Hoppa yfir valmynd
6. desember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 535/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 6. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 535/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18100031 og KNU18100032

 

Kæra […]

[…]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. október 2018 kærðu […], fd. […], ríkisborgari Úkraínu (hér eftir K) og […], fd. […], ríkisborgari Úkraínu (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 24. september 2018 um að synja kærendum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kærendum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefjast kærendur þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. ágúst 2018. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun dagana 27. og 28. ágúst 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 24. september 2018, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 17. október 2018. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 31. október 2018 ásamt fylgigögnum.

III.       Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærendur séu annars vegar í hættu í heimaríki sínu vegna efnahagslegra ástæðna og hins vegar ótta við að M verði kvaddur í herinn öðru sinni.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda er meðferð umsóknar þeirra um alþjóðlega vernd hjá íslenskum stjórnvöldum rakin og kemur m.a. fram að kærendur hafi lagt fram hjúskaparvottorð og afrit af herskilríkjum M hjá Útlendingastofnun. Þá kemur fram að M sé fæddur og uppalinn í Úkraínu en eigi enga fjölskyldu þar í landi þar sem báðir foreldrar hans séu fallnir frá. M kveðst ekki hafa nein tengsl við heimaríki sitt og sé í leit að landi þar sem hann geti unnið fyrir sér og lifað eðlilegu lífi. Þá komi fram í greinargerð að M sé við góða líkamlega og andlega heilsu. M hafi yfirgefið Úkraínu fyrir u.þ.b. hálfu ári síðan þar sem mikil hætta sé á að hann verði kvaddur í herinn þar í landi til að berjast í stríðinu sem geisi þar um þessar mundir. M hafi ungur sinnt herskyldu og hafi hann hlotið þjálfun sem bílstjóri og viðgerðarmaður á brynvörðum bifreiðum fótgönguliðsins sem sé eftirsótt þekking í dag. M óttist stjórnvöld þar sem þau muni kveða hann aftur í herinn en hann treysti sér ekki til að búa í ríki þar sem hann kunni að vera neyddur til þátttöku í stríði. K sé einnig fædd og uppalin í Úkraínu og hafi hún greint frá því að hún hafi búið ásamt M hjá foreldrum hennar í heimaríki. Þá kemur fram í greinargerð að K sé barnshafandi jafnframt sé hún við góða líkamlega og andlega heilsu. K hafi áhyggjur af eiginmanni sínum sem sé með lifrarbólgu C sem læknar í Úkraínu og á Spáni hafi tjáð honum að þarfnist meðferðar. K sé einnig að flýja sökum hættu á herkvaðningu M þar sem hún óttist að hann muni ekki snúa aftur úr stríðinu og hún verði þá ein eftir. Kærendur hafi upphaflega ætlað að afturkalla umsókn sína um alþjóðlega vernd en eftir að hafa rætt við ættingja í heimaríki hafi þau hætt við þar sem þau hafi fengið þær upplýsingar að herkvaðningar standi yfir.

Kærendur gera athugasemdir við hinar kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar m.a. þar sem fram komi að M geti ekki talist flóttamaður þar sem hann hafi ekki gerst liðhlaupi eða óhlýðnast herkvaðningu. Kærendur benda á að um þessar mundir standi yfir herliðssöfnun á tilteknum hópi sem M tilheyri. Þá hafi slíkar kvaðningar staðið yfir frá árinu 2015 og því sé raunhæft að gera ráð fyrir að M verði kallaður til þjónustu við herinn. Ótti M við að þurfa að taka þátt í átökum eða sæta fangelsisrefsingu teljist til ofsókna, en fangelsisvist liggi við að óhlýðnast herkvaðningu í heimaríki kærenda. Þá gera kærendur athugasemd við að Útlendingastofnun hafi í ákvörðunum sínum aðallega fjallað um efnahagslegar aðstæður kærenda en herkvaðningin sé meginástæða flótta þeirra frá heimaríki.

Kærendur fjalla í greinargerð sinni m.a. um stöðu mannréttindamála, ríkjandi átök og herkvaðningar í Úkraínu. Þar kemur m.a. fram að aðstæður í fangelsum þar í landi séu slæmar, mikil spilling ríki hjá stjórnvöldum, herkvaðningar standi yfir í Úkraínu og að hörð viðurlög séu við að óhlýðnast slíkri kvaðningu. Kærendur vísa m.a. til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Kærendur krefjast þess aðallega að þeim verði veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga á grundvelli 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærendur séu utan heimaríkis síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsótt, sbr. c- og e-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, vegna sannfæringar og samvisku sinnar, sbr. b-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga, og geti ekki vegna slíks ótta fært sér í nyt vernd úkraínskra stjórnvalda enda séu það stjórnvöld sjálf sem standi að ofsóknunum, sbr. a-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Ofsóknirnar sem kærendur standi frammi fyrir séu alvarleg brot á grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til frelsis og bann við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu. M hafni því að sinna herskyldu af samviskuástæðum þar sem hann vilji ekki bera vopn og myrða fólk. Þá séu töluverðar líkur á að M verði gert að fara í herinn í heimaríki og sé ljóst að hann geti ekki leitað ásjár stjórnvalda komi upp sú staða. Þá myndi endursending kærenda jafnframt brjóta gegn grundvallarreglu þjóðarréttar um non-refoulement sem lögfest sé í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Enn fremur bryti slík endursending gegn 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. pyndingarsamningsins og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Þá fjalla kærendur í greinargerð almennt um hugsana- og skoðanafrelsi sem undanþáguástæður fyrir herskyldu og vísa m.a. til handbókar um réttarstöðu flóttamanna máli sínu til stuðnings. M krefst þess að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 40. gr. laga um útlendinga á grundvelli 1. mgr. 37. gr. sömu laga og að K verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Til vara krefjast kærendur þess að M verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og vísa m.a. til lögskýringargagna um inntak slíkrar verndar. Þá krefjast kærendur að K verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Í ljósi sögu og stöðu M sem liðhlaupa í úkraínskra hernum og þeirra heimilda sem raktar séu í greinargerð telur M raunhæfa ástæðu til að ætla að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga verði honum gert að snúa aftur til Úkraínu. Þá standi hann frammi fyrir fangelsisrefsingu sinni hann ekki herkvaðningu. Þá hafi M ekki næg fjárráð til að ráða sér lögmann eða múta yfirvöldum.

Kærendur krefjast þess til þrautavara að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið geti samkvæmt frumvarpi því sem varð að núgildandi útlendingalögum tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við langvarandi stríðsástand í heimaríki auk þess sem teljandi tæmingu sé ekki að finna á þeim aðstæðum eða sjónarmiðum sem ákvæðið taki til. M bíði líklegast fangelsisvist við komuna til heimaríkis við slæmar aðstæður. Þá eigi hann ekki efni á lögfræðiaðstoð auk þess sem stjórnvöld séu afar spillt. K standi þá frammi fyrir því að verða ein með ungt barn. Með tilliti til stöðu M í heimaríki telji kærendur að það sé bæði heimilt og skylt að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað úkraínskum vegabréfum fyrir sig. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur séu úkraínskir ríkisborgarar.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Úkraínu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

·         2017 Country Reports on Human Rights Practices – Ukraine (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);

·         Ukraine 2017/2018 (Amnesty International, 3. september 2018);

·         Ukraine: The new law on police and its effectiveness; recourse and state protection available to private citizens who have been the victims of criminal actions of police officers in Kiev (2014-January 2015) (Immigration and Refugee Board of Canada, 14. janúar 2016);

·         Association Implementation Report on Ukraine (European Commission, 14. nóvember 2017);

·         Country Information and Guidance – Ukraine: Background Information, including actors of protection and internal relocation (UK Home Office, 1. ágúst 2016);

·         Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his visit to Ukraine from 21 to 25 March 2016 (Council of Europe, 11. júlí 2016);

·         Temanotat Ukraina. Domstolene – korrupsjon og manglende uavhengighet (Landinfo, 6. júlí 2015);

·         International Protection Considerations related to developments in Ukraine – Update III (UNHCR, 24. september 2015);

·         Ukraine: UNHCR Operational Update, September 2016 (UNHCR, 21. september 2016);

·         Ukraina: Korrupsjonsbekjempelse og beskytelse for varslere (LandInfo, 21. febrúar 2018);

·         Ukraina: Internflyktningen (LandInfo, 19. desember 2017);

·         Freedom in the World 2018 – Ukraine (Freedom House, 19. janúar 2018);

·         Ukraina: Barnevern i og utenfor institusjoner (LandInfo, 11. janúar 2016);

·         Vefsíða La Strada samtakanna (lastradainternational.org, sótt 14. maí 2018);

·         Social Security Programs Throughout the World: Europe, 2018 (Social Security Administration, 2018);

·         Country Information and Guidance – Ukraine: Military service (UK Home office, 29. október 2018);

·         Ukraina: Obligatorisk militærtjeneste (Landinfo, 24. apríl 2015);

·         Military Personnel (www.globalsecurity.org/military/world/ukraine/personnel.htm, 3. júlí 2018);

·         Poroshenko sees no need for new wave of mobilization in Ukrainian army (www.eu.interfax.com.ua, 22. apríl 2016);

·         Ukraine: Whether Ukrainian nationals who served in the Soviet Union’s military could be mobilized in Ukraine (2015-March 2018) (Immigration and Refugee Board of Canada, 25. mars 2018);

·         Upplýsingar af vef United States Agency for International Development (USAID) - https://www.usaid.gov/where-we-work/europe-and-eurasia/ukraine/global-health;

·         Upplýsingar af vef bresku ríkisstjórnarinnar, https://www.gov.uk/foreign-travel-advice/ukraine;

·         Upplýsingar af vef öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), https://www.osce.org/ukraine-smm/reports;

·         Ukraine: What is meant by martial law? (http://euromaidanpress.com/2018/12/03/how-ukrainians-are-living-under-martial-law/, 27. nóvember 2018);

·         Úkraínska þingið samþykkir herlög (http://www.ruv.is/frett/ukrainska-thingid-samthykkir-herlog, 26. nóvember 2018);

·         Ukraine- Russia clash: MPs back martial law (https://www.bbc.com/news/world-europe-46352367, 27. nóvember 2018);

·         How Ukrainians are living under martial law (http://euromaidanpress.com/2018/12/03/how-ukrainians-are-living-under-martial-law/, 3. desember 2018).

Úkraína er lýðræðisríki með um 44 milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt talin virt af úkraínskum stjórnvöldum á þeim svæðum sem lúta stjórn þeirra. Úkraína gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1997. Landið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 10. júní 2002, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 12. nóvember 1973 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 24. febrúar 1987. Meirihluti íbúa landsins eru af úkraínskum uppruna eða um 78 % en um 17 % íbúa eru af rússneskum uppruna og 5 % eru af hinum ýmsu þjóðarbrotum. Úkraína er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, að undanskildum héruðunum Donetsk, Luhansk og Krím.

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að í lok árs 2013 hafi mótmæli hafist í Kænugarði og öðrum borgum Úkraínu. Upphaflega hafi verið um friðsöm mótmæli að ræða en síðar hafi átt sér stað átök fylkinga óeirðalögreglu og mótmælenda sem hafi leitt til mannfalls. Í kjölfar ofangreindra mótmæla og innlimunar Rússa á Krímskaga í mars 2014 hafi brotist út átök á milli hersveita aðskilnaðarsinna og Úkraínuhers í austurhluta Úkraínu. Í gögnunum greinir að fulltrúar frá Úkraínu, Rússlandi og aðskilnaðarsinnum hafi undirritað samkomulag um vopnahlé í september 2014, en að átök eigi sér enn stað á víð og dreif á svæðinu milli stjórnarhers og aðskilnaðarsinna, sem studdir séu af yfirvöldum í Rússlandi. Þrátt fyrir að átökin séu að mestu einangruð við héruðin Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu hafi önnur svæði einnig orðið fyrir árásum og séu áhrif stríðsins margskonar.

Í skýrslu norsku útlendingastofnunar og breska innanríkisráðuneytisins kemur fram að í Úkraínu sé herskylda lögbundin fyrir karlmenn á aldrinum 18 til 27 ára og hafi tímabil herskyldunnar verið lengt í 18 mánuði í janúar 2015 nema fyrir þá sem séu með æðri menntun en þeir þurfi að sinna herskyldu í ár. Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að ýmsar undanþágur séu frá herskyldu auk ástæðna sem veita möguleika á að fresta herskyldu. Meðal frestunarástæðna séu til að mynda fjölskylduaðstæður, m.a. ef viðkomandi sé eina fyrirvinnan í fjölskyldu sem inniheldur ólögráða barn. Þá sé hægt að fá undanþágu frá herskyldu og sinna þá öðrum samfélagslegum störfum samkvæmt úkraínskum herlögum ef samviska eða trú viðkomandi stríði gegn því að hann taki sér vopn í hönd en þá sé það á ábyrgð trúarstofnunar sem einstaklingur tilheyri að biðja um slíka undanþágu.

Í ákvæðum 335. til 337. gr. úkraínskra hegningarlaga er lögð allt að fimm ára fangelsisrefsing fyrir að skorast undan herkvaðningu, herkvaðningarskráningu og liðhlaup en samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins hafi verið algengast í framkvæmd að einstaklingar hafi hlotið fésektir. Frá því að átökin hófust hafi sex fjöldaherkvaðningar átt sér stað en stjórnvöld hafi tilkynnt að þau hafi ekki í hyggju að standa fyrir þeirri sjöundu en slíkt sé ekki útilokað. Þá bera gögn, m.a. fréttaflutningur, með sér að síðast hafi verið ráðist í fjöldaherkvaðningar árið 2016 en stjórnvöld hafi þá skráð um 22.000 nýja hermenn sem hafi að þeirra sögn tekið þátt sjálfviljugir. Þá kemur fram í skýrslu kanadísku flóttamannastofnunar að verði af sjöundu fjöldaherkvaðningunni verði einstaklingar kvaddir til sem hafi nú þegar sinnt herskyldu og hafi reynslu af störfum fyrir herinn. Þó kemur fram að menn sem séu fyrirvinna í lágtekjufjölskyldum muni ekki vera kvaddir í herinn.

Samkvæmt upplýsingum frá sérstakri sendinefnd öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sem hefur eftirlit með ástandinu í Úkraínu (e. OSCE Special Monitoring Mission to Ukraine), ferðaupplýsingum frá breska utanríkisráðuneytinu (e. Foreign and Commonwealth Office) og fréttum af íslenskum og erlendum fréttamiðlum tilkynntu úkraínsk stjórnvöld þann 26. nóvember 2018 um fyrirhugaða gildistöku herlaga. Þar kemur fram að ákvörðun um setningu laganna hafi verið tekin í kjölfar þess að Rússar hafi tekið 23 úkraínska sjóliða til fanga og hertekið þrjú úkraínsk herskip. Í upplýsingum frá breska utanríkisráðuneytinu kemur fram að lögin muni gilda frá 28. nóvember 2018 til 26. desember s.á. Lögin feli m.a. í sér breytta áætlun um herkvaðningar og liðsauka, auknar varnaðarráðstafanir fyrir byggingar ríkisstjórnarinnar, iðnaðarsvæði, ríkisstofnanir og mikilvæga innviði auk ráðstafana til að tryggja allsherjarreglu. Þá verði varnir landamæra Úkraínu sem liggi að Rússlandi styrkt sem og varnir við stjórnsýslumörk sem liggi að Krímskaga. Ennfremur kemur fram að ástandið í Kíev og öðrum svæðum utan Donetsk og Luhansk sé almennt með kyrrum kjörum en mótmæli eigi sér reglulega stað. Gildistaka laganna ætti almennt ekki að hafa áhrif á almenna borgara. Samkvæmt framangreindum heimildum heimili lögin herkvaðningar að hluta en hins vegar verði að svo stöddu ekki allir karlmenn sem teljist hæfir til að sinna herþjónustu kvaddir í herinn. Til að byrja með verði þeir sem nú þegar séu skráðir til herþjónustu kvaddir til starfa.

Þá kemur fram í gögnum, m.a. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, að spilling sé viðvarandi vandamál í Úkraínu og birtist helst innan löggæslu- og dómskerfisins. Þá séu margar stofnanir sem starfi við að rannsaka og ákæra í spillingarmálum. Samtökin The National Anti Corruption Bureu (NABU) rannsaki spillingu hjá yfirvöldum á meðan lögreglan annist rannsókn spillingarmála á lægri stigum löggæslu. Í skýrslunni komi fram að NABU rannsaki spillingu með skilvirkum hætti en rannsókn lögreglunnar hafi ekki verið mjög árangursrík. Þá veigri margir íbúar landsins sér við því að tilkynna spillingu innan stjórnkerfisins vegna skorts á viðeigandi úrræðum til að veita þeim stuðning og vernd.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að í Úkraínu sé til staðar almannatrygginga- og velferðarkerfi sem allir íbúar landsins eigi aðgang að. Allir ríkisborgar eigi rétt á atvinnuleysisbótum og þá sé ákveðnum hópum tryggður ríkari réttur til slíkra bóta, þ. á m. einstæðum mæðrum með börn undir 14 ára aldri á sínu framfæri. Þá eigi einstæðar mæður með börn undir 18 ára á sínu framfæri rétt á fjárhagsaðstoð frá ríkinu sem reiknuð sé út frá lágmarksframfærslu fyrir aldurshóp barnsins og meðaltali fjölskyldutekna í ríkinu. Í ofangreindum gögnum um aðstæður í Úkraínu kemur fram að öllum íbúum landsins sé tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Á síðustu árum hafi verið ráðist í aðgerðir, m.a. með liðsinni alþjóðlegra stofnana, sem hafi verið ætlað að betrumbæta heilbrigðiskerfið í Úkraínu m.a. með því að því að efla lyfjamarkaðinn og aðgengi sjúklinga að lyfjum og meðferðum. Þá hafi lög um heilbrigðisþjónustu verið í endurskoðun undanfarin ár og hafi forseti Úkraínu skrifað undir lög í desember 2017 sem hafi það m.a. að markmiði að tryggja landsmönnum hágæða heilbrigðisþjónustu, einkum íbúum í dreifbýlisbyggðum landsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur byggja ástæður flótta síns á því að M eigi á hættu að verða kvaddur í herinn í heimaríki. M hafi ekki fengið herkvaðningu að svo stöddu en telji miklar líkur á því þar sem hann hafi sérfræðiþekkingu vegna fyrri starfa sinna fyrir herinn. M vilji sannfæringar og samvisku sinnar vegna ekki taka þátt í stríði þar sem hann vilji ekki taka sér vopn í hönd og myrða aðra einstaklinga. Þá óttist K, sem sé barnshafandi, að verða ein eftir ef M verði kvaddur í herinn jafnframt sem hún óttist að hann muni ekki snúa aftur.

Í leiðbeiningunum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd í tengslum við herþjónustu frá 2014 segir m.a. að rétturinn til að neita herþjónustu af samviskuástæðum sé afleiddur réttur byggður á túlkun á 18. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um réttinn til frelsis hugsana sinna, samvisku og trúar og 18. gr. samnings SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna geti þó á lögmætan hátt krafist þess að ríkisborgarar þeirra gegni herþjónustu eða þjónustu af öðrum toga. Í þeim tilvikum þar sem ríki býður ekki upp á þann möguleika að ríkisborgari gegni annars konar þjónustu verði að kanna hvaða afleiðingar séu af því að hann neiti að gegna herskyldu. Eigi einstaklingur á hættu óhóflega eða handahófskennda refsingu fyrir að neita að gegna herskyldu geti komið til athugunar að veita viðkomandi alþjóðlega vernd. Í ríkjum sem bjóða ekki upp á að ríkisborgarar, sem neita að gegna herskyldu, inni af hendi annars konar þjónustu teljist það hins vegar ekki til ofsókna ef þeir geta komist hjá herskyldu með greiðslu stjórnsýslusektar.

Í 4. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um bann við þrældómi og nauðungarvinnu. Samkvæmt greininni tekur þvingunar- eða nauðungarvinna ekki til herþjónustu eða þjónustu sem krafist er í hennar stað af mönnum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna og búa við lög sem heimila slíka synjun, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. sáttmálans. Þegar Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið afstöðu til þess hvort herskylda stríði gegn mannréttindum einstaklinga hefur dómstóllinn litið til þess að ákvæði sáttmálans hafi að þessu leyti sérstaklega tekið til herþjónustu eða þjónustu sem krafist er hennar í stað. Aftur á móti hefur dómstóllinn fallist á að herskylda og þjónusta sem er krafist hennar í stað geti falið í sér takmörkun á rétti manna til að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar, sbr. 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, í þeim tilvikum þegar ástæður af trúarlegum toga liggja að baki synjun á að gegna herþjónustu eða að viðkomandi hafi lýst yfir sterkum skoðunum um að hann sé mótfallinn hvers kyns stríðsrekstri eða því að bera vopn, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 7. júlí 2011 í máli Bayatyan gegn Armeníu (mál nr. 23459/03).

Við meðferð málsins hjá kærunefnd lögðu kærendur fram hjúskaparvottorð, læknisfræðileg gögn og mynd af úkraínskum skilríkjum sem M kveður vera herskilríki við meðferð málsins. M hefur hins vegar ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir að hann eigi í raunverulegri hættu á að verða kvaddur í herinn við endurkomu til heimaríkis. Af þeim heimildum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar hafi M átt á hættu að vera kvaddur í herinn öðru sinni á ákveðnu tímabili, þ.e. á árunum 2014 til 2016 en ráða megi af framburði kæranda að hann hafi ekki fengið herkvaðningu á þeim tíma. Herkvaðningar eru ekki yfirstandandi um þessar mundir þrátt fyrir setningu herlaga. Í skýrslu bresku innanríkisráðuneytisins um herþjónustu í Úkraínu, sem gefin var út í október 2018, kemur fram að lög í Úkraínu geri ráð fyrir að einstaklingar, skráðir í viðurkennd trúfélög, geti neitað að gegna herskyldu af samviskuástæðum á grundvelli trúar. Þá benda gögn til þess að komi til annarrar fjöldaherkvaðningar verði ekki gerð sú krafa að fyrirvinna í lágtekjufjölskyldum sinni slíkri skyldu auk þess sem úkraínsk herlög heimili einstaklingum í þeirri stöðu að sækja um frestun á herkvaðningu. Þá kveði úkraínsk hegningarlög á um að sá sem forðist herkvaðningu þurfi að sæta allt að þriggja ára fangelsi. Í skýrslunni kemur einnig fram að í þeim tilvikum þar sem einstaklingar hafi verið fundnir sekir um að forðast herkvaðningu hafi þeim verið gert að greiða sektir, gegna samfélagsþjónustu eða fengið skilorðsbundna refsingu. Gögn bendi til þess sú háttsemi að forðast herskyldu hafi einungis leitt til sakamáls í örfáum tilvikum. Að framangreindu virtu telur kærunefnd ljóst að kærandi eigi ekki á hættu óhóflega eða handahófskennda refsingu vegna ákvörðunar sinnar um að forðast herskyldu og að aðstæður hans að þessu leyti séu ekki grundvöllur fyrir veitingu alþjóðlegrar vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna

Telur kærunefndin því ljóst að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærendur bera fyrir sig erfiðar aðstæður í heimaríki bæði vegna langvarandi stríðsástands og þess að M standi frammi fyrir fangelsisrefsingu í heimaríki en kærendur hafi ekki efni á lögmanni til að gæta réttinda sinna. Samkvæmt viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærendur verið búsett í bænum Hermakivka í heimaríki sem er fjarri svæðunum Donetsk, Luhansk og Krím þar sem vopnuð átök geisi um þessar mundir. Það er því mat kærunefndar að stríðsástand í heimaríki kærenda hafi ekki þau áhrif á kærendur að þau teljist hafa ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. Ennfremur með vísan til umfjöllunar um hverkvaðningu í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kærenda séu ekki slíkar að unnt sé að veita kærendum dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Í gögnum málsins kemur fram að kærendur séu almennt við góða heilsu en K sé barnshafandi og M með lifrarbólgu C. Samkvæmt samskiptaseðli frá Göngudeild sóttvarna dags. 16. október 2018 er ekki um virka sýkingu að ræða í tilfelli M og gefa heimildir um heimaríki hans ekki annað til kynna en að hann geti fengið viðeigandi lyf og læknismeðferð þurfi hann á slíkri þjónustu að halda. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að úkraínskir ríkisborgarar eigi rétt á heilbrigðisþjónustu og stjórnvöld hafi undanfarin ár unnið að úrbótum innan heilbrigðiskerfsins. Það er því mat kærunefndar að kærendur hafi aðgengi að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimaríki, þ.m.t. aðstoð vegna þungunar K.

Kærendur hafa greint frá erfiðum efnahagslegum aðstæðum sínum þar sem þau séu án atvinnu í heimaríki. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum.

Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda þangað.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Í greinargerð kærenda eru gerðar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í málum þeirra. Kærendur gagnrýna m.a. mat Útlendingastofnunar á ástæðum flótta kærenda og raunverulegri hættu M á að þurfa að gegna herþjónustu. Má af greinargerð kærenda ráða að þau geri athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Þá kemur fram í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á.

Það er mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar og aðgengilegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Þá fjallaði Útlendingastofnun í ákvörðun sinni bæði um efnahagslegar aðstæður kærenda sem og ótta hans við herkvaðningu með ítarlegum hætti. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur farið yfir þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, framlögð gögn kærenda, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og aðrar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærendur komu hingað til lands 25. ágúst 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kærendum því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærendur eru við ágæta heilsu og koma frá öruggu héraði ríkis sem hefur verið talið að mestu leyti öruggt. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kærenda er vakin á því að ef þau yfirgefa ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa þeim. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda.

Athygli er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur að hverfa af landi brott. Kærendum er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants are affirmed. The appellants are requested to leave the country. The appellants have 7 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta