Sigríður Snævarr afhendir trúnaðarbréf í Singapúr
Í lok maímánaðar afhenti Sigríður Snævarr frú Halimah Yakob, forseta Singapúr, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands. Athöfnin fór fram í Istanahöllinni í Singapúr og af Íslands hálfu voru viðstaddir athöfnina, þeir Prakash Pillai kjörræðismaður Íslands í Singapúr og Halldór Elís Ólafsson viðskiptafulltrúi í Tokyo, stjórnarmaður í Norræna Nýsköpunarsetrinu í Singapúr. Sigríður Snævarr er heimasendiherra og hefur auk Singapúr fleiri ríki í sínu umdæmi, þ.m.t. Páfagarð, Malasíu og Ástralíu.
Í febrúar á þessu ári var formlega opnað Norræna Nýsköpunarsetrið, (e. Nordic Innovation House) í Singapúr. Þáttökugjald Íslands að Nýsköpunarsetrinu felst í því að Sigríður leggur til 10 vinnustundir í mánuði í þágu þess. Undirbúningur er þegar hafinn að íslenskri fyrirtækjakynningu í Singapúr í nóvember næstkomandi í nánu samstarfi við Íslandsstofu.
Ísland skipaði aðalræðismann í Singapúr 1977, en stofnað var stjórnmálasamband 1999 og gerður fríverslunarsamningur 2002. Samskipti Íslands og Singapúr má rekja aftur til samstarfsins á sviði þjóðréttar og hafréttar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.