Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms
Málið má rekja til samkomulags sem þáverandi heilbrigðismálaráðherra handsalaði við formann Öryrkjabandalags Íslands um breytingar á greiðslu örorkulífeyris. Í dómsmáli vildi ÖBÍ fá viðurkennt „að komist hafi á samkomulag 25. mars 2003 milli sín og stefnda þess efnis að frá 1. janúar 2004 skyldi grunnörorkulífeyrir þeirra, sem samkvæmt lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar hafi verið metnir 75% öryrkjar eða meira á aldrinum 18 til 66 ára, hækka þannig að grunnlífeyrir þeirra, sem metnir hafi verið 75% öryrkjar eða meira 18 ára eða yngri, skyldi tvöfaldast, en lífeyrisviðauki þeirra, sem metnir hafi verið 75% öryrkjar eða meira 19 ára eða eldri, færi lækkandi um 2,04% fyrir hvert aldursár eftir 18 ára aldur til og með 66 ára aldurs, að teknu tilliti til skerðingarákvæða í lögum“ eins og segir í dómi Hæstaréttar. Krafðist ÖBÍ að ríkinu bæri að greiða sérhverjum öryrkja skaðabætur og dráttarvexti vegna vanefnda. Heilbrigðis-, trygginga og fjármálaráðherrar voru sýknaðir af kröfum ÖBÍ í héraðsdómi. Hæstiréttur kvað upp þann úrskurð að héraðsdómur skyldi vera óraskaður.