Erindi frá ráðstefnunni „mótum framtíð“ birt
Erindi á ráðstefnunni mótum framtíð - straumar og stefnur í félagslegri þjónustu eru birt á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.
Félagsmálaráðuneytið stóð fyrir ráðstefnunni á Nordica hótel dagana 29. og 30. mars 2007 í samvinnu við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Rauða kross Íslands, Ís-Forsa og fjölmarga hagsmunaaðila sem láta sig varða félagslega þjónustu.
Á ráðstefnunni var sjónum meðal annars beint að samþættingu félagslegrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Kynnt voru viðhorf ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka til framtíðarmarkmiða og skipan þjónustunnar. Kynnt voru fjölmörg verkefni sem unnið er að og reynst hafa vel í framkvæmd félagslegrar þjónustu á Íslandi. Ný stefna ráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna var kynnt og þróun aukinnar þjónustu við geðfatlað fólk.
Þá vöktu athygli fyrirlestrar frá Norðurlöndunum þar sem fjölmargar nýjungar voru kynntar.
Um 600 gestir sóttu ráðstefnuna fyrri daginn og 400 seinni daginn.