Ungir uppfinningamenn og frumkvöðlar verðlaunaðir
Það má með sanni segja að sköpunarkraftur, hugvit og útsjónarsemi einkenni þær hugmyndir sem dómnefnd valdi til að taka þátt í vinnusmiðjum keppninnar. Tæplega 40 nemendur hvaðanæva af landinu komu saman í Háskólanum í Reykjavík um helgina til þess að þróa sín verkefni og fræðast um frumkvöðlastarf. Meðal þeirra verkefna sem unnið var með voru regnkápa sem safnar vatni, gluggatjöld með birtuskynjara, borðspil sem hjálpar börnum að læra að lesa og smáforrit sem telur sauðfé.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti aðalverðlaun dagsins og hélt stutt ávarp. Fyrstu verðlaun að þessu sinni hlutu Guðjón Guðmundsson og Sölvi Páll Guðmundsson úr Rimaskóla fyrir hugmynd sína um flugvéladekkjaskeið, en það er vindskeið sem snýr flugvéladekkjum fyrir lendingu. Önnur verðlaun hlaut Jóakim Uni Arnaldsson í Vesturbæjarskóla fyrir hugmynd sína um sturtuhandklæðaskáp og í þriðja sæti varð skólasystir hans Salka Nóa Ármannsdóttir fyrir hugmynd um reiðhjólahjálm sem einnig er hjólalás.
Ráðherra beindi hvatningarorðum til ungu frumkvöðlanna og sagði meðal annars: „Þið þátttakendur hafið svo sannarlega sýnt sköpun í verki en einnig aga og þrautseigju við að koma hugmynd ykkar í verk og svo aðrir geti séð að það eru til nýjar lausnir við þeim ólíku viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir í daglegu lífi. Ég þykist viss um að mörg ykkar munu verða frumkvöðlar og jafnvel stofna eigið fyrirtæki í framtíðinni.“ Í máli hennar kom einnig fram að fyrirhugað er að keppnin muni á næsta ári einnig ná til unglingastigs grunnskólanna og nemendum í 8.-10. bekk verði þá boðin þátttaka í henni.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti gengst fyrir Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og er mjög þakklátt þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem að henni koma ár hvert en Nýsköpunarmiðstöð Íslands sér um rekstur hennar og skipulag í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Arion banka, Samtök Iðnaðarins, ELKO, IKEA, grunnskóla o.fl. aðila. Sjá nánar á heimasíðu keppninnar, www.nkg.is