Heyrnar- og talmeinastöðin veitir þjónustu heim í hérað
Þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands (HTÍ) öðlaðist nýja vídd í dag þegar tekin var í notkun þjónustubifreið stofnunarinnar sem innréttuð er með klefa til heyrnarmælinga og tengdum búnaði. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fékk fyrstur manna að prófa þessa þjónustu en markmiðið er að bæta þjónustu við fólk á landsbyggðinni.
Heyrnar- og talmeinastöðin er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akureyri og Sauðárkróki. Með þjónustubílnum verður hægt að aka hvert á land sem er og veita fólki þjónustu í heimabyggð. Starfsfólk HTÍ leggur land undir fót á næstunni og heimsækir fyrst þéttbýlisstaði á Suðurlandi en þegar meiri reynsla er komin á bílinn og þjónustuna verður farið víðar um landið. Þjónustubíllinn gefur aukna möguleika til skimunar á heyrn ungabarna og hefur því forvarnargildi. Eins er horft til þess að á dvalar- og hjúkrunarheimilum um allt land er fólk sem mun njóta góðs af þessari þjónustu, en það á einnig við um aðra sem telja ástæðu til að láta athuga hjá sér heyrnina.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði fagnaðarefni þegar unnt væri að kynna nýjungar sem leiða til aukinnar og bættrar þjónustu á sviði heilbrigðismála eða horfa til framfara á einhvern hátt: „Slíkum tilefnum fer blessunarlega fjölgandi, enda hefur á síðustu misserum skapast svigrúm í fjármálum hins opinbera sem nýtt hefur verið til að efla heilbrigðiskerfið. Ég er sérstaklega ánægður með þá nýjung í þjónustu sem verið er að kynna hér í dag, það er að segja þessa nýju þjónustubifreið Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar – því hún er svo mikilvæg gagnvart landsbyggðinni og sérstaklega hinum dreifðari byggðum“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra um leið og hann óskaði starfsfólki góðrar ferðar á leið sinni um landið á nýju þjónustubifreiðinni: „Það þarf ekki að efa að móttökur verða góðar hvar sem þið komið, enda er þetta frábær nýjung í þjónustu á landsvísu.“