Hoppa yfir valmynd
27. mars 2019 Heilbrigðisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framtíð Norðurlandaþjóða byggist á velferð barna og ungmenna

Sjá myndatexta neðst í tilkynningunni. - myndHeilbrigðisráðuneytið - Mynd: Birgir Ísleifur

Norrænt samstarf á sviði velferðarmála var í brennidepli þegar norrænir ráðherrar félags- og heilbrigðismála hittust á árlegum fundi sínum í dag sem að þessu sinni var haldinn í Reykjavík. Sem fyrr kom glöggt fram á fundinum hvað norrænu þjóðirnar eru skyldar í mörgum efnum, hafa svipaðar áherslur og leggja allar sem ein ríka áherslu á velferðarkerfin sem einn af mikilvægustu hornsteinum samfélagsins.

Ráðherrarnir ræddu í fyrsta sinn efni skýrslunnar Þekking sem nýtist, tillögur um aukið norrænt samstarf á sviði félagsmála sem Árni Páll Árnason, fyrrum félagsmálaráðherra, tók saman að ósk framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Á formennskuári Íslands hafa verið lagðar megináherslur í samstarfi þjóðanna með hliðsjón af völdum tillögum úr skýrslunni. Allar snúa tillögurnar að því að efla norrænt samstarf á sviði velferðarmála á næstu árum og fyrir því liggur skýr vilji þjóðanna.

Aukin áhersla á notendasamráð í þágu viðkvæmra hópa

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, lögðu í umræðum norrænu ráðherranna áherslu á hvað breytt og víðtækt samstarf, þvert á fagstéttir, stjórnsýslustig og ráðuneyti sé mikilvægt til að ná árangri í velferðarmálum. Það sem megi svo aldrei gleymast er mikilvægi samstarfs og samráðs við notendurna sjálfa.

Við þurfum markvisst að efla og þróa samráð við notendur, einkum fólk í viðkvæmri stöðu sem þarf á stuðningi og þjónustu velferðarkerfisins að halda. Það gildir jafnt um börn, ungmenni og fullorðið fólk. Allir eiga rétt á að þroskast og njóta tækifæra í lífinu. Virkt notendasamráð er mikilvægt í þeirri viðleitni að skapa öllum tækifæri til þess“ segir Ásmundur Einar Daðason.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræddi sérstaklega um andlega líðan og geðheilbrigði ungs fólks í samfélagi nútímans þar sem áreitin væru mörg og hraðinn mikill. Til að mynda hefðu samfélagsmiðlar á fáum árum valdið miklum breytingum í daglegu lífi ungs fólks sem hefðu meðal annars áhrif á félagsleg samskipti, upplýsingamiðlun af margvíslegum toga, svefn og svefnvenjur og svo mætti lengi telja.

„Líf barna og ungmenna í nútímanum er flókið. Því miður glímir margt ungt fólk við andlega vanlíðan og þekktur fylgifiskur er neysla fíkniefna. Til að hjálpa þessu unga fólki þurfum við að hlusta á þau og skilja vanda þeirra. Við þurfum líka að kenna börnunum okkar frá fyrstu tíð hvaða þættir stuðla að og viðhalda góðri andlegri líðan. Svefn, hreyfing, holl næring, fjölskyldutengsl og góðir vinir skipta þar miklu máli“ segir Svandís Svavarsdóttir.

Faglegt samstarf þarf traustar forsendur

Norrænu ráðherrarnir eru sammála um að þróa og endurskoða störf lykilstofnananna í norrænu velferðarsamstarfi. Norræna velferðarmiðstöðin geti reynst mikilvæg við öflun upplýsinga um aðferðir við innleiðingu snemmtækrar íhlutunar á Norðurlöndunum vegna barna í vanda. Eins gegni norrænu hagsýslu- og tölfræðinefndirnar NOSOSKO og NOMESKO mikilvægu hlutverki í faglegu samstarfi þjóðanna.

Af fleiri áherslumálum sem ráðherrarnir ræddu á fundi sínum voru leiðir til að bæta velferðarþjónustu við íbúa strjálbýlla svæða. Margvíslegar tækninýjungar hafa þegar gert mögulegt að efla og bæta þjónustu við fólk í dreifðum byggðum en mikilvægt sé að vera vakandi og skapandi til að gera enn betur og nýta alla möguleika til fulls.

Samstarf Norðurlandaþjóðanna ef til stórbruna kemur og sinna þarf mörgum sjúklingum með brunasár var rætt á fundi ráðherranna í Reykjavík. Þetta er gott dæmi um augljósan ávinning af norrænu samstarfi en í því er meðal annars fjallað um gæðakröfur á brunadeildum sjúkrahúsa, meðferðargetu þeirra, faglegar kröfur til færanlegra brunateyma, verkferla þegar forgangsraða þarf sjúklingum og fyrirkomulag þegar flytja þarf brunasjúklinga milli landa.

Á meðfylgjandi mynd, talið efst frá vinstri eru Pirkko Mattila félags- og heilbrigðismálaráðherra Finnlands, Thyra Frank ráðherra öldrunarmála í Danmörku, Eyðgunn Samuelsen, félagsmálaráðherra Færeyja, Lena Hallengren, félagsmálaráðherra Svíþjóðar, Guro Angell Gimse, ráðuneytisstjóri í atvinnumálaráðuneyti Noregs, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Paula Lehtomaeki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Åse Michaelsen, öldrunar- og lýðheilsumálaráðherra Noregs, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta