Hoppa yfir valmynd
20. mars 2018 Utanríkisráðuneytið

Barn er fyrst og fremst barn - ekki útlendingur

Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Eva Bjarnadóttir sérfræðingur UNICEF kynna skýrsluna. Ljósm. UNICEF - mynd

Stjórnvöld þurfa að tryggja betur að börnum sé ekki mismunað á grundvelli þess að þau séu umsækjendur um alþjóðlega vernd, samkvæmt nýrri rannsókn UNICEF um stöðu barna sem leita eftir alþjóðlegri vernd á Norðurlöndunum. Skýrslan, sem ber heitið  Vernduð í raun? Greining á viðbrögðum Norðurlanda við umsóknum barna um alþjóðlega vernd, var kynnt á opnum fundi í Norræna húsinu í hádeginu í dag þar sem fullt var út úr dyrum.

Á fundinum voru pallborðsumræður þar sem meðal annars var rætt um hvernig við uppfyllum Barnasáttmálann í raun, hvernig við tryggjum eftirfylgni með nýjum lögum um útlendinga og hvernig við styrkjum þjónustu við börn sem sækja hér um alþjóðlega vernd.

Ingibjörg Broddadóttir og Haukur Guðmundsson, fulltrúar stjórnvalda, tóku á móti tillögum UNICEF á Íslandi um umbætur.

Margt við móttöku barna ábótavant

„Barn er fyrst og fremst barn, hverjar svo sem aðstæður hans eða hennar eru,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, sem stýrði fundi í Norræna húsinu í dag. „Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður skýrt á um að öll börn eiga sömu réttindi. Börn sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi eiga því sömu mannréttindi og öll önnur börn hér á landi“.

Norðurlöndin hafa lengi verið talin til fyrirmyndar þegar kemur að móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd. Hröð fjölgun flóttafólks til Norðurlanda á síðustu árum hefur hins vegar leitt til breytinga á kerfum ríkjanna. Tilgangur skýrslunnar er að leiða í ljós hver staða barnanna er nú og hvernig réttindi barna eru uppfyllt í raun.

Það var rannsóknarmiðstöð UNICEF – Innocenti – sem sá um framkvæmd skýrslunnar fyrir landsnefndir UNICEF á Norðurlöndunum. Í ljós kom að ekkert Norðurlandanna stenst fyllilega alþjóðlegar og innlendar skuldbindingar um að tryggja réttindi barna í leit að vernd, þar á meðal Ísland. Margt við móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd er ábótavant og nauðsynlegt að ráðast í tafarlausar úrbætur og tryggja að þeim ákvæðum laga um útlendinga er varðar réttindi og hagsmuni barna sé framfylgt með fullnægjandi hætti.

Í skýrslunni er einnig bent á það sem vel hefur tekist til, og er Barnahús á Íslandi nefnt sem dæmi um góða framkvæmd. Þar eru fylgdarlaus börn til að mynda tekin í sérhæfð viðtöl í barnvænu umhverfi og þurfa bara að segja sögu sína einu sinni.

„Staðan var ekki góð þegar fjölgun flóttafólks var sem mest, en það hefur margt breyst til batnaðar. Hér á Íslandi höfum við tekið mikilvæg skref í rétta átt og getum gert enn betur með því að bæta framfylgd laganna og tryggja rétt barnanna á öllum stigum umsóknarferilsins,“ segir Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá UNICEF á Íslandi.

Barnaverndaryfirvöld eiga að taka fulla ábyrgð

Skýrslan undirstrikar mikilvægi þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli lagalegrar stöðu þeirra. „Þegar teknar eru ákvarðanir sem varða líf barna ætti að líta til Barnasáttmálans fyrst og fremst, og þeirra laga sem vernda börn hér á landi. Af því leiðir að barnaverndaryfirvöld taki forystu í málaflokknum og taki fulla ábyrgð á að réttindi allra barna séu virt,” segir Eva.

Í skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir að löggjöfin á Íslandi eigi að vernda rétt barna á meðan þau dvelja hér sé staðan þó sú að þeim sé ekki fyllilega framfylgt þegar kemur að börnum sem sækja hér um alþjóðlega vernd. Því þurfi að breyta viðhorfum og tryggja að lögunum sé framfylgt.

 „Niðurstöður skýrslunnar endurspegla þörfina fyrir þessa viðhorfsbreytingu og um leið tækifærin til að gera betur,“ segir Bergsteinn. 

Niðurstöður um stöðuna á Íslandi eru meðal annars:

  • Skortur er á tækifærum fyrir börn til að tjá skoðanir sínar, sérstaklega börn sem koma í fylgd fjölskyldu sinnar;
  • Börn þurfa að fá betri upplýsingar um réttindi sín og umsóknarferlið, í samræmi við aldur sinn og þroska;
  • Í skýrslunni kemur fram að barn hafi „gleymst“ á móttökumiðstöðinni. Barnaverndaryfirvöld þurfa að tryggja skýra ábyrgð á fylgdarlausum börnum og gæta að velferð þeirra og hagsmunum í gegnum allt umsóknarferlið;
  • Aldursgreiningar byggja ekki á heildstæðu mati, líkt og lög gera ráð fyrir, og börnin eiga ekki kost á því að áfrýja niðurstöðu aldursgreiningar;
  • Þrátt fyrir að aðgengi barna að grunnskólamenntun hafi verið bætt á síðasta ári eru til staðar stjórnsýslulegar hindranir varðandi menntun barna. Til dæmis velja sveitarfélög sjálf hvort og hversu mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd þau veita þjónustu. Menntun barna sem njóta ekki þjónustu sveitarfélags er háð samningum Útlendingastofnunar við sveitarfélögin, í stað þess að vera tryggð í lögum;
  • Börn hafa aðeins rétt á takmarkaðri heilbrigðisþjónustu, en ekki t.d. tannlæknaþjónustu;
  • Það hefur enginn sjálfstæður aðili á sviði mannréttinda eftirlit með umsóknarferli barna um alþjóðlega vernd;
  • Börnum er mismunað eftir aldri. Til dæmis má vista börn 15 ára og eldri í mótttökumiðstöð, og börn 15 ára  og yngri fá síður að tjá sig um eigin málefni;
  • Fylgdarlaus börn eru í mótttökumiðstöð án viðeigandi umönnunar;
  • Aðstaða fyrir börn í fylgd með foreldrum er ábótavant í mótttökumiðstöðinni;
  • Mat á því sem barninu er fyrir bestu í umsóknarferlinu þarf að skýra og bæta;
  • Aðgerðaráætlun um mansal hefur ekki verið uppfærð, en hún rann út árið 2016.

UNICEF vinnur að því að tryggja réttindi allra barna. Skýrslan helst í hendur við alþjóðlegt ákall UNICEF um aðgerðir til að tryggja öryggi allra barna á flótta og í leit að alþjóðlegri vernd.

Skýrslan

  • Barn er fyrst og fremst barn - ekki útlendingur - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 16 Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta