Stóreflt samstarf við ríki og stofnanir um jarðhitanýtingu
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, flutti í dag opnunarræðu á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu sem haldin er í Hörpu næstu tvo daga að frumkvæði íslenska jarðhitaklasans. Í máli sínu fjallaði ráðherra um þróun jarðhitanýtingar á Íslandi og hvernig orkan úr iðrum jarðar hefur gjörbreytt orkunotkun þjóðarinnar. Jarðvarmi gegni mikilvægu hlutverki sem einn af orkugjöfum framtíðarinnar. Hann sé enn vanmetin víða um heim en með aukinni þekkingu og nýrri tækni muni nýting hans aukast á næstu árum. Ísland sé stolt af því að leggja sitt af mörkum til þess, m.a. með Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna þar sem fjöldi verðandi jarðhitasérfræðinga alls staðar að hafi hlotið þjálfun sl. 30 ár.
Utanríkisráðherra sagði núverandi ríkisstjórn hafa lagt sérstaka áherslu á jarðhitanýtingu og að í ráðherratíð sinni hafi hann lagt sig fram um að efla samstarf Íslands við erlend ríki og alþjóðastofnanir á þessu sviði. Hann fagnaði sögulegu samstarfi Íslands og Alþjóðabankans, sem felur í sér að Ísland er helsti samstarfsaðili bankans á sviði jarðhitanýtingar þar sem sérstök áhersla verður lögð á að flýta virkjun jarðhita í afríska sigdalnum.
Við opnun ráðstefnunnar talaði einnig Dr. Sri Mulyani Indrawati framkvæmdastjóri Alþjóðabankans þar sem hún tilkynnti formlega um stofnun 65 milljarða króna sjóðs á vegum bankans til stuðnings jarðhitanýtingu í þróunarríkjum, en Ísland er helsti samstarfsaðili bankans í því verkefni. Utanríkisráðherra fagnaði sérstaklega þessu framtaki bankans sem með styrk sínum og þekkingu ryður þannig úr vegi mestu fyrirstöðu jarðvarmaverkefna sem er fjármögnun tilraunaborana.
Á ráðstefnunni koma saman yfir 500 manns víðs vegar að úr heiminum, margir af fremstu sérfræðingum jarðhitageirans frá yfir fjörtíu þjóðlöndum og fulltrúar alþjóðastofnana, svo sem IRENA - alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orkugjafa, umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Alþjóðabankans. Helstu áhersluefni ráðstefnunnar verða vinnsla, fjármögnun og fjölnýting jarðhita.
Günter Oettinger, framkvæmdastjóri orkumála hjá Evrópusambandinu, mun einnig heimsækja Ísland í boði utanríkisráðherra og ávarpar lokaathöfn ráðstefnunnar á morgun.
Opnunarræða utanríkisráðherra
Fréttatilkynning Alþjóðabankans um sjóð til jarðhitanýtingar í þróunarríkjum.