Aðgerðirstjórnvalda gegn skattsvikum o.fl. í samræmi við aðgerðaráætlun OECD og G20 ríkjanna
Nýverið voru samþykkt á Alþingi lög um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl. sem eru mikilvægur þáttur í aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda gegn meintum skattaundanskotum og notkun skattaskjóla. Jafnframt er þessi lagasetning í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar og samstarf sem Ísland hefur tekið virkan þátt í á undanförnum árum í baráttunni gegn skattsvikum.
Með lögunum voru meðal annars þrjár af aðgerðum BEPS (e. Base Erosion and Profit Shifting) aðgerðaráætlunar OECD og G20 ríkjanna, innleiddar sem breytingar við tekjuskattslögin. Hlutverk áætlunarinnar er að veita aðildarríkjum OECD og öðrum ríkjum leiðbeiningar um aðferðir við að stemma stigu við skattflótta á milli ríkja með samræmdum hætti.
Reglur um þunna eiginfjármögnun. Meðal framangreindra breytinga er lögfesting reglna um þunna eiginfjármögnun, sem mikið hafa verið í umræðunni að undanförnu. Um er að ræða sérstakar reglur um takmörkun á skattalegum vaxtafrádrætti aðila í atvinnurekstri þegar lánveitandi er tengdur aðili, t.d. móðurfyrirtæki. Í reglunum felst að frádráttur vaxtagjalda og affalla vegna slíkra lánsviðskipta er takmarkaður við 30% af EBITDA-hagnaði skattaðilans. Eftirtaldar undantekningar eru þó frá umræddri reglu og þarf einungis ein þeirra að vera uppfyllt:
- Vaxtagjöld eða afföll skattaðila eru lægri en 100 millj. kr.;
- Lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis;
- Skattaðili sýnir fram á að eiginfjárhlutfall hans sé eigi lægra en tveimur prósentustigum undir eiginfjárhlutfalli þeirrar samstæðu sem hann tilheyrir; eða
- Skattaðili er fjármálafyrirtæki, vátryggingafélag eða félag í eigu þessara aðila sem starfar í sambærilegum rekstri.
Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins og verður það gert eins fljótt og kostur er.
Föst starfstöð (e. permanent establishment, PE). Í umræddum lögum er einnig að finna nákvæmari skilgreiningu á því hvað telst vera föst starfsstöð skattaðila sem ber takmarkaða skattskyldu hér á landi. Hér er fyrst og fremst verið að skerpa á leikreglunum hvað túlkun varðar á eldra ákvæði tekjuskattslaga þar sem margir hafa ekki talið það vera nægjanlega skýrt. Samkvæmt skilgreiningunni merkir föst starfstöð fasta atvinnustöð þar sem starfsemi fyrirtækis fer fram að nokkru eða öllu leyti. Undantekningar frá meginreglunni og frekari skýringar er að finna í ákvæðinu. Skilgreiningin er í samræmi við 5. gr. samningsfyrirmyndar OECD um tvísköttunarsamninga frá árinu 2014 sem Ísland hefur samþykkt, sbr. einnig 7. lið aðgerðaráætlunar OECD og G20. Ráðherra mun setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.
Ríki-fyrir-ríki skýrslur – milliverðlagning. Þá var með lögunum einnig lögfest ákvæði þar sem móðurfélagi, sem skráð er hérlendis og á félag/félög erlendis, er skylt að skila til ríkisskattstjóra svokallaðri ríki-fyrir-ríki skýrslu (e. Country-by-Country). Skýrslan skal innihalda upplýsingar um dreifingu tekna og greidda skatta hinnar alþjóðlegu fyrirtækjasamsteypu ásamt upplýsingum um hvernig efnahagsleg starfsemi samsteypunnar dreifist. Lögfestingin er í samræmi við samkomulag á vegum OECD og ríkja um aukið gagnsæi í starfsemi alþjóðlegra fyrirtækjasamsteypa en Ísland varð formlegur aðili að því samkomulagi með undirritun þess 12. maí sl. Með ákvæðinu er aðildarríkjum innan OECD heimilað að skiptast á ríki-fyrir-ríki skýrslum sín á milli, bæði sjálfvirkt og með tvíhliða samningum. Samkomulagið er hluti af 13. lið aðgerðaráætlunar OECD og G20 í tengslum við endurskoðun á milliverðlagningarreglum. Ráðherra setur síðan reglugerð um nánari framkvæmd á ákvæðinu.
Ofangreind ákvæði taka öll gildi í ársbyrjun 2017 og gilda því um rekstrarárið 2017. Áhrif þeirra, ef einhver eru, ættu því að koma fram í ársreikningi skattaðila og skattskilum sem liggja fyrst fyrir á árinu 2018.
VRA-vottun tollstjóra. Með lögunum voru lögfest ákvæði sem heimila tollstjóra að veita svokallaða VRA-vottun til samræmis við SAFE-rammaregluverk Alþjóðatollastofnunarinnar. Í VRA-vottun felst að rekstraraðila er veitt vottun og sem slíkur mun hann geta notið sérstakrar meðferðar við tollframkvæmd. Vottunin veitir vottuðum aðilum hagræði bæði hér á landi og í þeim ríkjum sem gera munu gagnkvæma viðurkenningarsamninga við íslensk yfirvöld. Þeir umsækjendur sem uppfylla skilyrði vottunar munu m.a. njóta , forgangs við framkvæmd tollskoðunar, minni vöru- og skjalaskoðun og heimfylgdar vöru, eftir mati tollstjóra. Tilgangur vottunarinnar er að tryggja öryggi í vöruflutningum milli landa og greiða fyrir viðskiptum. Vottunin mun draga úr því álagi sem fylgir tollframkvæmd en einnig gera tollstjóra mögulegt að breyta forgangsröðun við tolleftirlit, draga úr eftirliti með þeim sem slíka vottun hafa fengið en auka eftirlit með öðrum. Bæði tollyfirvöld og VRA-vottaðir aðilar munu njóta góðs af fyrirkomulaginu.
Aðrar breytingar. Með lögunum var aðgengi innheimtuaðila ríkissjóðs að upplýsingum um eignir aukið og tollstjóra falið að annast áhættugreiningu á sviði innheimtu opinberra gjalda. Þá var tollstjóra heimilað að leggja álag á innflytjendur sem veita rangar eða villandi upplýsingar vegna innflutnings. Jafnframt var heimild til að endurákvarða skatt lengd úr sex árum í tíu ár á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram vegna tekna skattaðila í lágskattaríkjum. Þá var fyrningartími sakar lengdur úr sex árum í tíu ár vegna tekna í lágskattaríkjum.