Hoppa yfir valmynd
24. október 2005 Heilbrigðisráðuneytið

„Sterk bein fyrir góða daga“

„Sterk bein fyrir góða daga“

Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
á námsstefnu í tilefni af alþjóðlegum beinverndardegi
20. október 2005.

Góðir námsstefnugestir.

Fyrst af öllu vil ég þakka félaginu Beinvernd og samstarfsaðila þess, Íþróttasambandi Íslands, fyrir að efna til þessarar námsstefnu í dag. Umfjöllunarefni námsstefnunnar verður hreyfing og beinþynning og er hún ætluð fagfólki í hreyfingu og líkamsþjálfun.

Það er til marks um hve málefnið er mikilvægt að um 180 beinverndarfélög innan alþjóða beinverndarsamtakanna í yfir 80 löndum láta sig það varða og vekja sérstaka athygli á því nú í dag sem er alþjóðlegi beinverndardagurinn.

Yfirskrift dagsins að þessu sinni er „Sterk bein fyrir góða daga“. Þetta er vel valið kjörorð sem lýsir á einfaldan hátt kjarna málsins.

Afleiðingar beinþynningar eru ávísun á erfiðleika og þjáningar fyrir þá sem fyrir verða. Hér á landi má reikna með að um 20.000 konur séu með beinþynningu og um 5.000 karlmenn. Talið er að árlega megi rekja allt að 1.500 beinbrot til beinþynningar, þar af meira en 200 mjaðmabrot.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þennan illskeytta sjúkdóm og afleiðingar hans né heldur að fjalla um áhættuþætti eins og erfðir eða lífsstíl. Til þess eru aðrir betur fallnir. Það sem mér er hins vegar efst í huga er sú staðreynd að við getum haft áhrif og dregið stórlega úr tíðni beinþynningar og brota af hennar völdum. Með réttum aðgerðum, fræðslu, áróðri og öðrum forvörnum er mögulegt að koma í veg fyrir þennan sjúkdóm að verulegu leyti til lengri tíma er litið.

Ég læt mér sjaldnast úr greipum renna tækifæri til þess að hamra á ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu og geri ekki undantekningu á því í dag. Reykingar og óhófleg áfengisneysla auka hættu á beinþynningu ásamt mörgum öðrum fylgikvillum. Hreyfingarleysi er sömuleiðs áhættuþáttur. Mataræði skiptir verulegu máli, einkum að tryggja líkamanum nægilega mikið kalk og D-vítamín. Við berum ábyrgð á þessum þáttum hvert fyrir sig og enginn getur létt henni af okkur.

Þrátt fyrir að hver og einn beri ábyrgð á því hvernig hann hagar lífi sínu er ábyrgð samfélagsins rík þegar kemur að lífsháttum þjóðarinnar. Viðhorf, gildismat, hegðun og væntingar, allt eru þetta atriði sem hægt er að hafa áhrif á með áróðri, fræðslu og upplýsingum. Reykingar eru gott dæmi um þetta. Einu sinni þótti fínt að reykja. Það var smart, það var ögrandi, það var til marks um listrænt eðli og háleitar hugsanir. Nú eru reykingar fyrst og fremst vísbending um slæma félagslega stöðu eða skort á sjálfsaga. Reykingamenn eru hornreka og eiga erfitt – enda fjölgar þeim ár frá ári sem velja að reykja ekki.

Ábyrgð á lífsháttum þjóðar er flókið fyrirbæri. Foreldrar, skólakerfið, heilbrigðiskerfið, - stjórnvöld öll, bera mikla ábyrgð á því hvert samfélagið stefnir í stóru og smáu. Hlutverk stjórnvalda er að vera framsýn, móta ábyrga stefnu, koma henni á framfæri og afla henni stuðnings og fylgis og loks að fylgja henni eftir.

Ég nefndi sérstaklega að stjórnvöld þurfa að vera framsýn. Ástæðan er sú að forvarnir krefjast jafnan mikillar þolinmæði og sýnilegur, mælanlegur ávinningur kemur oft ekki í ljós fyrr en eftir áratuga þrotlaust starf.

Mögulegar forvarnir gegn beinþynningu sýna þetta ágætlega. Grunnurinn að sterkum beinum er lagður á fyrstu þremur áratugum ævi fólks. Tíðahvörf eru áhættutími hjá konum sem þarf að gæta að og aftur þarf að leggja mikla áherslu á nægilegt kalk og D vítamín þegar kemur fram yfir sextugt. Forvarnir þurfa því að taka mið af ólíkum æviskeiðum. Forvarnir sem felast í öðru en lífsstíl og mataræði geta einnig verið nauðsynlegar, s.s. notkun lyfja sem vernda eða byggja upp bein hjá þeim sem þess þurfa með. Beinþéttnimælingar eru mikilvægt tæki til forvarna þar sem þær gera kleift að grípa inní áður en í óefni er komið.

Forvarnir kosta tíma, vinnu og fjármuni. Í fjárfreku heilbrigðiskerfi þar sem dag hvern eru til umræðu vandamál sem krefjast skjótra lausna og tafarlausra útgjalda getur reynst þrautin þyngri að skapa forvörnum viðeigandi sess. Þegar biðlistar eftir tilteknum aðgerðum eru óviðunandi langir liggur beinna við að veita fé til að stytta þá snarlega fremur en að veita fé til forvarna sem í fyrsta lagi skila árangri eftir tíu til tuttugu ár.

Forvarnir hafa fyrst og fremst langtímamarkmið. Sem betur fer færir aukin þekking okkur sífellt betri möguleika til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir og hámarka ávinning þeirra fyrir samfélagið. Þess vegna fá forvarnir sífellt aukið vægi í samfélaginu og fleiri og fleiri láta þær sig varða. Félagið Beinvernd er eitt af mörgum dæmum um þetta. Þar sameinast lærðir og leikir um þau markmið helst: að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli – að fylgjast með helstu nýjungum og veita fræðslu um beinþynningu og varnir gegn henni - og - að stuðla að auknum rannsóknum á þessu sviði.

Ég styð markmið Beinverndar og lýsi ánægju með störf félagsins sem og allra þeirra sem láta forvarnir til sín taka.

Góðar stundir.

----------------------

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta