Mál nr. 3/2014
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. október 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 3/2014.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafi verið að starfa sem lýðheilsufræðingur frá í það minnsta 15. júní 2013 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið 15. júní til 31. ágúst 2013, samtals að meðtöldu 15% álagi að fjárhæð samtals 333.480 kr. Kæranda kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 6. janúar 2014. Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 15. apríl 2013.
Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegum skýringum frá kæranda 23. september 2013 vegna framkominna upplýsinga um að hún hefði starfað hjá B tónlistarskóla auk þess að starfa sjálfstætt sem C samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar, 25. september 2013, kom fram að hún hefði ekki þegið laun samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Eiginmaður hennar eigi og reki B, en staða fyrirtækisins hafi hins vegar verið sú að ekki hafi verið hægt að greiða laun úr fyrirtækinu. Hún hafi verið að vinna að því að koma skólanum af stað frá því í byrjun september og hafi hún ekki staðfest atvinnuleit fyrir þann mánuð og ætli sér ekki að gera það. Hún sé C og hafi verið að vinna að því að skapa sér verkefni þar sem ekki hafi gengið að fá fasta vinnu. Hún hafi ekki þegið laun sem sjálfstætt starfandi C en ástæða þess að hún hafi ekki staðfest atvinnuleit fyrir september sé sú að hún muni fá laun fyrir september fyrir þau tvö verkefni sem hún hafi verið að vinna við. Hún sé að freista þess að skapa sér verkefni og það hafi tekist í september og hún hafi talið að hún þyrfti ekki að tilkynna það á annan hátt en með því að staðfesta ekki atvinnuleit.
Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 3. október 2013. Fyrir lágu gögn af fésbókarsíðunni „D“, frétt sem birtist á vefsíðunni www.visir.is 22. ágúst 2013 undir fyrirsögninni „Heilsuhelgi á E“, frétt af vefsíðunni www.ruv.is sem birtist 26. ágúst 2013 undir fyrirsögninni „D“ og skýringarbréf kæranda, dags. 25. ágúst 2013. Á fundinum var tekin sú ákvörðun að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna ótilkynntrar vinnu hennar sem sjálfstætt starfandi C. Þá var sú ákvörðun tekin að henni skyldi gert að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 15. júní til 31. ágúst 2013 með 15% álagi, samtals að fjárhæð 333.480 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í kæru kæranda kemur fram að meginreglan í fyrstu málsgrein 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé sú að sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum með svikum geti misst rétt sinn í allt að tvö ár og þurft að sæta sektum. Þá vísar kærandi á athugasemdir með 23. gr. í frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 134/2009. Hún bendir á að hún hafi hvorki veitt Vinnumálastofnun neinar rangar upplýsingar né vanrækt þá upplýsingaskyldu sem á henni hvíli sem bótaþega. Hún hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á meðan hún hafi notið bóta og hafi ekki orðið uppvís að þátttöku á vinnumarkaði.
Heilsuefling og lýðheilsa sé stór hluti af lífi hennar og helsta áhugamál þó draumurinn sé að hafa af því lífsviðurværi. Umrædd heilsuhelgi á E hafi ekki verið framkvæmd með kröfu um endurgjald og engin laun hafi verið þegin enda ekki hugsuð sem atvinna. Fólkið sem þar hafi verið væri persónulegir vinir hennar og skyldmenni og markmiðið hafi verið heilsuefling hennar sjálfrar og þeirra sem þar hafi verið. Sú hugmynd hafi kviknað í lok sumars að prófa að búa til námskeið í heilsueflingu fyrir almenning um haustið og í kjölfarið hafi orðið til fésbókarsíða og viðtal birt í Morgunblaðinu og hjá Ríkisútvarpinu. Það hafi þó ekki orðið að veruleika. Hins vegar hafi kæranda tekist að skapa sér verkefni í september og því hafi hún ekki staðfest atvinnuleit þá. Það sama hafi hún gert árið 2011 þegar hún hafi þegið atvinnuleysisbætur í nokkra mánuði og hafi ekki fengið athugasemdir þess eðlis að hafa brugðist tilkynningarskyldu. Það að hlúa að áhugamáli sínu endurgjaldslaust geti aldrei verið talið starf né þátttaka á vinnumarkaði, sér í lagi ekki þegar sá skilningur leiði til þess að hún sé svipt sínum lögvarða rétti til greiðslna úr atvinnuleysistryggingakerfinu með verulega íþyngjandi áskilnaði um endurgreiðslu að viðbættu 15% álagi. Umræddu lagaákvæði sé ætlað það hlutverk að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi og að aðilar séu ekki á ólögmætan hátt að nýta sér greiðslur úr sjóðnum en framangreind háttsemi hennar geti ekki talist falla undir það. Kærandi kveðst ekki hafi þegið neinar greiðslur fyrir hin meintu störf sín sem C á þessu tímabili og hún eigi ekki von á neinum greiðslum eða öðru endurgjaldi fyrir þetta tímabil. Með réttu hafi því ekki verið tilkynnt að atvinnuleit væri hætt skv. 10. gr. laganna eða tilkynnt um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laganna enda geti hún ekki fallist á að umrædd heilsuhelgi geti með nokkru móti haft áhrif á rétt hennar til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Kærandi telur rétt að árétta það, varðandi fullyrðingu eftirlitsdeildar Vinnumálastofnunar, að hún hafi starfað hjá B ehf. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur að þetta sé einfaldlega ekki rétt og megi auðveldlega sjá ef reikningar félagsins séu skoðaðir. Hún hafi ekki starfað eða þegið laun frá B ehf. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.
Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. mars 2014, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt samkvæmt 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Vinnumálastofnun bendir á að annar málsliður 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu síns skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín.
Vinnumálastofnun tekur fram að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi staðið að svokölluðum heilsuhelgum á E sem hafi borið heitið „D“ í júní og september. Á fésbókarsíðunni „D“ hafi birst færsla 16. ágúst 2013 þar sem sagt hafi að allt væri að verða klárt fyrir næstu heilsuhelgar á E og að þau væru full tilhlökkunar enda enn í skýjunum yfir frábærri helgi í júní. Þá séu á síðunni umsagnir frá einstaklingum sem hafi sótt heilsuhelgina í júní. Þann 16. september 2013 hafi birst færsla á síðunni þar sem næsta heilsuhelgi á E hafi verið auglýst sem fram hafi farið dagana 26.–29. september 2013. Þar kæmi fram að þátttökugjaldið væri 59.000 kr. Fyrir liggi að umfjöllun hafi birst um heilsuhelgarnar á vefsíðunni www.vísir.is, sbr. frétt sem birt hafi verið 22. ágúst 2013 undir fyrirsögninni „Heilsuhelgi á E“. Þá hafi kærandi sagt frá námskeiðinu í síðdegisútvarpi Ríkisútvarpsins 26. ágúst 2013.
Fram kemur að að mati Vinnumálastofnunar megi ráða af fyrirliggjandi gögnum í málinu og skýringum kæranda sjálfrar að hún hafi verið við störf samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Þá veki stofnunin athygli á að í 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009 sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að gera sérstakan samning við atvinnuleitanda um að hann vinni í allt að sex mánuði að þróun eigin viðskiptahugmyndar með það að markmiði að koma hugmyndinni í framkvæmd. Það sé ljóst að ef atvinnuleitendum væri heimilt að vinna að eigin viðskiptahugmynd samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta væri óþarft að mæla fyrir um sérstaka undanþáguheimild reglugerðarinnar.
Í ljósi framangreinds hafi verið tekin sú ákvörðun að kærandi skyldi sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafi brugðist skyldum sínum við Vinnumálastofnun með því að tilkynna ekki um vinnuna.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. mars 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. mars 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.
2. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:
„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Þessi síðari málsliður á við í máli þessu.
Kærandi kveðst hafa verið að skapa sér verkefni sjálfstætt sem C. Í gögnum þessa máls kemur fram að kærandi hafi haldið C-námskeið í júní 2013 og að fyrirhugað hafi verið að halda fleiri námskeið en á þessum sama tíma þáði kærandi greiðslu atvinnuleysisbóta. Í 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem er tryggður skuli tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit og í 35. gr. a laganna er fjallað um það að tilkynna skuli án tafar um tilfallandi vinnu. Í 14. gr. laga um atvinnuleysisbætur er ítarlega fjallað um það hvað teljist vera virk atvinnuleit. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður að líta svo á, í ljósi framanskráðs og gagna málsins, að kærandi hafi sumarið 2013 verið starfandi á vinnumarkaði og hafi því ekki uppfyllt skilyrði framangreindra ákvæða laga um atvinnuleysistrygginga samhliða töku atvinnuleysisbóta. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að kærandi skuli sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er staðfest.
Sú ákvörðun Vinnumálastofnun að gera kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 289.983 auk 15% álags eða samtals 333.48 kr. er enn fremur staðfest með vísan til 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. október 2013 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest. Enn fremur er staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 289.983 kr. auk 15% álags eða samtals 333.48 kr.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson