Vegna umferðareftirlits Vegagerðarinnar
Vegagerðin birtir á heimasíðu sinni eftirfarandi svar við umfjöllun um umferðareftirlit stofnunarinnar.
Undanfarnar vikur hefur Landssamband Lögreglumanna gagnrýnt harkalega framkomið frumvarp ríkisstjórnarinnar til breytinga á umferðarlögum. Gagnrýni landssambandsins hefur einkum beinst að þeim þætti frumvarpsins sem lýtur að umferðareftirliti Vegagerðarinnar. Í blöðum, sjónvarpi og á heimasíðu hefur talsmaður landsambandsins haft uppi ýmsar fullyrðingar um umrætt frumvarp sem ekki standast með nokkru móti. Ennfremur hefur talsmaðurinn vegið að starfsheiðri og trúverðugleika umferðareftirlitsmanna. Er látið að því liggja að þeir hafi hvorki faglega hæfni né heimildir til að stunda eftirlit. Af þessum sökum er nauðsynlegt að rifja upp nokkrar staðreyndir um umferðareftirlit Vegagerðarinnar.
Vegagerðin hefur séð um þungaeftirlit á vegum landsins um áratugaskeið. Flutningabílstjórar þekkja þetta eftirlit vel, "pundarana" eins og þeir voru einu sinni kallaðir. Kannanir sem Vegagerðin hefur látið gera þeirra á meðal hafa leitt í ljós að meirihlutinn er ánægður með störf þeirra þó að af augljósum ástæðum séu ekki allir ánægðir með afskipti þeirra. Eftirlit er í eðli sínu þannig að sumir eru óánægðari en aðrir með að sæta afskiptum eftirlits.
Vegagerðin hefur áratugum saman litið á það sem sitt hlutverk að framfylgja þungatakmörkunum til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og má segja að það sé eðlilegur hluti af rekstri vegakerfisins. Fróðir menn segja að eftirlit hafi byrjað fyrir alvöru snemma á sjöunda áratugnum. Árið 1995 ákvað dómsmálaráðuneytið að fela Vegagerðinni eftirlit með aksturs- og hvíldartíma. Árið 1997 fólu skattayfirvöld Vegagerðinni að annast eftirlit með framkvæmd reglna um þungaskatt, þ.á.m. að vigta ökutæki vegna reglna um gjaldþyngd. Hin seinni ár hefur svo bæst við eftirlit með rekstrar- og atvinnuleyfum vegna fólks- og vöruflutninga, og eftirlit með notkun litaðrar olíu.
Ekki er óþekkt að starfsmenn opinberra stofnana eins og Vegagerðarinnar fari með löggæslueftirlit á sínu verksviði. Bifreiðaeftirlitsmenn eru gott dæmi um það frá fyrri tíð en í dag má nefna tollverði og starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Mörg dæmi má nefna þar sem opinberum eftirlitsmönnum er fengin heimild til að sinna eftirliti á starfssviði sínu án aðkomu lögreglu. Má þar nefna starfsmenn Ríkisskattstjóra, Samkeppniseftirlitsins og Fiskistofu. Erlendis er víða þekkt að vega- og samgönguyfirvöld hafi á að skipa eftirlitsmönnum sem sérhæfa sig í eftirliti tengdu umferð á vegum og er norska vegagerðin gott dæmi þess.
Lengst af fékk Vegagerðin lánaða lögreglumenn til aðstoðar við eftirlit en einnig kom fyrir að bifreiðaeftirlitsmenn sem áður höfðu lögregluvald væru þeim til halds og trausts. Þeir áttu að sjá um að stöðva ökutæki og gera kæruskýrslu um afskiptin. Stundum var erfitt að manna eftirlitsbíla með lögreglumönnum og kostnaður vegna þess allnokkur. Á árinu 1998 setti dómsmálaráðuneytið fram þá hugmynd að Vegagerðin sinnti sínu eftirliti án lögreglu. Vegagerðin óskaði þá eftir því að fá lögregluvald á sínu starfssviði og taldi að án lagabreytingar yrði ekki unnt að sinna eftirliti án lögreglu. Því var hafnað þar sem ráðuneytið taldi ekki efni til þess að svo komnu.
Eftirliti var því áfram sinnt með aðstoð lögreglu, hin síðari ár í samstarfi við embætti Ríkislögreglustjóra. Eftir að Vegagerðin fékk heimild til stöðvunar ökutækja samkvæmt umferðarlögum árið 2004, og ekki náðist samkomulag við Ríkislögreglustjóra um áframhaldandi samstarf, var ákveðið að Vegagerðin myndi sinna eftirliti án aðstoðar lögreglu. Tók það gildi 01.01. 2005. Er skemmst frá því að segja að eftirlit hefur gengið með ágætum hvað snertir samskipti við bílstjóra. Fáeinir aðilar hafa gert athugasemdir við tilhögunina en þær hafa byggst á misskilningi líkt og málflutningur Landssambands lögreglumanna og skal nú vikið að honum nokkrum orðum.
Landssamband lögreglumanna virðist álíta að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði falin eftirför og valdbeiting gagnvart bílstjórum. Þetta er rangt eins og þeir vita sem til þekkja. Komi til þess að bílstjóri neiti að hlýta eftirliti hafa eftirlitsmenn kallað til aðstoðar lögreglu og svo verður áfram. Ennfremur gefur landssambandið í skyn að faglegri hæfni og heimildum eftirlitsmanna sé ábótavant. Málatilbúnaður þessi er með ólíkindum og er til þess fallinn að skapa óvissu meðal bílstjóra en slíkt getur ávallt raskað öryggi bæði ökumanna og annarra vegfarenda auk öryggis umferðareftirlitsmanna Vegagerðarinnar sem finnst mjög að sér vegið með þessum málflutningi. Eins og að framan er greint hefur Vegagerðin langa reynslu af eftirliti og heimild til að sinna því.
Þeir sem hirða um að kynna sér það vita að gerðar eru kröfur til eftirlitsmanna umferðareftirlits Vegagerðarinnar um lágmarksmenntun. Í þeirra röðum eru fyrrverandi lögreglumenn með langa reynslu að baki, menn sem starfað hafa að eftirliti áratugum saman og menn með sérþekkingu á ökutækjum. Eftirlitsmenn fá fræðslu og þjálfun í þeim þáttum sem snúa að eftirliti. Allir umferðareftirlitsmenn þurfa að afla sér og viðhalda löggildingu sem vigtarmenn.
Í ljósi þeirra efasemda sem fram hafa komið um faglega hæfni eftirlitsmanna er rétt að geta þess að umferðareftirlit Vegagerðarinnar hefur mörg undanfarin ár komið að kennslu lögreglumanna um reglur og eftirlit með aksturs- og hvildartíma ökumanna ásamt reglugerð um stærð og þynd ökutækja. Þá hafa hópar lögreglunema undanfarin ár verið sendir á vettvang þar sem eftirlitsmenn eru að störfum til að kynna sér stöðvun og eftirlit með stórum ökutækjum. Þekking og reynsla af áratuga eftirlitsstarfi skilar sér og ekki spillir fyrir að hjá eftirlitinu starfar harðsnúinn hópur með margvíslega reynslu og þekkingu.
Umferðareftirlitsmenn Vegagerðarinnar eru einkennisklæddir og eftirlitsbifreiðar eru sérstaklega auðkenndar og sérútbúnar til eftirlits. Eftirlitsmenn starfa eftir ítarlegum verklagsreglum og er að vænta reglugerðar um kröfur til hæfni og um starfshætti þeirra frá samgönguráðuneytinu.
Það er von undirritaðra að framangreint geti orðið til þess að leiðrétta þann ranga málflutning sem fram hefur komið af hálfu talsmanns Landssambands lögreglumanna og vonandi upplýst þá sem ekki þekkja til staðreynda málsins. Umferðareftirlit Vegagerðarinnar óskar eftir góðu samstarfi við lögreglumenn um land allt hér eftir sem hingað til.
Stefán Erlendsson
Sævar Ingi Jónsson