Hoppa yfir valmynd
28. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Ungir flóttamenn kenna eldri borgurum í Svíþjóð upplýsingatækni

Kerstin og Åke hafa lært mjög mikið af tækniaðstoðinni og segja að þau mæli með henni við vini sína. ©UNHCR/Anders Aalbu - mynd

Það er laugardagur í Karlskoga, í miðri Svíþjóð. Kerstin og maðurinn hennar Åke komu með snjallsímana sína, spjaldtölvu og fartölvu. Þau hafa endalausar spurningar og viðurkenna að þau spyrji sumra aftur og aftur. En Setrag og Söru, vinnufélaga hans, er alveg sama. Spurning sem er endurtekin er fyrir þeim bara gott tækifæri til að æfa sænskuna.

Þegar hann veitir tækniaðstoð talar Setrag hægt. En það gera eldri borgararnir líka, sem koma á bókasafnið á hverjum laugardegi til að læra að nota tölvurnar sínar og snjallsímana. Þeim er sama þótt kennarinn þeirra sé flóttamaður og það að hann tali hægt auðveldar þeim að skilja hvert annað.

Í bláa tækniaðstoðarbolnum sínum útskýrir Setrag þolinmóður fyrir Kerstin: „En ef þú vilt taka strætó þarft þú að opna annað app, því þetta er bara til að kaupa lestarmiða,“ segir Setrag. Á meðan appið hleðst niður útskýrir Setrag fyrir Kerstin að fyrstu skilaboðin sem birtist í því komi bara einu sinni. „Þú sérð þau bara í fyrsta sinn. Þau eru til að sýna þér hvernig á að nota appið,“ segir hann um leið og hann bendir á staðinn þar sem stendur „Áfram“.

Setrag Godoshian, 20 ára, kom til Svíþjóðar frá Sýrlandi árið 2014. Hann er búinn að vera í þrjú ár í móttökukerfinu að læra sænsku. Hann þurfti að hafa náð ákveðinni færni í sænsku til að geta veitt tækniaðstoð. Núna fær Setrag tækifæri til að tala heilmikla sænsku, hann er kominn með fyrsta mikilvæga starfið sitt í Svíþjóð og tekur meiri þátt í nærsamfélaginu. Að sama skapi hafa margir eldri borgarar bætt tæknikunnáttu sína.

Sara Alaydi, 20 ára, er líka flóttamaður frá Sýrlandi og kom til Svíþjóðar árið 2015. Að veita tækniaðstoð hefur leitt af sér miklar breytingar á þátttöku hennar í sænsku samfélagi. „Það hefur hjálpað mér svo mikið. Til dæmis tek ég meiri þátt í samskiptum, líka í skólanum. Reynslan af því að veita tækniaðstoð hjálpar við alla hópavinnu í skólanum,“ útskýrir hún. „Eldra fólk talar gjarnan aðeins hægar, svo það er auðveldara að skilja það. Þess vegna er ekki eins stressandi að tala við það og við fáum mikið tækifæri til að æfa okkur,“ segir Sara. „Og við erum öruggari með okkur þegar við tölum við þau, jafnvel þótt við gerum mistök,“ bætir Setrag við.

Bæði Kerstin og Åke eru mjög ánægð með tæknileiðbeinendurna sem hjálpa þeim. „Þau hafa kennt okkur svo mikið, allt frá heimabankanum til Google Maps. Yngri kynslóðirnar læra svo hratt. Ég er svo ánægð að við höfum getað komið hingað nokkrum sinnum til að læra tölvufærni af þeim,” segir Kerstin.

Tækniaðstoðin IT Guide Sweden byrjaði árið 2010. Tveir unglingsdrengir, sem báðir voru nýkomnir til Svíþjóðar og þurftu sumarvinnu, komu til stofnandans Gunilla Lundberg. Gunilla spurði þá hverju þeir væru góðir í og þeir sögðu „við erum góðir í tölvum“. Í dag starfar IT Guide í meira en 20 sveitarfélögum og veitir um 200 ungum tæknileiðbeinendum vinnu.

Tilgangur IT Guide Sweden er að hluta til að vera fyrsta starf fyrir unga flóttamenn, eitthvað sem getur verið mjög mikilvægt þegar fram í sækir. Góð meðmæli frá atvinnurekanda eru alltaf gagnleg þegar sótt er um vinnu í framtíðinni. Í framtíðinni langar Segtrag í nám, annað hvort í tölvuverkfræði eða tölvuleikjaþróun. Hann er líka kominn á tæknibraut í framhaldsskóla, svo helgarvinnan hans sem tæknileiðbeinandi á mjög vel við. „Mig langar að halda áfram að hjálpa fólki með það sem því finnst erfitt. Mér finnst þetta skemmtilegt starf. Á sama tíma lærum við sænsku sem hjálpar okkur að eiga samskipti við Svía. Og auðvitað er gott að hafa launað starf,“ bætir Setrag við.

IT Guide Sweden var tilnefnt til sænsku verðlaunanna „Opnar dyr“ árið 2018, verðlaun sem veitt eru bestu verkefnunum á sviðið aðlögunar. 

Frétt á íslensku á vef Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta