Hoppa yfir valmynd
21. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Brýn þörf fyrir öflugt vinnuverndarstarf

Þau áföll sem riðið hafa yfir þjóðina á síðustu vikum hafa skapað ríkari nauðsyn en ella til að huga sérstaklega vel að öflugu vinnuverndarstarfi. Þetta kom fram í ávarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, sem aðstoðarmaður hennar, Hrannar Björn Arnarsson, flutti fyrir hennar hönd við upphaf vinnuverndarviku sem sett var í dag. Ráðherra beindi þeim eindregnu tilmælum til atvinnurekenda að sýna starfsfólki mikla tillitssemi við þær aðstæður sem nú hefðu skapast þar sem fjölmörgum hefði þegar verið sagt upp vinnunni og gera yrði ráð fyrir að fleiri muni bætast í þann hóp.

Fram kom í ávarpinu að skráð vinnuslys á Íslandi voru tæplega 1.500 árið 2007 en í reynd væru slysin enn fleiri. Þá hefði dauðaslysum fjölgað og væru erlendir starfsmenn fórnarlömb þeirra að stórum hluta. Á hverju ári deyja 167.000 manns í aðildarríkjum Evrópusambandsins í vinnuslysum eða af sjúkdómum sem rekja má til aðstæðna í vinnuumhverfinu. Árlega eru meira en sjö milljónir manna í ríkjum Evrópusambandsins frá vinnu í þrjá daga eða lengur sökum vinnuslysa.

„Það liggur í augum uppi að gífurlegir samfélagslegir hagsmunir felast í því að draga úr mannlegri þjáningu sem og fjarvistum frá vinnu vegna slysa eða atvinnusjúkdóma“, sagði ráðherra og lagði áherslu á að atvinnurekendur ræktu vel þá skyldu sína að framkvæma mat á áhættuþáttum í vinnuumhverfi starfsmanna sem geta haft áhrif á heilsu þeirra eða stofnað lífi þeirra og limum í hættu. Ráðherra benti jafnframt á að þótt ábyrgð á áhættumati hvíldi á herðum atvinnurekenda ætti þetta að vera sameiginlegt viðfangsefni þeirra og samtaka launafólks.

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp félags- og tryggingamálaráðherra við upphaf vinnuverndarviku 2008



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta