Hoppa yfir valmynd
28. júní 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 105/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 105/2018

Fimmtudaginn 28. júní 2018

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. mars 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 13. desember 2017, um synjun á umsókn hennar um styrk vegna námskostnaðar.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um styrk hjá Kópavogsbæ vegna námskostnaðar á grundvelli 27. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólk. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustudeildar fatlaðra, dags. 10. október 2017, með vísan til 3. gr. reglna Kópavogsbæjar um styrki til náms, verkfæra- og tækjakaupa. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs Kópavogsbæjar sem tók málið fyrir á fundi 11. desember 2017 og staðfesti ákvörðun þjónustudeildar. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi, dags. 13. desember 2017. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 24. janúar 2018.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 16. mars 2018. Með bréfi, dags. 23. mars 2018, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 3. maí 2018, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2018, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 17. maí 2018, og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. maí 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé 75% öryrki og hafi því talið sig uppfylla öll skilyrði 3. gr. reglna Kópavogsbæjar um styrki til náms, verkfæra- og tækjakaupa. Synjun á umsókn kæranda um styrk vegna námskostnaðar hafi því komið flatt upp á hana. Í kjölfar synjunarinnar hafi kærandi haft samband við velferðarráð Kópavogsbæjar og þá orðið ljóst að ástæða synjunar væri sú að hún væri ekki fötluð. Kærandi hafi þá leitað eftir upplýsingum um skilgreiningu á því hvað sé að vera fatlaður en komist að því að ekki væri til nein formleg skilgreining. Að mati kæranda megi færa rök fyrir því að allir sem séu með metna 75% örorku séu fatlaðir, sbr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Örorkuskírteini ætti því að vera nægileg sönnun á fötlun eða sjúkdómi.

Kærandi gerir athugasemd við að Kópavogsbær hafi ekki óskað eftir frekari upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkins, eins og hún hafi gefið leyfi fyrir. Umsókn kæranda um styrk hafi verið hafnað eingöngu út frá þeim gögnum sem hún hafi lagt fram með umsókninni. Kærandi hafi ekki fengið skýr svör frá sveitarfélaginu um hvernig mat á fötlun hennar hafi farið fram. Hún hafi ekki farið í neitt formlegt mat hjá neinum öðrum en Tryggingastofnun en svo virðist sem Kópavogsbær taki það mat ekki gilt. Þau gögn sem Kópavogsbær hafi óskað eftir séu ekki þess eðlis að hægt sé að meta fötlun hennar, nema örorkuskírteinið frá Tryggingastofnun. Af samtali kæranda við starfsmann velferðarsviðs Kópavogsbæjar virðist sem svo að tegund fötlunar skipti máli þegar verið sé að styrkja fólk til náms og námskeiða til að rjúfa félagslega einangrun þess. Kærandi geti ekki séð að í lögum eða reglum sé ein fötlun rétthærri en önnur.

Kærandi bendir á að í upphafi hafi mál hennar snúist um skilgreiningu á fötlun en í rökstuðningi velferðarráðs hafi verið vísað til þess að hún væri ekki í þörf fyrir sértækan stuðning. Í reglum Kópavogsbæjar sé ekki að finna skilgreiningu á því hvað falli undir sérstakan stuðning. Þá sé í rökstuðningnum vísað til þess að lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks gildi eingöngu um þá sem séu með alvarlega fötlun. Kærandi telur að hún eigi rétt á stoðþjónustu, sbr. 8. gr. laga nr. 59/1992, og þar með rétt á styrk á grundvelli 27. gr. þeirra laga. Það sem námsstyrkurinn geri fyrir kæranda sé fyrst og fremst að rjúfa félagslega einangrun og gefa henni færi á að umgangast annað fólk og stunda tómstundir.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem hún uppfyllti ekki það skilyrði að hafa þörf fyrir sértækan stuðning vegna fötlunar sinnar. Með sértækum stuðningi sé átt við þá stoðþjónustu sem veitt sé á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Í 2. gr. þeirra laga sé kveðið á um að einstaklingar eigi rétt á þjónustu samkvæmt lögunum sé hann með andlega eða líkamlega fötlun og þarfnist sérstakrar þjónustu eða stuðnings af þeim sökum. Þar undir falli þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðing. Enn fremur geti fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum, svo og slysum.

Kópavogsbær tekur fram að það sé rangt að sveitarfélagið hafi ekki kannað með fullnægjandi hætti í hverju takmarkanir kæranda liggi. Starfsmaður hafi hringt í kæranda og fengið nánari upplýsingar um hvaða áhrif umferðarslys hefði haft á líðan hennar og hreyfigetu. Þá hafi kæranda verið boðið að skila læknisvottorði ef hún kysi, en það sé ekki krafa af hálfu velferðarsviðs. Kærandi hafi kosið að gera það ekki. Vissulega sé kærandi öryrki en það veiti einstaklingum ekki sjálfkrafa rétt á þjónustu á grundvelli laga nr. 59/1992. Kærandi sé hvorki hreyfihömluð né með aðra líkamlega fötlun sem þarfnist sérstakrar þjónustu. Hún glími við bakverki eftir umferðarslys og eigi erfitt með að sitja lengi. Slíkir erfiðleikar séu ekki þess eðlis að kærandi, þrátt fyrir viðurkennda örorku, eigi rétt á stoðþjónustu samkvæmt lögum nr. 59/1992. Slíka þjónustu þurfi þeir einstaklingar sem búi við það alvarlega fötlun að þjónustuþörf þeirra verði ekki fullnægt innan almennrar þjónustu samkvæmt lögum á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu, sbr. 7. gr. laganna.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja umsókn kæranda um styrk vegna námskostnaðar á grundvelli 27. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks.

Markmið laga um málefni fatlaðs fólks er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Einstaklingur á rétt á þjónustu samkvæmt lögunum sé hann með andlega eða líkamlega fötlun og þarfnist sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Þar undir falli þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðing. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum, svo og slysum.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 59/1992 er heimilt að veita fötluðu fólki aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:

  1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.
  2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Í 2. mgr. 27. gr. laganna kemur fram að ráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um framkvæmd þjónustunnar á grundvelli ákvæðisins. Sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja sér nánari reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra, svo sem skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja.

Kópavogsbær hefur útfært nánar framangreinda þjónustu í reglum sveitarfélagsins um styrki til náms, og verkfæra- og tækjakaupa. Í 2. gr. reglnanna kemur fram að markmið styrkja á grundvelli 27. gr. laga nr. 59/1992 sé að auðvelda fötluðu fólki að afla sér þekkingar og reynslu til að auka möguleika þeirra á að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Í þeim tilgangi séu veittir styrkir til þess að fatlað fólk geti sótt sér menntun, viðhaldið og aukið við þekkingu og færni og nýtt möguleika á aukinni þátttöku í félagslífi og atvinnu. Samkvæmt 3. gr. reglnanna er styrkurinn ætlaður fötluðu fólki sem þarfnast sérstaks stuðnings af þeirri ástæðu, til hæfingar, endurhæfingar eða starfsendurhæfingar, og uppfylli eftirtalin skilyrði:

  • Eiga lögheimili í Kópavogi.
  • Hafa náð 18 ára aldri.
  • Hafa varanlega örorku.

Umsókn kæranda um styrk til greiðslu námskostnaðar var synjað á grundvelli 3. gr. reglnanna með vísan til þess að hún væri ekki í þörf fyrir sértækan stuðning. Í rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar er vísað til þess að með sértækum stuðningi væri átt við þá stoðþjónustu sem veitt sé á grundvelli laga nr. 59/1992 til þeirra einstaklinga sem búi við það alvarlega fötlun að þjónustuþörf þeirra verði ekki fullnægt innan almennrar þjónustu, sbr. 7. gr. laganna. Þá er vísað til þess að fötlun kæranda sé ekki þess eðlis að hún hafi sértækar þarfir í skilningi laga nr. 59/1992.

Kærandi hefur gert athugasemd við málsmeðferð Kópavogsbæjar vegna umsóknar sinnar og meðal annars vísað til þess að hún hafi ekki fengið skýr svör frá sveitarfélaginu um hvernig mat á fötlun hennar hafi farið fram. Af hálfu Kópavogsbæjar hefur komið fram að starfsmaður sveitarfélagsins hafi hringt í kæranda og fengið nánari upplýsingar um hennar líðan og hreyfigetu. Því sé ekki rétt að ekki hafi verið kannað með fullnægjandi hætti í hverju takmarkanir kæranda fælust.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður við ákvörðun um veitingu þjónustu við fatlað fólk að líta til þess hver sé þörf þess fyrir slíka þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að fatlaður einstaklingur eigi rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans. Teymin skulu hafa samráð við einstaklinginn um matið og skal það byggt á viðurkenndum matsaðferðum. Ljóst er af gögnum málsins að slíkt mat fór ekki fram í kjölfar umsóknar kæranda. Úrskurðarnefndin bendir á að þar sem ágreiningur virðist vera uppi um hvort kærandi eigi rétt á þjónustu á grundvelli laga nr. 59/1992 var sérstaklega mikilvægt að beina umsókn kæranda í framangreint ferli.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Ljóst er að sveitarfélagið gætti ekki að þeirri lagaskyldu sinni áður en ákvörðun um synjun var tekin. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 13. desember 2017, um að synja umsókn A, um styrk vegna námskostnaðar er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta