Hoppa yfir valmynd
18. október 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 18. október 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna heimsóttu Úkraínu í vikunni. Andrii Sybhia, utanríkisráðherra Úkraínu, átti fund með ráðherrunum í hafnarborginni Odesa. Heimsóknin til Úkraínu kom í framhaldi af heimsókn til Moldóvu á þriðjudag þar sem Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin undirstrikuðu stuðning sinn við lýðræðislegar og efnahagslegar umbætur í Moldóvu á sama tíma og landið hefur mátt þola ítrekaðar fjölþáttaárásir af hálfu Rússlands. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins tók þátt í heimsókninni í fjarveru utanríkisráðherra Íslands.

  

Hringborð Norðurslóða fer fram í þessari viku en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hitti Lisu Murkowski, öldungadeildarþingmann frá Alaska, í tengslum við það.

Tvísköttunarsamningur milli Íslands og Brasilíu var undirritaður í húsakynnum ráðuneytisins í vikunni. Samningurinn, sem nær til tekjuskatta, var undirritaður af Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra og staðgengli ráðuneytisstjóra, fyrir hönd Íslands og Rodrigo de Azeredo Santos, sendiherra, fyrir hönd Brasilíu.

  

Yfirmenn hermála Norðurlandanna funduðu í síðustu viku um frekari útfærslu á varnasamstarfi ríkjanna og hvernig hægt er að auka sameiginlega getu og viðbragð innan ramma NORDEFCO. Fundurinn fór fram í Keflavík og var haldinn í samstarfi Íslands og Danmerkur, sem fer með formennsku í norræna varnarsamstarfinu í ár.

  

Greint var frá viðamikilli og óháðri úttekt fyrirtækisins GOPA á starfi GRÓ skólanna, það er Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans, á árunum 2018–2023 en hún staðfestir góðan árangur af starfi þeirra. Í úttektinni eru lagðar fram 37 tillögur til úrbóta er varða skólana og GRÓ miðstöðina.

  

Nóg er um að vera hjá sendiráðinu í Berlín sem tekur á mánudag á móti forsetum og utanríkisráðherrum Norðurlandanna og Þýskalands í tilefni af 25 ára afmæli sendiráða Norðurlandanna í Berlín. Við hvetjum fólk til að fylgjast með frásögn sendiráðsins í næstu viku á samfélagsmiðlum. Lokað verður hjá sendiráðinu mánudaginn 21. október og þriðjudaginn 22. október vegna dagskrárinnar í kringum afmælið.

  

  

Þá hitti Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, Sviatlana Tsikhanouskaya, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, annars vegar og Cem Özdemir, landbúnaðarráðherra Tyrklands, hins vegar.

Sendiráðið í Helsinki vakti athygli á afhendingu finnska fyrirtækisins Kewatec á björgunar- og leitarbáti til Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

  

Elín Rósa Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Pálína B. Matthíasdóttir, deildarstjóri tvíhliða þróunarsamvinnu, heimsóttu í vikunni samstarfshéruð Íslands í Úganda, Namayingo og Buikwe, og fengu þar innsýn inn í það viðamikla starf sem er unnið fyrir tilstilli héraðsnálgunar Íslands, meðal annars á sviði menntamála og vatns- og hreinlætis. Í Namayingo kynntu þær sér líka samstarfsverkefni Íslands og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, gegn fæðingarfistli og hittu konur sem notið hafa góðs af því.

 

Sendiráðið í Kaupmannahöfn fjallaði um og birti myndir frá Nordisk Kulturnat síðastliðinn föstudag. Að þessu sinni tóku öll Norðurlöndin þátt í að móta dagskrána en boðið var upp á veitingar frá veitingastöðum sem leggja áherslu á sjálfbærni og notkun á staðbundnum hráefnum, auk þess að vinna gegn matarsóun. Gestir og gangandi gátu auk þess tekið þátt í samsöng, þegar sungin voru hin ýmsu lög frá Norðurlöndunum og boðið var upp á námskeið í að þæfa íslenska ull.

  

Fulltrúar sendiráðsins í Lilongwe hittu fulltrúa mannréttindanefndar Malaví þar sem staða mannréttindamála í landinu var til umræðu, einkum út frá kynbundinni mismunun og í tengslum við málefni eldra fólks.

  

Sturla Sigurjónsson sendiherra og Drífa Arnþórsdóttir menningarmálafulltrúi sóttu fyrir hönd sendiráðsins í London viðburð í tengslum við frumsýningu á íslensku kvikmyndinni Ljósbroti á kvikmyndahátíðinni London Film Festival í vikunni.

  

PolarExp2024 fór fram í síðustu viku og var haldin í Ilulissat. Um er að ræða stærstu sjávarútvegssýningu sem haldin er á Grænlandi. Um 50 þátttakendur frá Danmörku, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Kína og Svíþjóð tóku þátt með sýningarbása og sótti Þórður Bjarni Guðjónsson, aðalræðismaður Íslands á Grænlandi, hana.

  

Íslensk sendinefnd var viðstödd ráðstefnu í tengslum við hafrannsóknir og nýsköpun í Ottawa. Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Kanada, tók þátt ásamt fulltrúum Matís og Hafró.

  

Fjallað var um mannabreytingar í sendiráðinu í Osló.

  

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra í París, leiddi umræðuhóp á vettvangi OECD um hvernig stjórnvöld geti komið í veg fyrir neikvæð áhrif sem stafað geta af gervigreind.

  

220. framkvæmdastjórnarfundur UNESCO er í fullum gangi en hann stendur yfir frá 9.-23.október. Reglulegir fundir stjórnar fara fram tvisvar á ári. Ísland leggur þar meðal annars áherslu á jafnrétti, loftslagsmál, málefni ungs fólks og stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan. Ísland hefur einnig á undanförnum dögum tekið virkan þátt í umræðum um jafnrétti, heimsmarkmið SÞ 4 (menntun), aðgerðir UNESCO á Gaza og ýmis önnur mál.

Ferðasýningin Outside Looking In, Inside Looking Out var opnuð í embættisbústaðnum í París í vikunni. Sýningin var vel sótt af lykilfólki úr myndlistar- og menningargeiranum en hún er samstarfsverkefni Myndlistarmiðstöðvar, Íslandsstofu og sendiskrifstofa Íslands víða um heim. Markmiðið er að kynna nýja kynslóð myndlistarmanna frá Íslandi en á hverjum stað er lögð sérstök áhersla á einn listamann úr hópnum.

  

Sunna Gunnlaugs Trio lékt fyrir gesti í embættisbústaðnum í Stokkhólmi.

  

Bryndís Kjartansdóttir, sendiherra í Stokkhólmi, var viðstödd þegar rithöfundurinn og ljóðskáldið Gyrðir Elíasson tók á móti Tranströmer-verðlaununum.

  

Sendiráðið í Varsjá tók í síðustu viku á móti Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra og sendinefnd sem heimsótti meðal annars menningarmálaráðuneyti og tækni- og þróunarmálaráðuneyti Póllands.

  

Friðrik Jónsson og fulltrúar sendiráðsins í Varsjá hittu þá pólska þingmenn þar sem samband Íslands og Póllands var til umræðu.

  

Þórir Ibsen sendiherra í Peking sótti hádegisverðarfund með Catherine Russell, framkvæmdastjóra UNICEF, í boði Amakobe Sande, fulltrúa UNICEF í Kína. Á fundinum voru sendiherrar þeirra ríkja sem sitja í framkvæmdastjórn UNICEF og var rætt um starfsemi stofnunarinnar í Kína.

Inga Dóra Pétursdóttir, staðgengill sendiherra í Peking, flutti ávarp fyrir hönd Norðurlandanna við opnun hinnar árlegu viðskiptaráðstefnu Kína og Norðurlandanna í Wuhan. Ýmis norræn fyrirtæki taka þátt í kaupstefnunni, þar á meðal Össur, Controlant og samstarfsaðili Icelandair. Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, hefur heilsað upp á og fundað með fjölmörgum kollegum á fyrstu mánuðum hans í nýju starfi. Áherslur Íslands í loftslagsmálum sem hluti af þróunarsamvinnustefnu okkar báru á góma í New York. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Tókýó, ávarpaði háskólanemendur og fór yfir áherslur Íslands í jafnréttismálum og mikilvægi valdeflingar kvenna. Sendiráðið í Washington D.C. fékk góðar heimsóknir í vikunni, annars vegar frá nemendum í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og hins vegar frá fjórum háskólanemum frá Catholic University of America. Starfsfólk sendiráðsins kynnti fyrir nemendunum fjölbreytt starf sendiráðsins og gaf þeim innsýn inn í samskipti Íslands og Bandaríkjanna.

Fleira var það ekki þessa vikuna. Góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta