til starfa hjá Flugfélagi Íslands hf. og séu af þeim sökum ekki í hópi stefnenda. Verði fallist á túlkun stefnenda á kjarasamningnum frá 29. desember 1999 leiði það til þess að Flugleiðum hf. hafi verið skylt að manna þær stöður á Fokker 50 vélunum sem losnuðu þegar uppsagnirnar tóku gildi. Hafi Flugleiðir hf. ekki getað sagt flugmönnum Fokker 50 vélanna upp störfum vegna samdráttar í millilandaflugi með þeim afleiðingum að Flugfélagi Íslands hf. beri að manna þær stöður að nýju. Stefnendur eigi skv. d-lið 5. gr. starfsaldursreglna flugmanna Flugleiða hf. rétt á endurráðningu í störf hjá Flugleiðum hf. í tvö ár frá því þeir láta af störfum.

Á grundvelli framangreindra sjónarmiða krefjist stefnendur viðurkenningar á að Flugleiðir hf. hafi brotið gegn 5. gr. margnefnds samkomulags frá 29. desember 1999 með því að ráða ekki að nýju í stöðurnar 11 sem losnuðu á Fokker 50 vélunum. Þá sé krafist viðurkenningar á því að í 5. gr. samkomulagsins felist að Flugleiðum hf. beri að ráða flugmenn Flugleiða hf. í þær stöður sem losna á Fokker 50 vélunum við uppsagnir flugmanna Flugleiða hf. vegna samdráttar í millilandaflugi félagsins. Loks sé krafist viðurkenningar á forgangi flugmanna Flugleiða hf. til þeirra 19 staða á Fokker 50 flugvélum í rekstri hjá Flugfélagi Íslands hf. sem flugmenn Flugleiða hf. gegndu á þeim tíma þegar uppsagnir 45 flugmanna Flugleiða hf. komu til framkvæmda. Þeim forgangi sé í kröfugerð lýst sem forgangi skv. 5. gr. samkomulagsins frá 29. desember 1999 og sé því bundinn þeim takmörkunum sem umrætt ákvæði feli í sér. Óhjákvæmilegt sé að gera þessa kröfu til handa öllum flugmönnum, sem eru á starfsaldurslista Flugleiða hf., enda ófyrirséð hvaða flugmenn Flugleiða hf. koma til með að gegna umræddum störfum á hverjum tíma.

Hagsmunir stefnenda af að fá dómkröfur þessa máls viðurkenndar séu augljóslega miklir. Verði fallist á túlkun stefnenda á samningnum frá 29. desember 1999 sé ljóst að Flugleiðum hf. hafi borið að ráða að nýju í þau störf sem losnuðu á Fokker 50 vélunum við uppsagnir flugmanna Flugleiða hf. Við þær ráðningar hafi þeim borið að fara eftir starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf. Hluti stefnenda, eða þeir 11 sem eru efstir stefnenda á starfsaldurslista, hefði því með réttu átt að færast yfir á F-50 vélarnar. Aðrir stefnendur hafi að sama skapi hagsmuni af niðurstöðu þessa máls enda færist þeir ofar á lista þeirra sem bíða starfs hjá Flugleiðum hf.  Flugfélag Íslands hf. og Flugleiðir hf. séu aðilar að samningnum frá 29. desember 1999 og niðurstaða þessa máls muni auk þess ráða því hjá hvoru félaginu réttur og skylda til að manna umræddar 11 stöður á Fokker 50 vélunum sé. Niðurstaða þessa máls skipti flugmenn Flugfélags Íslands hf. miklu máli enda ráðist af henni hvort það eru flugmenn Flugfélags Íslands hf. eða Flugleiða hf. sem eiga með réttu að fylla þær 11 stöður á Fokker 50 vélunum sem losnuðu við uppsagnir flugmanna Flugleiða hf.  Flugmönnum Flugfélags Íslands hf. sé því stefnt til að þola dóm í málinu.

 

Málsástæður stefndu Samtaka atvinnulífsins vegna Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands

Stefndu byggja á því að þríhliða samkomulag hafi verið undirritað 29. desember 1999 milli FÍA, Flugleiða og Flugfélags Íslands. Samkvæmt 1. gr. þess skuli starfsaldurslistar vera tveir, annar fyrir flugmenn Flugfélags Íslands hf. og hinn fyrir flugmenn Flugleiða. Vegna þessa hafi flugmenn Flugleiða hf. fengið 12% launahækkun, sbr. 2. gr. samkomulagsins. Þá hafi allar Fokker flugvélarnar færst yfir á flugrekendaskírteini Flugfélags Íslands skv. 3. gr. Jafnframt sé tekið fram að allar nýjar stöður á Fokker 50 verði mannaðar af flugmönnum Flugfélags Íslands hf., sbr. 4. gr. Þeir flugmenn Flugleiða hf., sem fljúga Fokker 50 flugvélum, muni flytjast yfir á þotur Flugleiða hf. eftir því sem stöður þar losna. Þá segi í 5. gr. að á meðan þessir flugmenn bíði eftir lausum stöðum á þotum Flugleiða og fljúga Fokker 50 flugvélum muni þeir áfram vera starfsmenn Flugleiða hf. Að lokum komi fram í 8. gr. samkomulagsins að með því sé kröfum um launaleiðréttingu vegna jafnlaunastefnu mætt. 

Vegna samdráttar í flugrekstri hafi Flugleiðir hf. neyðst á síðastliðnu hausti til að segja upp 45 flugmönnum. Flugmenn Flugleiða hf. á Fokker 50 flugvélum í rekstri Flugfélags Íslands hafi þá verið 19 talsins. Eins og skylt sé hafi við uppsagnirnar verið fylgt starfsaldursröð, sbr. b. lið 5. gr. starfsaldursreglna flugmanna Flugleiða hf. Við það hafi nýjar stöður orðið lausar á Fokker 50 flugvélum Flugfélags Íslands hf. 

Eftir að uppsagnirnar höfðu verið kunngerðar hafi stjórn FÍA lýst þeirri skoðun sinni að það væri Flugfélags Íslands hf. að manna stöðurnar á Fokker 50 flugvélunum þegar Flugleiðamönnum væri sagt upp eða tækju sæti flugmanns á þotu, sbr. umfjöllun í fréttabréfi FÍA. Þar komi einnig fram að formaður FÍA, sem sé einn þeirra sem undirrituðu samkomulagið frá 1999, sé enn sömu skoðunar þrátt fyrir andstætt lögfræðiálit. Sé það sami skilningur og unnið sé eftir af hálfu Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf. Fyrir liggi því að allir aðilar samkomulagsins, Flugleiðir hf., Flugfélag Íslands hf. og FÍA, túlki það á sama hátt.    

Um skipun flugmanna í lausar stöður sé fjallað í starfsaldursreglum flugmanna.  Samkvæmt þeim sé það grundvallaratriði að í hvert skipti, sem þjálfa þarf flugmann á nýja flugvél, teljist það ný staða, óháð því hvaða ástæður það raunverulega eru sem kalla á nýja þjálfun. Í því tilviki, sem hér er til umfjöllunar, verði því til nýjar stöður í þeim skilningi þó að þær séu til komnar vegna samdráttar í rekstri.

Samkvæmt skýru orðalagi 4. gr. samkomulagsins frá 1999 skuli allar nýjar stöður flugmanna og flugstjóra á Fokker 50 flugvélum vera mannaðar með flugmönnum Flugfélags Íslands hf. Með nýjum stöðum sé því átt við þær stöður sem losna þegar flugmenn Flugleiða hf. hætta hvort heldur er vegna flutnings yfir á þotur Flugleiða hf. eða vegna uppsagna. Við það verði þær samkvæmt samkomulaginu að nýjum stöðum hjá Flugfélagi Íslands hf. sem manna skuli með flugmönnum þess félags enda um að ræða störf á þess vegum. Skilningur allra þriggja aðila samkomulagsins hvað þetta varðar sé sá sami.

Ljóst sé að það vakað hafi fyrir samningsaðilum að starfsaldurslistar félaganna yrðu að fullu aðskildir. Fyrir það hafi allir flugmenn Flugleiða hf. fengið 12% hækkun grunnlauna og hafi sú hækkun þegar komið að fullu til framkvæmda. Ef fallist yrði á kröfur stefnenda hefði það því í för með sér að forsendur þeirrar greiðslu væru brostnar. Jafnframt vísist til þess að eins og gert er ráð fyrir í samkomulaginu frá 1999 hafi Fokker 50 flugvélarnar verið færðar yfir á flugrekendaleyfi Flugfélags Íslands hf. og séu því ekki lengur í leigu hjá félaginu með áhöfn.

Samkomulagið frá 1999 miði að því að þeir flugmenn Flugleiða hf., sem fljúga Fokker 50 flugvélum, flytjist af þeim flugvélum. Sé því tekið fram að meðan þessir flugmenn bíði eftir lausri stöðu á þotum Flugleiða hf. og fljúgi Fokker 50 flugvélum muni þeir áfram verða starfsmenn Flugleiða hf. Af orðalagi 5. gr. og anda samkomulagsins í heild sé ljóst að það veiti ekki öðrum flugmönnum Flugleiða hf. en þeim sem flugu á Fokker 50 flugvélunum við gerð þess rétt til starfa á þeim vélum. Engin ákvæði séu í samkomulaginu sem gefi flugmönnum Flugleiða hf. forgangsrétt til þeirra starfa né verði slíkur réttur leiddur af öðrum ákvæðum kjarasamnings FÍA og Flugleiða hf. Verði fallist á kröfur stefnenda leiddi það til niðurstöðu sem sé beinlínis andstæð beinum ákvæðum 4., sbr. 5. gr. samkomulagsins frá 1999. 

Meginreglan sér að starfsmenn séu í þjónustu þess vinnuveitanda sem þeir starfa fyrir. Feli ákvæði 5. gr. samkomulagsins frá 1999 í sér frávik frá þeirri meginreglu og sæti því þröngri túlkun.

Við skýringu samkomulagsins verði einnig að taka tillit til áhrifa starfsaldursreglna kjarasamninga FÍA. Samningsaðilum hafi verið fullljóst að við samdrátt í rekstri væru Flugleiðir hf. skuldbundnar til að segja fyrst upp þeim flugmönnum sem hefðu stystan starfsaldur. Meðal þeirra væru að jafnaði þeir flugmenn félagsins sem flygju Fokker 50 flugvélunum. Ef tryggja hefði átt öðrum flugmönnum félagsins forgang til starfa þeirra við þær aðstæður hefði það því þurft að koma fram í samkomulaginu sjálfu. 

Stefndi bendi á að verulegir ágallar séu á kröfugerð stefnenda. Allir kröfuliðir varði sama réttarágreining. Að teknu tilliti til áhrifa starfsaldurslista flugmanna sé að þessu leyti enginn munur á endurráðningu og boði um ráðningu. Þá sé 3. kröfulið krafist viðurkenningar á skyldu til ráðningar í lítt skilgreindar stöður í óskilgreindan tíma.  Í 4. kröfulið sé heldur ekki nægilega afmarkað hvaða stöður það eru sem krafist er forgangsréttar til. Óljóst sé hvað felist í hugtakinu að ,,flytjast yfir? og hvort átt sé við bæði flugmenn og flugstjóra.  

 

Málsástæður stefndu, Arngríms Arngrímssonar o.fl.

Af hálfu þessara stefndu er á því byggt að þær ráðstafanir, sem um var samið í áðurnefndu samkomulagi frá 29. desember 1999, séu eðli sínu tímabundnar. Samkomulagið sé skv. efni sínu yfirfærslugerningur þar sem verið sé að ákveða hvernig skuli staðið að því að færa allan rekstur Fokker 50 vélanna frá Flugleiðum hf. til Flugfélags Íslands hf.

Stefndu líti svo á að með forgangsréttarákvæði kjarasamnings Flugfélags Íslands hf. og FÍA sé starfsmönnum Flugfélags Íslands hf. tryggður forgangur að þeim flugverkefnum sem rekin eru á vegum félagsins. Þröng undanþága sé gerð vegna nýtingar leiguflugvéla í samráði við FÍA enda leiði það ekki til uppsagna flugmanna félagsins. Byggi notkun Flugfélags Íslands hf. á flugmönnum Flugleiða hf. ekki lengur á leiguflugi heldur hafi Flugfélag Íslands hf. tekið yfir rekstur á flugvélunum skv.  samkomulaginu frá 29. desember 1999.

Sú túlkun samkomulagsins að 5. tl. þess feli í sér að starfsmenn Flugleiða hf. hafi ríkari rétt en starfsmenn Flugfélags Íslands hf. þar til stöður losna hjá Flugleiðum sé fráleit. Í fyrsta lagi sé ótækt að samkomulagið, sem ekki marki sjálft gildistíma sinn, geti um óákveðna framtíð gert að engu rétt stefndu skv. forgangsákvæði kjarasamningsins enda sé samkomulagið í eðli sínu tímabundið. Forsenda samkomulagsins hljóti að hafa verið að flugmenn Flugleiða hf., sem fljúga fyrir Flugfélag Íslands hf., flyttust yfir á þotur Flugleiða hf. um leið og stöður þar losnuðu. Á því er byggt af hálfu stefndu að það lúti ekki að neins konar ótímabundnum forgangi Flugleiðamanna á kostnað starfsmanna Flugfélags Íslands hf.

Sú túlkun, sem stefnendur haldi fram, að um ótímabundinn forgang Flugleiðamanna sé að ræða, standist ekki sem efnisleg skýring á samningnum frá 29. desember 1999. Við einfalda skoðun þess samkomulags sé augljóst að það fjalli ekki um neins konar forgangsrétt heldur einfaldlega um það hvernig staðið skuli að því að láta starfsmenn Flugfélags Íslands hf. taka við verkefnum í þágu félagsins af starfsmönnum Flugleiða hf. Það orðalag, sem fram kemur í upphafi 5. tl. samkomulagsins ?þeir flugmenn Flugleiða sem fljúga?, sé auk þess mjög afhjúpandi um það að samkomulagið fjalli alls ekki um stöður eða forgang til þeirra heldur um það hvernig skyldi komið fyrir málum þeirra einstaklinga sem í hlut áttu og gert var ráð fyrir að yrðu áfram í þjónustu Flugleiða hf. en yrðu settir til að sinna tímabundið verkefnum í þágu Flugfélags Íslands hf. Samkomulagið sé í eðli sínu sólarlagsákvæði og í því sé einstefnuloki sem geri að verkum að rétt skilið leiði það til þess að þegar þeir einstaklingar úr hópi starfsmanna Flugleiða hf., sem fljúga í þágu Flugfélags Íslands hf., hætta því komi ekki aðrir Flugleiðamenn í staðinn heldur skuli þeim störfum sinnt af mönnum sem ráðnir eru af Flugfélagi Íslands hf. og njóti sem slíkir réttar á grundvelli kjarasamnings Flugfélags Íslands hf. og FÍA.

Stefndu geri ekki frávísunarkröfu í máli þessu en benda hins vegar á að ýmis atriði, sem varða kröfugerð stefnenda séu þannig fram sett, að áhöld kunna að vera um hvort kröfugerð þeirra sé andstæð ákv. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um sakarefni, sbr. 24.-27. gr. og 80. gr. sbr. 100. gr. laganna.


Niðurstaða

Í umræddu samkomulagi milli Flugleiða hf., Flugfélags Íslands hf. og Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) frá 29. desember 1999, sem ber yfirskriftina ,,Samkomulag milli Flugleiða, Flugfélags Íslands og FÍA um framkvæmd á flutningi Fokker 50 reksturs frá Flugleiðum til Flugfélags Íslands?, er lagt til grundvallar að tveir starfsaldurslistar gildi fyrir flugmenn félaganna, annar fyrir flugmenn Flugfélags Íslands hf. og hinn fyrir flugmenn Flugleiða hf. Þá kemur þar fram að vegna samkomulagsins muni þotuflugmenn Flugleiða hf. fá 12% launahækkun grunnlauna sem komi til greiðslu í tveimur áföngum. Þá var gert ráð fyrir því að ein Fokker 50 flugvél Flugleiða hf. færðist yfir á flugrekendaskírteini Flugfélags Íslands hf. um leið og tilskilinna leyfa hefði verið aflað og þær flugvélar, sömu tegundar, sem eftir yrðu, færðust yfir á flugrekendaskírteini Flugfélags Íslands hf. eftir því sem aðstæður leyfðu. Var stefnt að flutningnum lyki fyrir árslok 2000 en fram er komið í málinu að Fokker 50 flugvélarnar færðust ekki yfir á flugrekstrarleyfi Flugfélags Íslands hf. fyrr en 15. maí 2001. Var Flugfélag Íslands hf. þar með orðið eini flugrekstrarleyfishafi fyrir þær flugvélar.

Um mönnun Fokker 50 vélanna segir svo í samkomulaginu:

,,4. Allar nýjar stöður flugmanna og flugstjóra á Fokker 50 munu verða mannaðar af flugmönnum Flugfélags Íslands frá gildistíma þessa samkomulags. Flugleiðir munu aðstoða Flugfélag Íslands við þessa þjálfun, a.m.k. í fyrstu eða þar til Flugfélag Íslands hefur komið sér upp þekkingu og reynslu til að annast þjálfunina sjálft.

5.  Þeir flugmenn Flugleiða sem fljúga Fokker 50 vélum munu flytjast yfir á þotur Flugleiða eftir því sem stöður þar losna. Þó er gert ráð fyrir að þeir flugstjórar Flugleiða á Fokker 50 sem ekki hafa reynslu til flugstjórastarfa á þotum geti starfað sem flugstjórar á Fokker 50 uns nauðsynlegri reynslu er náð. Á meðan að þessir flugmenn bíða eftir lausri stöðu á þotum Flugleiða og fljúga Fokker 50 flugvélum munu þeir áfram verða starfsmenn Flugleiða og þiggja laun frá Flugleiðum skv. gildandi samningum. Tæknilega munu þeir þó lúta stjórn Flugfélags Íslands við störf sín enda vinni þeir störf sín um borð í samræmi við flugrekstrarhandbók þess félags. Óski flugmenn Flugleiða eftir því að starfa á Fokker 50 eftir að lausar stöður eru til staðar fyrir þá á þotum Flugleiða og nauðsynlegri reynslu er náð, gilda ákvæði starfsaldursreglna um launalaus leyfi?.       

Ljóst er af framansögðu að flugmenn Flugleiða hf. fengu sérstaka 12% launahækkun með samkomulaginu vegna þess að starfsaldurslisti þeirra var aðskilinn frá starfsaldurslista Flugfélags Íslands hf. Flugmenn Flugfélags Íslands hf. fengu hins vegar enga kauphækkun af því tilefni.

Af orðalagi ákvæðis 1. málsl. 5. greinar samkomulagsins um að ,,Þeir flugmenn Flugleiða sem fljúga Fokker 50 vélum ...? muni flytjast á þotur Flugleiða hf. eftir því sem stöður þar losna, ákvæðis 2. málsl. greinarinnar þar sem segir ,,Þó er gert ráð fyrir að þeir flugstjórar ... geti starfað sem flugstjórar á Fokker 50 uns nauðsynlegri reynslu er náð?og ákvæðis 3. málsl. ,,Á meðan þessir flugmenn ...?  verður ráðið að miðað hafi verið við að samkomulagið hafi veitt þeim flugmönnum Flugleiða hf., sem störfuðu á Fokker 50 vélunum er samkomulagið var gert, rétt til starfa á þeim vélum en ekki öðrum flugmönnum Flugleiða hf. Það er því álit dómsins að túlka verði samkomulagið á þann veg að um tímabundnar ráðstafanir hafi verið að ræða varðandi þá flugmenn Flugleiða hf. sem biðu eftir að flytjast yfir á þotur félagsins enda er þar hvergi gert ráð fyrir að flugmennirnir kæmu til baka og hæfu störf á Fokker 50 flugvélum Flugfélags Íslands hf. eftir að þeir höfðu flust yfir á þoturnar. Á sama hátt verður að skilja samkomulagið á þann hátt að þegar flugmenn Flugleiða hf. hættu að fljúga á Fokker 50 flugvélunum kæmu ekki nýir flugmenn þess félags til starfa hjá Flugfélagi Íslands hf. þegar þær stöður losnuðu.

Við túlkun samkomulagsins frá 29. desember 1999  er mikilvægt að hafa í huga markmið þess sem var, eins og yfirskrift þess ber með sér, að flytja Fokker 50 rekstur frá Flugleiðum hf. til Flugfélags Íslands hf. Til samræmis við þann tilgang segir í 4. gr. samkomulagsins að allar nýjar stöðu flugmanna og flugstjóra á Fokker 50 flugvélum muni verða mannaðar af flugmönnum Flugfélags Íslands hf. frá ,,gildistíma? samkomulagsins.

Óumdeilt er að Flugleiðum hf. bar að segja umræddum 45 flugmönnum sínum upp eftir starfsaldursröð þeirra, sbr. b. lið 5. gr. starfsaldursreglna félagsins. Meðal þeirra voru 7 flugmenn á Fokker 50 flugvélum Flugfélags Íslands hf. og 6 flugstjórar á vélunum en uppsagnir tveggja þeirra voru dregnar til baka. Þykir verða að skilja samkomulagið á þann veg að með því að launagreiðandi þeirra, Flugleiðir hf., sagði þeim upp störfum greint sinn, þar á meðal flugmönnum og flugstjórum sínum á Fokker 50 flugvélum, hafi umræddar stöður þeirra þar losnað. Kom það þar af leiðandi í hlut Flugfélags Íslands hf. að manna stöðurnar með flugmönnum sínum samkvæmt 4. gr. samkomulagsins. Fram er og komið í málinu að það er og var sameiginlegur skilningur aðila umrædds samkomulags, þar á meðal stjórnar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, að það hafi verið á valdi Flugfélags Íslands hf. að manna stöður á Fokker 50 flugvélunum hvort sem flugmönnum Flugleiða hf. á vélunum var sagt upp störfum eða þeir tóku sæti flugmanna á þotu. 

Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefndu  af kröfum stefnanda í máli þessu en eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður.


Dómsorð:

Stefndu, Samtök atvinnulífsins vegna Flugleiða hf. og Flugfélags Íslands hf., Arngrímur Arngrímsson, Axel Ingi Eiríkssoni, Baldur Þorsteinsson, Bjarki Viðar Hjaltasson, Ellef Ellefsson, Elmar Gíslason, Frímann Svavarsson, Georg Hansen,  Guðjón H. Gunnarsson, Guðni Páll Nielsen, Gunnar Björn Bjarnason, Gústaf Guðmundsson, Hafliði Páll Maggasson, Hákon Helgason, Heimir Helgason, Hlynur Bjarkason, Ingimar Örn Erlingsson, Jóhann Skírnisson, Jónas Jónasson, Karl Jónsson,  Kolbeinn Ingi Arason, Kristján Jakobsson, Ólafur Georgsson, Ólafur Pétursson,  Ragnar Arnarsson, Ragnar Árni Ragnarsson, Ragnar Magnússon, Ragnar Smári Ólafsson, Rúnar Rúnarsson, Rögnvaldur S. Hilmarsson, Sigurður Aðalsteinsson,  Sveinbjörn M. Bjarnason, Torfi Gunnlaugsson, Tryggvi Jónsson, Vilhjálmur Þ. Arnarsson, Þorleifur E. Pétursson og Þórhallur Magnússon, eru sýknir af kröfum stefnenda, Guðmundar Kristins Erlendssonar, Benedikts Gunnarssonar, Guðna Diðriks Óskarssonar, Stefáns Davíðs Helgasonar, Atla Freys Þórðarsonar, Sigurðar Einars Guðmundssonar, Steinþórs Páls Ólafssonar, Albert Þórs Sverrissonar, Þóris Kristinssonar, Davíðs Davíðssonar, Magnúsar R. Sigtryggssonar, Davíðs Björns Ólafssonar, Jóns Þórs Þorvaldssonar, Jennu Lilju Jónsdóttur, Stefaníu Bergmann Magnúsdóttur, Össurar Brynjólfssonar, Grétars Þórarins Gunnarssonar, Matthíasar Ragnars Arngrímssonar, Magnúsar Ómars Jóhannssonar, Eyjólfs Svanbergs Gunnbjörnssonar, Sigrúnar Bjargar Ingvadóttur, Jóhanns Þórs Guðmundssonar, Kristjáns Hjörvars Hallgrímssonar, Matthíasar Arnar Friðrikssonar, Elíasar Egils Elíasson, kt. 170174-3729, Arnar Már Baldvinsson, kt. 040274-4999 og Guðjón Sverris Guðmundssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.


Sératkvæði  Vilhjálms H. Vilhjálmssonar:

Niðurstaða máls þessa ræðst af túlkun á fyrrnefndu samkomulagi Flugleiða hf., Flugfélags Íslands hf. og Félags Íslenskra atvinnuflugmanna frá 29. desember 1999. Það samkomulag er um margt óljóst og virðist svo sem aðilar þess hafi ekki gert ráð fyrir þeirri fækkun í flugmannastörfum hjá Flugleiðum hf., sem í reynd varð, og mál þetta er risið af.

Þegar 4. og 5. grein samkomulagsins eru metnar í heild, er nærtækast að skýra þær svo að flugmenn á starfsaldurslista Flugleiða myndu áfram gegna störfum á Fokker 50 vélunum allt þar til flugmennirnir fengju stöðu á þotum Flugleiða hf.

Þessi túlkun styðst við 1.og 3. mgr. 5. greinar samkomulagsins, þar sem ekki virðist ráð fyrir því gert að flugmenn Flugleiða hætti störfum á Fokker 50 flugvélum, nema þeir fái stöðu á þotum Flugleiða, sbr. orðalagið ,,eftir því sem stöður þar losna? í 1. mgr., og ,,bíða eftir lausri stöðu á þotum Flugleiða? í 3. mgr.

Gagnályktun frá 1. mgr. 4. gr. samkomulagsins styður einnig þessa túlkun, en 1. mgr. 4. gr. kveður á um að allar nýjar stöður flugmanna og flugstjóra á Fokker 50 skuli mannaðar flugmönnum Flugfélags Íslands hf.

Þá er ekki tekið fram í þessu samkomulagi, að það sé bundið við tiltekna nafngreinda flugmenn, þvert á móti eru þar nefndir ,,flugmenn Flugleiða? annars vegar og ,,flugmenn Flugfélags Íslands? hins vegar. Er með þeim orðum greinilega vitnað til starfsaldurslistanna tveggja sem enn eru í gildi.

Samkvæmt framansögðu er fallist á það með stefnendum, að 5. grein samkomulagsins frá 29. desember 1999 hafi verið brotin.

Þar sem meirihluti Félagsdóms hefur komist að annarri niðurstöðu við túlkun samkomulagsins er ekki þörf á að leysa úr einstökum dómkröfum stefnenda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta