Hoppa yfir valmynd
23. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Skortur á framlögum bitnar á flóttafólki í Úganda

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) – handhafi friðarverðlauna Nóbels í ár – varaði við því í gær að mánaðarlegir fjárstyrkir og matargjafir til 1,26 milljóna flóttamanna í Úganda verði skornir enn frekar niður vegna ónógra framlaga. Niðurskurðinn hefst í febrúar á næsta ári. Þá fær flóttafólk í Úganda, flest frá grannríkinu Suður-Súdan, aðeins 60 prósent af fullum stuðningi.

„Heimsfaraldurinn má ekki vera afsökun fyrir heiminn að snúa baki við flóttafólki á þessum hræðilegu tímum,“ segir El-Khidir Daloum umdæmisstjóri WFP í Úganda. „Við þökkum framlagsríkjum fyrir að hafa að fullu stutt aðgerðir okkar í þágu flóttafólks í Úganda árið 2019 en núna getum við ekki einu sinni staðið undir lágmarks matvælaaðstoð og þeir fátækustu koma til með að þjást mest þegar skera þarf enn frekar niður,“ segir hann.

Árið hefur verið flóttafólki sérstaklega erfitt því stuðningurinn var skorinn niður um 30 prósent í apríl vegna faraldursins og fyrirsjáanlegt að í febrúar nemi frekari niðurskurður 10 prósentum. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna þarf 95,8 milljónir bandarískra dala – 12,5 milljarða íslenskra króna – til að veita fullan stuðning við flóttafólk næstu sex mánuðina. 

Samkvæmt frétt WFP eru það einkum konur, börn og aldraðir í hópi þeirra verst stöddu sem eiga á hættu að verða vannærð. Það veikir ónæmiskerfið og eykur líkur á smitsjúkdómum, meðal annars COVID-19. Á þessu svæði eru sex samfélög flóttamanna og kórónaveiran er þar í mikilli uppsveiflu.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna er ein af áherslustofnunum Íslands í mannúðarmálum og Úganda er annað tveggja samstarfslanda Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu. Í samfélögum flóttafólks hafa Íslendingar í samstarfi við UNICEF unnið að verkefni um sólardrifnar vatnsveitur fyrir skóla og heilsugæslustöðvar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta