Hoppa yfir valmynd
27. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra ávarpaði málþing um fjölskyldumál á Íslandi

Frá málþingi um fjölskyldumál á ÍslandiJóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði í dag málþing um fjölskyldumál á Íslandi sem nú stendur yfir á Grand Hóteli í Reykjavík. „Höfuð við hagsmuni barna að leiðarljósi?“ er yfirskrift málþingsins sem efnt var til af nefnd um einstæða og forsjárlausa foreldra og stjúpforeldra og réttarstöðu barna þeirra. Nefndina skipaði félags- og tryggingamálaráðherra í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að styrkja stöðu barna og ungmenna og er formaður hennar Ágúst Ólafur Ágústsson alþingismaður.

Jóhanna sagði að í yfirstandandi þrengingum mætti ekki gleymast að fjölskyldan í sínum fjölbreyttu myndum er ein helsta grundvallarstoð samfélagsins. Stjórnvöldum sé því skylt að huga að velferð hennar og sjálf muni hún leggja sitt af mörkum til að halda þeirri áherslu á lofti. „Ýmis gildi sem hafa verið í hávegum höfð í samfélaginu síðustu ár þurfa endurskoðunar við. Við þurfum öll að skoða hug okkar og velta því alvarlega fyrir okkur hvaða gildi eru okkur og samfélaginu mikilvægust til framtíðar. Þar tel ég óumdeilanlegt að samhjálp, velferð fjölskyldna og hagsmunir barna skuli vega þungt.“

Jóhanna rakti ýmsar aðgerðir til að bæta stöðu barna og barnafjölskyldna sem hrint hefur verið í framkvæmt í tíð ríkisstjórnarinnar. Þá hefði á síðustu misserum verið sótt fram af krafti til að efla og bæta velferðarkerfið og styrkja stöðu þeirra sem verst hafa verið settir. „Gjörbreyttar aðstæður vegna efnahagshrunsins neyða okkur úr sókn í vörn. Verkefnin framundan munu snúast um að standa vörð um þær úrbætur sem hafa náðst, jafnframt því að grípa til sérstakra úrræða til að verja heimilin og fjölskyldurnar í landinu, líkt og ég kynnti á þingi Alþýðusambands Íslands fyrir helgi.“ Ráðherra lagði áherslu á að ekki mætti leggja árar í bát. Þótt efnahagsástandið gæti leitt til þess að þungt yrðir fæti að hrinda ýmsum úrbótum í framkvæmd eins fljótt og vilji stæði til þá þyrfti vinnan að halda áfram og ýmsar úrbætur mætti gera án þess að kosta þyrfti miklu til.

„Sjaldan er jafnbrýnt og nú að foreldrar standi saman að velferð barna sinna. Hver svo sem fjölskyldugerðin er, þá er það þekkt staðreynd að gott samkomulag foreldra er eitt af aðalatriðum þess að barni líði vel og og búi við þroskavænleg uppeldisskilyrði. Það er rík skylda foreldra og uppalenda að láta ekki deilur og ósamkomulag bitna á börnum. Því er mikils vert að skapa aðstæður og lagalegt umhverfi sem setur hagsmuni barna ávallt í forgang þótt breytingar verði á fjölskylduhögum, til dæmis vegna skilnaðar foreldra eða af öðrum ástæðum. Ég þakka að lokum skipuleggjendum málþingsins fyrir sína vinnu og er fullviss um að það verði til gagns. Við skulum halda ótrauð áfram vinnu að velferðarmálum og sjá til þess að ekki verði stöðnun í málaflokkum eins og þeim sem hér er til umræðu. Staða fjölskyldunnar í öllum sínum fjölbreyttu myndum varðar mikilvæga hagsmuni þar sem við verðum að gæta réttlætis og jafnræðis fjölskyldna, börnum og fjölskyldum þeirra til handa.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp félags- og tryggingamálaráðherra á málþingi um fjölskyldumál á Íslandi

Skjal fyrir Acrobat Reader Dagskrá málþings um fjölskyldumál

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta