Hoppa yfir valmynd
28. desember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skattabreytingar á árinu 2023

Um áramót taka gildi ýmsar skattabreytingar sem snerta bæði heimili og fyrirtæki í landinu. Hér verður fjallað um helstu efnisatriði breytinganna en nánari upplýsingar um einstakar breytingar má finna í greinargerðum viðkomandi lagafrumvarpa á vef Alþingis.

Breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga og útsvarsprósentum sveitarfélaga um áramótin í kjölfar þess að undirritað var þriðja samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Í breytingunni felst varanleg tilfærsla fjármuna sem nema 5 ma.kr. árlega frá ríki til sveitarfélaga, en nánar er fjallað um þessar breytingar í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Til viðbótar fyrrgreindum breytingum skal samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt í upphafi hvers árs hækka persónuafslátt og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði að viðbættu mati á langtímaframleiðni. Miðað er við 1% árlega aukningu framleiðni og er það mat tekið til endurskoðunar á 5 ára fresti, næst fyrir áramótin 2027-2028. Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 9,6% á 12 mánaða tímabili. Heildarhækkun viðmiðunarfjárhæða verður því 10,7%. Þróunin er afleiðing breytinga sem gerðar voru á tekjuskattskerfinu á nýliðnu kjörtímabili, en með hækkun skattleysis- og þrepamarka umfram launahækkanir lækka skattar á heimili um 6 ma.kr. á næsta ári. Nánar er fjallað um málið í frétt á vef ráðuneytisins. 

Í töflunni hér að neðan má sjá skattprósentur, skattleysismörk, persónuafslátt og þrepamörk fyrir árin 2022 og 2023, en þær eru birtar með þeim fyrirvara að ekki liggur fyrir endanlegt meðalútsvar. 

Tekjuskattur einstaklinga

2022

2023

Prósenta í 1. þrepi:

31,45% (þar af 14,45% útsvar)

31,45% (þar af 14,67% útsvar)

Prósenta í 2. þrepi:

37,95% (þar af 14,45% útsvar)

37,95% (þar af 14,67% útsvar)

Prósenta í 3. þrepi:

46,25% (þar af 14,45% útsvar)

46,25% (þar af 14,67% útsvar)

Tekjuskattur einstaklinga

2022

2023

Á ári

Á mánuði

Á ári

Á mánuði

Þrepamörk upp í miðþrep

4.445.783

370.482

4.919.833

409.986

Þrepamörk upp í háþrep

12.481.275

1.040.106

13.812.143

1.151.012

 

Persónuafsláttur

646.993

53.916

715.981

59.665

Skattleysismörk tekjuskattsstofns

2.057.212

171.434

2.276.570

189.714

Skattleysismörk launa*

2.142.929

178.577

2.371.472

197.619

*að teknu tilliti til lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð

Barnabætur

Umfangsmiklar breytingar verða á barnabótum um áramótin en þá tekur gildi fyrri hluti kerfisbreytinga sem samþykktar voru á liðnu þingi. Síðari hluti breytinganna tekur gildi 1. janúar 2024. Breytingarnar eru í senn til þess fallnar að auka stuðning við barnafjölskyldur en um leið fela þær í sér töluverða einföldun á barnabótakerfinu. Um 3.000 fleiri fjölskyldur fá barnabætur vegna breytinganna, auk þess sem grunnfjárhæðir og skerðingarmörk hækka þegar breytingarnar hafa tekið að fullu gildi, en í frétt á vef ráðuneytisins er nánar er fjallað um breytinguna.

Ein veigamesta breytingin sem tekur gildi á nýju ári er að sama fjárhæð mun fylgja öllum börnum, að gefinni fjölskyldustöðu foreldra, en verður ekki mismunandi milli frumburða og annarra barna líkt og verið hefur. Breytingin eykur stuðning til barnafjölskyldna en sér í lagi einstæðra foreldra þar sem fjárhæðir til þeirra hækka sérstaklega milli ára umfram hækkunina sem felst í jöfnun fjárhæða með hverju barni. Viðbótarbarnabætur sem greiddar eru sérstaklega til barna undir 7 ára aldri óháð hjúskaparstöðu lækka aftur á móti milli ára. Dregið verður úr skerðingum vegna tekna en efri skerðingarmörk verða afnumin fyrir bæði einstæða foreldra og foreldra í sambúð og verða því ein skerðingarmörk í stað tveggja fyrir hvorn hóp eftir breytingarnar.

Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta 2023

Einstætt foreldri

Foreldrar í sambúð

Skerðingarmörk

4.750.000

9.500.000

Fjárhæð með hverju barni

440.000

295.000

Viðbótarbarnabætur með börnum yngri en 7 ára

138.000

138.000

Skerðingarhlutföll með hverju barni. Barnafjöldi: 1/2/3+

4%/6%/8%

4%/6%/8%

Vaxtabætur

Eignaskerðingarmörk vaxtabóta hækka um 50% um áramótin og koma til framkvæmda þegar við ákvörðun á greiðslum vaxtabóta og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2023. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta fyrir og eftir breytingu má sjá í meðfylgjandi töflu.

Eignaskerðingarmörk

2022

2023

Breyting milli ára

Einhleypingur/einstætt foreldri

5.000.000

7.500.000

50%

Hjón/sambúðarfólk

8.000.000

12.000.000

50%

Nefskattar

Útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra uppfærast nú um áramótin í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga. Útvarpsgjald verður eftir breytinguna 20.200 kr. og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra 13.284 kr. Gjöldin eru lögð á einstaklinga 16-69 ára á viðkomandi tekjuári sem eru með tekjustofn yfir tekjumörkum. Undanþegnir gjöldunum eru elli- og örorkulífeyrisþegar sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Nefskattar

2022

2023

Útvarpsgjald

18.800 kr.

20.200 kr.

Framkvæmdasjóður aldraða

12.334 kr.

13.284 kr.

Erfðafjárskattur

Skattfrelsismark erfðafjárskatts tekur árlegri breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs og hækkar úr í 5.255.000 kr. í 5.757.759 ársbyrjun 2023. Er það í samræmi við samþykktar breytingar við afgreiðslu fjárlaga 2021 þar sem skattfrelsismarkið var hækkað úr 1,5 m.kr. í 5 m.kr. og skyldi framvegis taka árlega breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Skatthlutfallið helst óbreytt.

Erfðafjárskattur

2022

2023

Skatthlutfall

10%

10%

Skattfrelsismark

5.255.000 kr.

5.757.759 kr.

Gögn málsins á vef Alþingis 

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl.

Krónutölugjöld uppfærast um áramótin í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga. Lágmark bifreiðagjalds verður tvöfaldað og losunarmörk hækkuð.Breytingunni er ætlað að styrkja tekjustofna ríkissjóðs af ökutækjum á eldsneyti en á síðustu árum hafa þeir dregist saman vegna fjölgunar á vistvænum og sparneytnum fólksbílum. Aðrar fjárhæðir bifreiðagjalds uppfærast í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga. Breytingar á helstu krónutölugjöldum milli áranna 2022 og 2023 eru sýndar í meðfylgjandi töflu.

Helstu krónutölugjöld

2022

2023

Bensín- og olíugjöld (kr./ltr.)

 

 

Almennt vörugjald á bensín

30,20

32,55

Sérstakt vörugjald á bensín

48,70

52,45

Olíugjald

67,65

72,85

Kolefnisgjald

 

 

Gas- og dísilolía (kr./ltr.)

12,05

13,00

Bensín (kr./ltr.)

10,50

11,30

Brennsluolía (kr./kg)

14,80

15,95

Jarðolíugas (kr./kg)

13,15

14,15

Bifreiðagjald (kr.)*

 

 

Grunngjald bifreið < 3.500 kg.

7.540/158

15.080/170

Grunngjald bifreið > 3.500 kg.

62.280/2,61/97.445

67.075/2,81/104.950

Kílómetragjald (kr./km.)

 

 

Kílómetragjald

(allir gjaldflokkar uppfærast um 7,7%)

Áfengisgjald (kr./cl.)

 

 

Bjór

132,00

142,15

Léttvín

120,25

129,50

Sterkt vín

162,70

175,25

Tóbaksgjald

 

 

Vindlingar (kr./pk.)

542,05

583,80

Neftóbak (kr./gr.)

30,15

32,45

Annað (kr./gr.)

30,15

32,45

*Sýnt er grunngjald á hvert ökutæki, einingagjald á hvert gr. umfram 121 gr. CO2 og hámarksgrunngjald. Hér er miðað við skráða losun skv. evrópsku aksturslotunni.

Gögn málsins á vef Alþingis 

Áfengi í fríhöfn

Áfengi og tóbak sem selt er í tollfrjálsum verslunum ber lægra vörugjald en í öðrum verslunum hérlendis. Á áfengi er lagt 10% af áfengisgjaldi á söluna og á tóbak er lagt 40% af tóbaksgjaldi á söluna. Um áramótin mun afsláttur í tollfrjálsum verslunum breytast þannig að álagt áfengisgjald fer úr 10% í 25% og álagt tóbaksgjald úr 40% í 50% af því sem almennt gildir.

Gjald í tollfrjálsum verslunum

2022

2023

Áfengisgjald

10%

25%

Tóbaksgjald

40%

50%

Virðisaukaskattur

Í júní sl. var fjöldatakmörkunin fyrir rafmagns- og vetnisbíla hækkuð úr 15.000 í 20.000 bíla, en með lagabreytingu nú fyrir jól var hún felld brott. Réttur til ívilnunar takmarkast eftir það einungis við dagsetninguna 31. desember 2023.

Um áramótin lækkar hámarks niðurfelling VSK við kaup á rafmagns- eða vetnisbifreið úr 1.560.000 kr. í 1.320.000 kr. á hverja bifreið. Hið sama gildir um rafmagns- eða vetnisbifhjól. Hámarks niðurfelling VSK við kaup á léttum bifhjólum og reiðhjólum verður óbreytt. Taflan sýnir þær fjárhæðir sem gilda árið 2023 í öllum flokkum. Ívilnunin gildir í öllum flokkum til ársloka 2023, án fjöldatakmarkana.

 

Hámark á niðurfellingu VSK við kaup á vistvænum bifreiðum og hjólum (kr.)

2022

2023

Rafmagns- og vetnisbifreið

1.560.000

1.320.000

Rafmagns- og vetnisbifhjól

1.560.000

1.320.000

Létt bifhjól

96.000

96.000

Rafmagnsreiðhjól

96.000

96.000

Önnur reiðhjól

48.000

48.000

Vörugjald á ökutæki

Breytingar verða á vörugjaldi á ný ökutæki við innflutning eða framleiðslu um áramótin og er ætlað að breikka skattstofn vörugjalds en tekjur af vörugjaldi á fólksbíla hafa dregist hratt saman síðustu ár. Breytingin felur í sér álagningu á sérstöku 5% vörugjaldi sem lagt verður á allar nýjar fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki með skráða losun koltvísýrings, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í tiltekna undirflokka. Samhliða mun skattprósenta á hvert g/km skráðar losunar lækka um 0,03 prósentustig og losunarmörk lækka um 5 g/km. Jafnframt felur breytingin í sér álagningu á sérstöku 5% vörugjaldi sem lagt er á allar nýjar fólksbifreiðar sem knúnar eru vetni eða rafhreyfli að öllu leyti, þ.á.m. á rafmagnsbíla.

Vörugjald á ökutæki

2022

2023

Sérstakt lágmarksgjald

-

5%

Skattprósenta

0,31%

0,28%

Losunarmörk

90 g/km

85 g/km

Hér er miðað við skráða losun skv. samræmdu prófunaraðferðinni.

Aukatekjur

Aukatekjur ríkissjóðs uppfærast í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga. Mörg þessara gjalda hafa haldist óbreytt frá árinu 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta