Ráðstefna á vegum Hugarafls
Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ráðstefnu Hugarafls
Góðir ráðstefnugestir.
Mér fannst ánægjulegt þegar leitað var til mín frá Hugarafli og ég beðin um að ávarpa þessa ráðstefnu sem nú er að hefjast. Ég hafði margoft heyrt Hugarafls getið í tengslum við málefni geðsjúkra og vissi um starfsemi Hugarafls í Bolholti hér í Reykjavík. Mér fannst þó nauðsynlegt að kynnast betur hvað býr að baki Hugarafli, átta mig betur á því hvers konar afl þetta er og að hverju kraftarnir beinast helst. Við heimsóttum því Hugarafl í vikunni og ræddum þar við fólk úr þessum hópi, en hann samanstendur af fólki sem glímt hefur við geðræn vandamál en er á batavegi - og fagfólki sem hefur áralanga reynslu á sviði geðheilbrigðismála.
Heimsóknin í Bolholt var góð og ánægjuleg og það var áhugavert að sjá og heyra um það starf og þær áherslur sem Hugarafl stendur fyrir. Þarna kemur saman fólk sem er reiðubúið að deila reynslu sinni með öðrum, sem er óhrætt við að koma með nýja sýn á þá þjónustu sem stendur geðsjúkum til boða og hefur vilja og kjark til að berjast fyrir breytingum.
Athugasemdir um þjónustu eru jafnan til góðs séu þær settar fram á uppbyggilegan hátt og þannig skynja ég áherslur Hugarafls. BYLTING Í BATA var yfirskrift kynningar á þessari ráðstefnu sem Hugarafl sendi mér. Þar las ég meðal annars þessa setningu - og ég vitna hér beint í umræddan texta þar sem segir m.a.: ,,Tilefni þessarar ráðstefnu er skortur á úrræðum og víðsýni fagfólks og ráðamanna í þessum efnum, og telur Hugarafl að auka þurfi notendasýn þeirra er starfa að málaflokknum. Markmiðið er að fagfólk fái aukna innsýn í meðferðarúrræði sem nú þegar eru farin að ryðja sér til rúms í nágrannalöndum okkar, úrræði sem hafa leitt til minni lyfjanotkunar, færri innlagna og aukinnar virkni notenda í samfélaginu." (Tilvitnun lýkur).
Skilaboðin eru skýr og skorinorð þar sem talað er um ,,skort á úrræðum og víðsýni fagfólks og ráðamanna". Ég ætla ekki að neita því að úrræði mættu vera fleiri og e.t.v. mætti víðsýnin vera meiri. Ég fullyrði hins vegar að ekkert skortir á viljann til að bæta þjónustu við geðsjúka og því fagna ég af einlægni vilja Hugarafls til að stuðla að innleiðingu nýrra hugmynda sem bætt geta þjónustuna frá því sem nú er.
Meginmarkmið Hugarafls er að vinna að verkefnum sem auka áhrif notenda á uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu. Í heimsókn minni til Hugarafls kom þetta skýrt fram og sú skoðun að notendur geðheilbrigðisþjónustu fái of litlu ráðið um eigin meðferð og úrræði sjálfum sér til handa. Þar kom einnig fram sú skoðun að enn séu fordómar í garð geðsjúkra og geðsjúkdóma verulegt vandamál í íslensku samfélagi. Fordómar standi þjónustu við geðsjúka fyrir þrifum og hindri að notendur geðheilbrigðisþjónustu séu hafðir með í ráðum eins og eðlilegt megi teljast - aðrir telji sig vita betur hvað þeim er fyrir bestu.
Fordómar gagnvart geðsjúkum hafa verið og eru enn raunverulegt vandamál. Sem betur fer hefur okkur þó orðið mikið ágengt í baráttunni gegn fordómum á liðnum árum, enda hafa margir tekið höndum saman í þeirri baráttu, jafnt stjórnvöld, fagfólk, notendur geðheilbrigðisþjónustu og aðstandendur þeirra. Í þessu sambandi vil ég nefna geðræktarverkefni Geðverndar sem hófst sem samstarfsverkefni Landlæknisembættisins, Geðhjálpar og geðsviðs Landspítalans árið 2000 en heyrir nú undir Lýðheilsustöð. Einnig vil ég nefna fræðslu- og forvarnarverkefnið Þjóð gegn þunglyndi, en undirbúningur að því hófst árið 2002 þegar verkefnisstjóri tók til starfa hjá Landlæknisembættinu þar sem verkefnið er vistað. Þá má nefna Klúbbinn Geysi, Athvörf Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða, þ.e. Vin, Dvöl, Læk og Laut - einnig vil ég nefna Janus Endurhæfingu og fræðslustarf og endurhæfingu á vegum Geðverndarfélags íslands. Síðast en ekki síst skal hér getið verkefnisins ,,Geðheilsa - eftirfylgd/iðjuþjálfun" sem rekið er af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en sú starfsemi er nátengd Hugarafli, með aðsetur á sama stað - og hefur að markmiði að efla virkni og þátttöku geðsjúkra í samfélaginu, efla og viðhalda færni og fyrirbyggja félagslega einangrun. Í kynningu á starfseminni segir á heimasíðu Heilsugæslunnar ,,að lögð sé áhersla á að skjólstæðingar séu virkir í bataferlinu og að þjónustan sé mótuð út frá þörfum og reynslu skjólstæðinga og aðstandenda þeirra". Hér er sumsé lögð áherslu á að mæta notendum þjónustunnar á þeirra forsendum - í anda Hugarafls.
Fleiri verkefni vil ég telja sem fengur er að og til marks um að það er svo langt í frá að það ríki stöðnun í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Í júlí síðastliðinn var undirritað samkomulag heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins við samtökin Nýja leið um meðferðarstarf fyrir ungt fólk með áhættusama hegðun, geð- og hegðunarraskanir á aldrinum 15 - 18 ára undir heitinu Lífslist. Þar er áhersla lögð á sjálfsstyrkjandi nám, að virkja sköpunarmátt og kenna ungmennunum nýjar leiðir til að bregðast við erfiðum aðstæðum og efla félagslega færni, m.a. með hugrænni atferlismeðferð. Verkefnið Lífslist er byggt á erlendri fyrirmynd en reynsla af svipuðum verkefnum hefur sýnt að meðferðarúrræði sem ekki fela í sér stofnanavistun gagnast unglingum með hegðunarvandamál betur en vist og meðferð á stofnunum.
Ég tel einnig að samningar um sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni sem gerðir voru fyrir ári síðan milli Landspítala - háskólasjúkrahús, Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Heilsugæslunnar, hafi verið tímamótasamningar sem liður í því að efla geðheilbrigðisþjónustu í grunnþjónustu heilsugæslunnar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið veitir 24 milljónir króna til þessa verkefnis og ég bind miklar vonir við að það sé til þess fallið að bæta verulega þjónustu við geðsjúka.
Skert lífsgæði af völdum geðsjúkdóma, lamað starfsþrek og félagsleg einangrun eru raunveruleiki sem nauðsynlegt er að horfast í augu við. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur á síðustu árum stóraukið framlög til verkefna á sviði geðheilbrigðisþjónustu og ný úrræði hafa litið dagsins ljós. Vonandi eigum við eftir að fjölga úrræðum enn frekar. Ég er sannfærð um það að fjölbreytni sé af hinu góða og deili þeirri skoðun með Hugarafli og eflaust mörgum öðrum að í meðferð sé nauðsynlegt að mæta hverjum og einum sem mest á forsendum hans sjálfs.
Aðkoma notenda að stefnumótun og þróun þjónustu er vaxandi krafa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu. Mér finnst þessi krafa eðlileg og skiljanleg og tel að henni eigi að mæta.
Ég þakka að lokum Hugarafli fyrir frumkvæðið og dugnaðinn við að halda þessa ráðstefnu sem hér er að hefjast og óska ráðstefnugestum góðs gengis. Ég segi þessa ráðstefnu setta.
___________
(Talað orð gildir)