Fjármálastöðugleikaráð - fundargerð frá 26. júní 2018
Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Fundinn sátu: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, Einar Jón Erlingsson, forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Fjármálaeftirlitinu og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.
Fundur hefst 14:06 26. júní 2018
1. Kynning formanns kerfisáhættunefndar á helstu þáttum greinargerðar hennar
a. Fram kom að spennan í hagkerfinu væri að slakna og margt sem styddi mjúka lendingu. Þó væru vísbendingar um að spennan í fjármálakerfinu sem slíku væri að aukast, t.a.m. jákvæður vöxtur skulda einkageirans. Fasteignaverð hefði verið hátt og hætta væri á að heimili skuldsettu sig um of á grundvelli þessa háa verðs. Formaðurinn lýsti samspili sem hefur verið milli íbúðamarkaðarins og ferðaþjónustunnar þar sem fasteignaverð hefur hækkað að hluta til vegna mikillar eftirspurnar eftir gistingu í heimahúsum. Viðnámsþróttur bankanna væri talsverður. Eiginfjárhlutföllin hefðu lækkað en væru þó enn yfir lágmarkskröfum. Greint var frá því að á fundi kerfisáhættunefndar hefði verið farið yfir áfallspróf á bankana sem Seðlabankinn væri að vinna að og myndi birtast í haust. Þá var lauslega gerð grein fyrir umfjöllun fundar kerfisáhættunefndar um netógn og rekstrarumhverfi en nú standa yfir og eru fram undan krefjandi breytingar á innviðum og kerfum.
2. Tillaga um að Íbúðalánasjóður teljist ekki lengur kerfislega mikilvægur eftirlitsskyldur aðili
a. Farið yfir greiningar á kerfislegu mikilvægi Íbúðalánasjóðs þar sem grundvallarbreytingar hafa átt sér stað á starfsemi sjóðsins frá því hann var skilgreindur sem kerfislega mikilvægur og umsvif hans á lánamarkaði hafa dregist mjög saman. Fjármálastöðugleikaráð samþykkti tillögu um að Íbúðalánasjóður yrði ekki lengur skilgreindur sem kerfislega mikilvægur eftirlitsskyldur aðili.
3. Álagning eiginfjárauka
a. Sveiflujöfnunarauki
i. Samþykkt tillaga kerfisáhættunefndar um að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum í 1,75% og að beina tilmælum þess efnis til Fjármálaeftirlitsins.
4. Önnur mál
a. Fréttatilkynning samþykkt.
Fundi slitið 15:00.