Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 161/2015 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. nóvember 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 161/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010063

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst innanríkisráðuneytinu, dags. 11. september 2014, kærði Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl., f.h. [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2014, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni veitt heimild til dvalar á Íslandi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann 3. febrúar 2012. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins þann 3. apríl 2012. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2014.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til innanríkisráðuneytisins með tölvupósti, dags. 11. september 2014. Greinargerð kæranda barst innanríkisráðuneytinu þann 26. nóvember 2014.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 3. gr. laga um útlendinga, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að rökstuddur grunur sé á að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað til málamynda. Þau atriði sem stofnunin tiltók sérstaklega eru m.a. þau að maki kæranda gat ekki farið rétt með dagsetningu hjúskapar, að kærandi og maki hennar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar og að þau hafi ákveðið að ganga í hjúskap á meðan kærandi var enn í hjúskap með fyrrum maka. Stofnunin mat frásögn maka af því hvenær og hvernig samband hans og kæranda hófst ótrúverðuga. Þá hafi maki greint frá því að hann vissi ekki að kærandi hafi eignast barn með fyrrum maka og taldi það vera hennar einkamál. Að auki hafi frásögn maka af samskiptum hans og kæranda verið ótrúverðug, en maki sagðist ekki geta lagt fram símreikninga til að sýna fram á samskipti þeirra. Stofnunin leit til frásagnar maka af samskiptum hans við sambýlisfólk sitt og taldi ótrúverðugt að hann þekkti þau ekki vel eftir tveggja til þriggja ára sambúð. Var það mat stofnunarinnar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, og að ekki hafi verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti af hálfu kæranda. Kæranda var því synjað um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að mat Útlendingastofnunar á hjúskap kæranda og maka hennar sé rangt. Hjúskapurinn sé sannur og réttur og ekki stofnaður í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Kærandi mótmælir því að ónákvæmni varðandi hvenær til hjúskapar var stofnað verði notað til að gera hjúskapinn tortryggilegan. Kærandi heldur því fram að hún þurfi ekki að sanna ástæður þess að hún og maki hafi ákveðið að ganga í hjúskap, heldur hvíli sú sönnun á þeim sem véfengir hjúskapinn.

Kærandi telur það brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að Útlendingastofnun hafi ekki tekið viðtal við kæranda heldur aðeins maka kæranda. Þá telur kærandi jafnframt brot á framangreindri reglu að vísa til ósamræmis í framburði maka við skýrslugjöf hjá stofnuninni og að reisa ákvörðunina eingöngu á þeim framburði til grundvallar ákvörðunar stofnunarinnar en ekki á viðtali við kæranda. Kærandi bendir á að samkvæmt athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 20/2004 um breytingu á útlendingalögum þurfi glögg vísbending að vera fyrir hendi um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Kærandi heldur því fram að hún og maki hennar hafi þekkst vel fyrir stofnun hjúskapar og maki kærandi hafi margoft heimsótt hana til [...]. Kærandi mótmælir því að litið sé til samskipta maka kæranda og sambýlinga hans við mat á umsókn kæranda um dvalarleyfi og það sé umsókninni óviðkomandi. Þá hafnar kærandi því að svör maka um tengsl hans við ákveðna [...] búsetta á Íslandi séu ótrúverðug. Kærandi telur ekki tækt að túlka svör maka um hjónavígslur annarra, sem fram fóru samtímis hjónavígslu kæranda og maka hennar, á þá leið að réttmæti hjúskapar kæranda og maka hennar verði dregið í efa.

Kærandi hafnar túlkun Útlendingastofnunar á 13. gr. laga um útlendinga um að ákvæðið veiti svigrúm til mats um hvað teljist vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Kærandi heldur því fram að ákvæðið skilji ekki eftir svigrúm til mats á öðrum atriðum en þeim sem talin eru upp í athugasemdum með frumvarpi til áðurnefndra laga.

Þá byggir kærandi á því að synjun um dvalarleyfi sé íþyngjandi ákvörðun stjórnvalds og við töku slíkra ákvarðana verði sérstaklega að vanda til verka. Lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði að fylgja í hvívetna og ekkert svigrúm sé til þess að byggja svo íþyngjandi ákvörðun á öðru en lagareglum. Að mati kæranda hefur slíkt ekki verið gert í hennar tilviki. Ákvörðun Útlendingastofnunar um framtíð kæranda og fjölskyldu hennar sé byggð á matskenndum atriðum sem stofnunin telji rýra trúverðugleika hjúskapar kæranda og maka hennar. Að mati kæranda réttlætir það eitt og sér að ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um dvalarleyfi verði felld úr gildi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara vegna gruns um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 13. gr. laga um útlendinga og 47. gr. reglugerðar um útlendinga er að finna heimild til að veita maka íslensks ríkisborgara dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum almennum skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 11. gr. laga um útlendinga. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 13. gr. laga um útlendinga ásamt almennum skilyrðum 11. gr. laganna til að unnt sé að fallast á útgáfu dvalarleyfis henni til handa. Í 11. gr. laga um útlendinga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr., laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.

Í 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti slíkur hjúskapur ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. einnig 47. gr. reglugerðar um útlendinga. Í athugasemdum í frumvarpi við 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. gr. laga nr. 20/2004 um breytingu á lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að skilyrði þess að synjað verði um dvalarleyfi sé í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé um að um gerning til málamynda sé að ræða. Það verði að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þeim efnum geta t.d. verið að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilji ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur er á þeim, þau þekkja ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða fyrri hjónabönd. Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað eingöngu til þess að fá dvalarleyfi, vegna framangreindra atriða eða af öðrum ástæðum, fellur það í hlut umsækjanda að sýna fram á annað.

Kærandi heldur því m.a. fram að rannsókn máls þessa hjá Útlendingastofnun hafi verið ábótavant og brjóti gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað gögn máls þessa og hugað að rannsókn þess. Kærandi lagði fram gögn, máli sínu til stuðnings, áður en ákvörðun var tekin í máli hennar. Eins naut kærandi stuðnings lögmanns við framlagningu kæru og greinagerðar. Verður ekki annað séð en að Útlendingastofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti og ákvörðun hafi verið byggð á fyrirliggjandi gögnum og heildarmati á málavöxtum og aðstæðum kæranda. Er því ekki talið að slíkur ágalli sé á úrlausn málsins að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar af þeirri ástæðu.

Við mat sitt á því hvort um málamyndahjúskap sé að ræða fjallar Útlendingastofnun ítarlega um málavöxtu alla og grundvallast mat stofnunarinnar á heildarmati á gögnum málsins, líkt og áður segir. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi maki kæranda frá því að samskipti þeirra hjóna fari að mestu fram í síma. Kærandi lagði ekki fram símareikninga eða önnur gögn til þess að sýna fram á þessi samskipti þrátt fyrir beiðni þar um. Þá er 20 ára aldursmunur með kæranda og maka. Fram hefur komið að kærandi eignaðist barn með fyrrum maka en maki kæranda sagðist ekkert vita til þess. Þá skildi kærandi að lögum við fyrrum maka meira en ári eftir að kærandi og maki kæranda ákváðu að ganga í hjúskap. Kærandi og maki hennar voru jafnframt ekki í sambúð fyrir stofnun hjúskapar. Með vísan til ofangreinds telur kærunefnd að rökstuddur grunur sé á að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Við málsmeðferð fyrir kærunefndinni hefur kærandi ekki fært fram nein haldbær rök sem sýna fram á annað með óyggjandi hætti.

Það er því mat kærunefndar að umræddur hjúskapur veiti ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga.

Að framansögðu virtu er hin kærða ákvörðun staðfest. 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á útgáfu dvalarleyfis er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the denial of residence permit is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                                                          Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta