Hoppa yfir valmynd
23. júní 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2002: Dómur frá 23. júní 2002.

Ár 2002, sunnudaginn 23. júní, var í Félagsdómi í málinu nr. 8/2002:

Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs

gegn

Læknafélagi Íslands

og Félagi ungra lækna

kveðinn upp svofelldur

dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var 21. júní síðastliðinn, var höfðað 18. sama mánaðar.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Björn L. Bergsson og Kristján Torfason.

Stefnandi er Fjármálaráðherra, kt. 540269-6459, f.h. ríkissjóðs, Arnarhváli, Reykjavík.

Stefndu eru Læknafélag Íslands, kt. 450269-2639, Hlíðarsmára 8, Kópavogi, og   Félag ungra lækna, kt. 571193-2649, Hlíðarsmára 8, Kópavogi.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að Læknafélag Íslands hafi, við gerð kjarasamnings aðila 2. maí 2002, farið með samningsaðild fyrir félagsmenn í Félagi ungra lækna.

Að viðurkennt verði að boðaðar vinnustöðvanir félagsmanna Félags ungra lækna, tímabundið í fjóra sólarhringa frá kl. 00 mánudaginn 24. júní til kl. 24 fimmtudaginn 27. júní 2002, tímabundið í fjóra sólarhringa frá kl. 00 mánudaginn 15. júlí til kl. 24 fimmtudaginn 18. júlí 2002, tímabundið í fjóra sólarhringa frá kl. 00 þriðjudaginn 6. ágúst til kl. 24 föstudaginn 9. ágúst 2002 og allsherjarverkfall frá kl. 00 mánudaginn 2. september 2002, séu ólögmætar.

Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda málskostnað.

 

Dómkröfur stefnda Læknafélags Íslands 

Þess er krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

 

Dómkröfur stefnda Félags ungra lækna

Krafist er sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

Málavextir

Stefnandi og stefndi, Læknafélag Íslands, hófu á árinu 2001 viðræður um gerð kjarasamnings en gildandi kjarasamningur sömu aðila hafði runnið út fyrr á sama ári. Lauk samningaviðræðum 2. maí 2002 með því að ritað var undir kjarasamning milli stefnanda og St. Franciskusspítali annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar. Skyldi kjarasamningurinn gilda frá l. apríl 2002 til 31. desember 2005 og falla þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Var kjarasamningurinn undirritaður af Læknafélagi Íslands með fyrirvara um samþykki félagsmanna. Samningurinn var samþykktur af 61.1% þeirra félagsmanna Læknafélags Íslands sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu um hann 16. maí síðastliðinn. Fram er komið í málinu að fulltrúi stefnda, Félags ungra lækna, neitaði að rita undir kjarasamninginn vegna þess að í honum hafi ekki verið virtar grundvallaróskir stefnda um vinnuákvæði, kjör og fleira. Boðaði Félag ungra lækna til aukaaðalfundar 10. maí síðastliðinn þar sem samþykkt var að gera félagið að sjálfstæðu stéttarfélagi sem starfaði á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og meginreglu stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Telur Félag ungra lækna sig ekki aðila að umræddum kjarasamningi frá 2. maí síðastliðnum og hafi engir félagsmenn þess tekið þátt í atkvæðagreiðslunni um hann 16. sama mánaðar.

Með bréfi formanns Félags ungra lækna til stefnanda, Landspítala- háskólasjúkrahúss, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Sjúkrahúss Akraness og St. Jósefsspítala, dagsettu 10. júní 2002, var tilkynnt að í atkvæðagreiðslu félagsmanna Félags ungra lækna dagana 5. - 6. júní 2002 hefði verið samþykkt verkfallsboðun félagsins á framangreindum sjúkrahúsum, tímabundið í fjóra sólarhringa frá kl. 00 mánudaginn 24. júní til kl. 24 fimmtudaginn 27. júní 2002, tímabundið í fjóra sólarhringa frá kl. 00 mánudaginn 15. júlí til kl. 24 fimmtudaginn 18. júlí 2002, tímabundið í fjóra sólarhringa frá kl. 00 þriðjudaginn 6. ágúst til kl. 24 föstudaginn 9. ágúst 2002 og allsherjarverkfall frá kl. 00 mánudaginn 2. september 2002. Með bréfi stefnanda til formanns Félags ungra lækna, dagsettu 13. júní 2002, var verkfallsboðuninni mótmælt sem ólögmætri.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að hann hafi um árabil gert kjarasamninga við stefnda, Læknafélag Íslands, um störf lækna hjá íslenska ríkinu. Læknafélag Íslands sé fagstéttarfélag og grundvallist samningsaðild þess gagnvart stefnanda á ákvæði 5. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. og 4. gr. s.l. Hafi félagið samið við stefnanda vegna allra starfandi lækna hjá íslenska ríkinu sem falla undir ákvæði laga nr. 94/1986, þ.e. annarra lækna en þeirra sem lögum samkvæmt njóta launa og annarra starfskjara samkvæmt ákvörðun kjaranefndar. Stefndi, Félag ungra lækna, eigi aðild að Læknafélagi Íslands og um réttarstöðu þess fari samkvæmt lögum síðarnefnda félagsins, sbr. einkum 3. gr. þeirra. Um kjaramál, stöður og vinnudeilur sé m.a. fjallað í ákvæði VII. kafla sömu laga. Hafi Læknafélag Íslands farið með samningsaðild f.h. Félags ungra lækna allt frá stofnun þess.

Með undirritun kjarasamnings og atkvæðagreiðslu um hann hjá félagsmönnum Læknafélags Íslands hafi komist á fullgildur kjarasamningur. Í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1986 og meginreglur íslensks vinnuréttar hafi kjarasamningurinn bundið alla þá sem Læknafélag Íslands fór með samningsaðild fyrir, þ.m.t. félagsmenn Félags ungra lækna. Hafi svonefnd friðarskylda komist á milli sömu aðila við gildistöku kjarasamningsins.

Þá er á því byggt að Læknafélag Íslands hafi við upphaf samningaviðræðna við stefnanda tilkynnt samninganefnd sína og hafi enginn fyrirvari eða áskilnaður komið fram af hálfu félagsins um breytingar á samningsaðild eða samningsumboði. Þá hafi fulltrúi Félags ungra lækna tekið þátt í samningaviðræðum frá upphafi til enda.  Læknafélag Íslands hafi eitt farið með samningsaðild f.h. starfandi lækna hjá íslenska ríkinu skv.l. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986. Í samræmi 1. mgr. 7. gr. þeirra laga  skuli starfsmaður, sem lögin taka til, eiga rétt til þátttöku í stéttarfélagi sem fer með samningsumboð samkvæmt lögunum eftir því sem samþykktir viðkomandi félags segja til um. Enn fremur segi í nefndu ákvæði að aðeins eitt félag fari með umboð til samninga fyrir hann. Læknafélag Íslands hafi farið með samningsaðild f.h. allra starfandi lækna hjá íslenska ríkinu við gerð síðustu kjarasamninga og hafi félagsmenn Félags ungra lækna átt aðild að umræddu stéttarfélagi. Samkvæmt því hafi ekki aðrir en Læknafélags Íslands farið með eða getað farið með samningsaðild fyrir félagsmenn Félags ungra lækna við gerð kjarasamninga. Krefjist stefnandi því viðurkenningar á því að félagsmenn Félags ungra lækna hafi fallið undir samningsaðild félagsins við gerð síðustu kjarasamninga.

Að auki sé á því byggt að jafnvel þó svo talið yrði að einstakir félagsmenn eða hópar innan Félags ungra lækna hafi sagt sig úr Læknafélagi Íslands á tilgreindu tímamarki séu félagsmenn þess áfram bundnir af löglega gerðum kjarasamningum út gildistíma þeirra. Hafi Félag ungra lækna þar að auki ekki gert reka að því að afturkalla samningsumboð gagnvart Læknafélagi Íslands fyrr en eftir að kjarasamningur var undirritaður. Um samningsaðild lækna farið alfarið eftir ákvæðum laga nr. 94/1986 sem séu sérlög er gangi framar almennum 1ögum um sama efni.

Til viðbótar byggi stefnandi á því að hvorki hafi verið tilkynnt um samningsaðild f.h. Félags ungra lækna með þeim hætti sem lög kveða á um, sbr. t.d. ákvæði 3. tl. 5. gr., sbr. ákvæði 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986, né heldur hafi viðeigandi ráðstafanir verið gerðar um skipan samninganefndar o.fl., tilkynningar um samningsaðild/umboð o.þ.h. í samræmi við fyrirmæli ákvæða l. mgr. 8. gr. laga nr. 94/1986 og samkvæmt því hafi stefnandi mátt ganga út frá því að engar breytingar hafi á orðið.

Leiði framangreind sjónarmið og málsástæður til þess að boðaðar vinnustöðvanir Félags ungra lækna séu ólögmætar.  Sé kjarasamningur aðila bindandi út gildistíma hans óháð því hvort einstakir félagsmenn og/eða hópar félagsmanna segi sig úr stefnda Læknafélagi Íslands.

Þar að auki byggi stefnandi á að Félag ungra lækna hafi ekki uppfyllt skilyrði til að öðlast samningsrétt á grundvelli 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Vísist nánar um þau atriði til ákvæða 5., 6. og 7. gr. laga nr. 94/1986. Þá hafi atkvæðagreiðsla félagsmanna Félags ungra lækna ekki uppfyllt að öðru leyti skilyrði laga nr. 94/1986. Í tilkynningu um vinnustöðvun hafi ekki komið fram hversu margir voru á kjörskrá og því vandséð hvort skilyrði til boðunar verkfalls hafi verið uppfyllt. Þá hafi þar ekki komið fram að atkvæðagreiðsla hafi verið leynileg í samræmi við ákvæði 15. gr. áðurnefndra laga. Enn fremur hafi verkfallsboðun ekki uppfyllt það skilyrði 16. gr. sömu laga að hafa verið tilkynnt ríkissáttasemjara og þeim sem hún beinist gegn skemmst 15 sólarhringum áður en hún skuli hefjast. Að lokum hafi ekki verið uppfyllt það það formskilyrði að leggja fram kröfugerð gagnvart stefnanda.

 

Málsástæður og lagarök stefnda Læknafélags Íslands

Stefndi reisir sýknukröfu á því að enginn ágreiningur sé milli hans, vegna félagsmanna í Læknafélagi Íslands sem samningurinn taki, og stefnanda um nefndan kjarasamning aðila. Hafi stefndi eða trúnaðarmenn hans ekki rofið samninginn boðað vinnustöðvun eða aðgerðir, sem telja megi brot á friðarskyldu, enda sé af stefnanda hálfu ekki byggt á sök stefnda. Sé máli þessu ranglega beint gegn stefnda og því krafist sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök stefnda Félags ungra lækna

Stefndi byggir sýknukröfu á því að boðað verkfall sé í einu og öllu lögmæt aðgerð stéttarfélags sem hafi heimild til að gera kjarasamninga fyrir hönd  félagsmanna sinna og fylgja kröfum eftir með verkfallsboðun. Vísist um þann rétt til laga nr. 80/1938 og um rétt manna til að stofna stéttarfélög sem tryggður sé í 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Uppfylli Félag ungra lækna öll skilyrði sem lög nr. 80/1938 setja um stéttarfélög en Félag ungra lækna sé landsfélag læknakandidata og þeirra sem fá læknaréttindi á Íslandi. Með útgöngu sinni úr samninganefnd Læknafélags Íslands og síðar úr félaginu svo og breytingu á lögum Félags ungra lækna beri viðsemjendum að ganga til viðræðna við félagið um kjör félagsmanna.

Stefndi hafni því að um réttarsamband hans og stefnanda gildi lög nr. 94/1986. Bendi ekkert í lögunum til að læknar falli undir lögin og um það sé ekkert kveðið á um í kjarasamngi stefnanda við Læknafélag Íslands eða lögum þess félags. Séu verulegar hömlur settar á það í lögunum að önnur félög geti fallið undir þau. Þar sem um sérlög sé að ræða verði að skýra ákvæði þeirra að þessu leyti þröngt.

Hafnað sé að þeir kjarasamningar, sem samninganefnd Læknafélags Íslands gerði við stefnanda og undirritaðir voru 2. maí 2002, nái til Félags ungra lækna og bindi þá út samningstímann. Félag ungra lækna hafi verið sjálfstætt félag um árabil. Það hafi verið aðili að Læknafélagi Íslands og haft þar réttarstöðu svæðafélags þar til það hafi breytt lögum sínum á aukaaðalfundi félagsins í maí sl. og gerst þannig ótvírætt stéttarfélag á grundvelli laga nr. 80/1938.

Í 16. gr. laga Læknafélags Íslands segi að félagið sjái um gerð kjarasamninga lækna í samráði við svæðafélög og önnur félög lækna eftir því sem við eigi hverju sinni. Hafi Félag ungra lækna sérstöðu innan félaga Læknafélags Íslands og séu fulltrúar fyrrnefnda félagsins tilnefndir af því en ekki af stjórn Læknafélags Íslands eins og allir aðrir fulltrúar í samninganefndinni. Hafi Læknafélag Íslands aldrei haft samráð við Félags ungra lækna í samræmi við ákvæði laganna meðan á samningaviðræðum stóð og hafi fullrúar Félags ungra lækna alltaf talað sjálfir máli félagsins og lagt fram sérstakar kröfur einvörðungu fyrir unglækna.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 enda hefur lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna verið beitt um langt árabil um kjarasamninga lækna við stefnanda, sbr. til dæmis dóm Félagsdóms í V. bindi dómasafns réttarins á bls. 82.

Í máli þessu beinir stefnandi kröfum sínum sameiginlega bæði að Læknafélagi Íslands og Félagi ungra lækna. Ágreiningslaust er með aðilum að Læknafélag Íslands á ekki í neinni deilu við stefnanda um um kjarasamning þann sem stefnandi og stefndi gerðu með sér 2. maí síðastliðinn. Jafnframt er óumdeilt að félagið stendur ekki að boðuðum vinnustöðvunum félagsmanna Félags ungra lækna. Þá upplýsti Oddur Steinarsson, formaður Félags ungra lækna, fyrir dómi að enginn félagsmaður þess hefði verið í Læknafélagi Íslands er boðað var til umræddra vinnustöðvana. Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, á Læknafélag Íslands enga aðild að þeim ágreiningsefnum sem til úrlausnar eru í máli þessu. Ber þar af leiðandi að sýkna þennan stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Svo sem áður greinir undirrituðu Læknafélag Íslands og stefnandi nýjan kjarasamning 2. maí síðastliðinn, er leysti af hólmi eldri kjarasamning sem gilt hafði frá 1. nóvember 1997 til 31. október 2000, en sá samningur hafði verið framlengdur með sérstöku samkomulagi frá 1. júlí 2001 til 28. febrúar 2002. Óumdeilt er að eldri kjarasamningar þessara aðila tóku til allra félagsmanna Læknafélags Íslands er störfuðu hjá stefnanda, þar með talið félagsmanna í Félagi ungra lækna. Stóð Læknafélag Íslands að þeirri samningagerð í krafti ákvæðis 16. gr. félagslaga sinna sem kveður á um að félagið sjái um gerð kjarasamninga lækna í samráði við svæðafélög og önnur félög lækna eftir því sem við eigi hverju sinni. Áttu félagsmenn Félags ungra lækna aðild að þeim viðræðum sem meðlimir í samninganefnd Læknafélags Íslands, sbr. 8. gr. laga nr. 94/1986. Fór Læknafélag Íslands því með samningsaðild fyrir félagsmenn Félags ungra lækna við gerð kjarasamningsins 2. maí 2002 við stefnanda og St. Franciskusspítala.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur hættir meðlimur stéttarfélags að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, eru skuldbindandi fyrir hann meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn. Sömu reglu gætir í 4. mgr. 6. gr. laga 94/1986 þar sem kveðið er á um að stofnun nýs félags, sem fer með samningsumboð samkvæmt 5. gr. laganna, skuli tilkynna að minnsta kosti þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þeirra kjarasamninga sem gilda fyrir félagsmenn hins nýja félags. Er ofangreindur kjarasamningur var undirritaður var Félag ungra lækna samkvæmt 2. grein þágildandi félagslaga sinna sjálfstætt aðildarfélag Læknafélags Íslands og naut réttarstöðu svæðafélags en var hins vegar ekki samkvæmt félagslögum sínum stéttarfélag sem var lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlina sinna, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938.

Af framansögðu leiðir að félagsmenn Félags ungra lækna eru bundnir af kjarasamningi stefnanda og stefnda, Læknafélags Íslands, sem tók gildi þann 2. maí 2002, þar til hann rennur út 31. desember 2005. Felur sú samningsskuldbinding  ekki í sér skerðingu á frjálsri stéttarfélagsaðild þeirra.

Með vísan til ofanritaðs eru boðaðar vinnustöðvanir Félags ungra lækna í andstöðu við 14. gr. laga nr. 94/1986 og því ólögmætar.

Eftir úrslitum málsins er rétt að stefnandi greiði stefnda, Læknafélagi Íslands, málskostnað, sem ákveðst 100.000 krónur, og að stefndi, Félag ungra lækna, greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.

 

Dómsorð:

Stefndi, Læknafélag Íslands, er sýkn af kröfum stefnanda, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, í máli þessu.

Stefndi, Læknafélag Íslands, fór með samningsaðild fyrir félagsmenn stefnda, Félags ungra lækna, við gerð kjarasamnings 2. maí 2002 við stefnanda og St. Franciskusspítala.

Boðaðar vinnustöðvanir félagsmanna stefnda, Félags ungra lækna, eru ólögmætar.

Stefnandi greiði stefnda, Læknafélagi Íslands, 100.000 krónur í málskostnað.

Stefndi, Félag ungra lækna, greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta