Hoppa yfir valmynd
14. maí 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2010

Föstudagurinn 14. maí 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 12. febrúar 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra Z hdl. f.h. A, dags. sama dag. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. nóvember 2009, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt skilyrðið um að hafa stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 22. febrúar 2010.

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. febrúar 2010, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá lögmanni kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið í fullu námi bæði sumarönn og haustönn 2009. Hann hafi tekið öll námskeið sem voru í boði í B-fræði um sumarið og skráð sig í fullt nám um haustið. Á haustönninni hafi konan hans, þá komin um sex mánuði á leið, veikst alvarlega af orsökum sem rekja mátti til meðgöngunnar. Af þeim sökum hafi kærandi ekki getað þreytt öll prófin og endað á að taka eitt próf í desember 2009.

Kærandi greinir jafnframt frá því að þrátt fyrir að hann geti ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur umrædda önn hafi hann samt sem áður lagt stund á námið lungann úr önninni og skilað verkefnum og heimadæmum sem giltu hluta af lokaeinkunn. Í gögnum málsins sé að finna vottun kennara um fullnægjandi ástundun í öllum þeim námskeiðum sem hann hafi verið skráður í en hafi ekki getað lokið.

Kærandi hafi tekið tvö fög í B-fræði sumarið 2009, eða tólf einingar, en það voru öll fögin sem voru í boði fyrir B-fræðinema. Af þeim ástæðum telur kærandi að líta verði svo á að um fullt nám sé að ræða þar sem fleiri áfangar hafi ekki verið í boði. Ljóst sé að sumarönn er ný af nálinni fyrir nemendur C-háskóla og regluverkið ekki fullkomnað á öllum sviðum. Fæðingarorlofssjóður hljóti að meta sumarannir sem fullt nám ef nemendur skrái sig í alla áfanga sem í boði eru.

Með hliðsjón af framansögðu telur kærandi ljóst að hann hafi verið í fullu námi síðastliðna sumarönn. Þá hafi hann verið í 24 ECTS námi síðastliðinn vetur. Barn kærandi hafi fæðst Y. desember sl. Kærandi telur að þar sem einungis sé litið til síðastliðinna sex mánaða í námi skv. lögum nr. 74/2008 komi vorönn 2009 ekki til skoðunar, eins og miðað sé við í bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. nóvember 2009. Því telur kærandi sig uppfylla skilyrði um 75–100% nám síðastliðna sex mánuði.

Kærandi áréttar varðandi haustönn 2009 að það sé heimild í 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.) fyrir fæðingarorlofssjóð að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Telur kærandi að beita eigi þessari undantekningu í sínu tilfelli. Eins og áður greini og fram komi hjá kennurum hafi hann lagt fulla stund á námið. Þá bendir kærandi á að samkvæmt vottorði læknis hafi hann ekki getað stundað nám sitt að fullu á haustönn 2009 vegna veikinda maka. Sjúkrapróf í C-háskóla hafi verið felld niður í janúar, þannig að kærandi hafi heldur ekki getað tekið próf þá en hann hafi möguleika á að taka upp áfangana á vorönn 2010.

Kærandi telur samkvæmt framangreindu að hann uppfylli öll skilyrði l. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Að lokum bendir kærandi á að markmið ffl. sé að styrkja tengslin milli foreldra og barna og mæta þeim auknu kröfum sem gerðar eru til feðra um að taka jafnan þátt í umönnun barna sinna. Með hliðsjón af markmiði laganna beri að túlka reglur hennar rúmt og til hagsbóta fyrir nemendur.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 7. október 2009, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 4,5 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 16. desember 2009.

Með umsókn kæranda hafi fylgt yfirlit frá C-háskóla, dags. 7. október 2009, vottorð um skólavist, dags. 19. nóvember 2009, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 5. október 2009, og læknisvottorð, dags. 23. nóvember 2009. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. nóvember 2009, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. Í bréfinu hafi verið tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt skilyrðið um að hafa stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Jafnframt vísar sjóðurinn til þess að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að fæðingardagur barns kæranda sé Y. desember 2009 og verði því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. desember 2008 fram að fæðingardegi barnsins.

Í yfirliti frá C-háskóla, dags. 7. október 2009, komi fram að kærandi hafi lokið einu fagi 6 ECTS einingum á haustönn 2008, tveimur fögum 12 ECTS einingum á vorönn 2009 og tveimur fögum 12 ECTS einingum á sumarönn 2009. Á haustönn 2009 sem sé fæðingarönn barnsins hafi kærandi verið skráður í 4 fög 24 ECTS einingar.

Fæðingarorlofssjóður greinir einnig frá því að á vottorði um skólavist, dags. 19. nóvember 2009, komi fram að kærandi hafi lokið fimm grunnnámskeiðum í B-fræði og þar með lokið undirbúningsnámi fyrir meistaranám í B-fræði. Einnig sé vottað að aðeins tvö B-fræðinámskeið hafi verið í boði sumarið 2009.

Þá greinir sjóðurinn frá því að eftir að kæra kom fram hafi verið aflað frekari upplýsinga frá D- og B-fræðideild C-háskóla um fyrirkomulag grunnnáms við B-fræðideildina. Í svari frá verkefnastjóra deildarinnar, dags. 22. febrúar 2010, komi meðal annars fram að til að fá inngöngu í meistaranám í B-fræði þurfi nemendur að uppfylla ákveðin skilyrði. Umsækjandi þurfi að hafa lokið BS/BA námi í B-fræði frá C-háskóla eða öðrum háskólum, þeir sem uppfylli ekki þær kröfur þurfi að taka undirbúningsnámskeið. Undirbúningsnám eins og kærandi tók sé vanalega tekið á einu skólaári, þ.e. haust- og vormisseri í almennu grunnnámi. Sumarið 2009 hafi C-háskóli ákveðið að bjóða upp á nokkur námskeið í grunnnámi til þess að koma til móts við þarfir nemenda sem voru atvinnulausir og vildu nýta tíma sinn.

Samkvæmt framangreindu hafi kærandi tekið fimm námskeið í grunnnámi við B-fræðideild C-háskóla sem undirbúning fyrir meistaranám eða alls 30 ECTS einingar á þremur misserum, þ.e. eitt fag 6 ECTS einingar á haustmisseri 2008 eða 20% nám, tvö fög 12 ECTS einingar á vormisseri 2009 eða 40% nám og tvö fög 12 ECTS einingar á sumarmisseri 2009 eða 40% nám. Eins og fram komi í svari frá B-fræðideild C-háskóla, dags. 22. febrúar 2010, sé vaninn sá að undirbúningsnámskeiðin séu tekin á einu skólaári, þ.e. á haust- og vormisseri og þá í almennu grunnnámi. Á haustönn 2009, fæðingarönn barnsins, hafi kærandi verið skráður í 24 ECTS einingar í meistaranámi eða 80% nám.

Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 ECTS einingar á misseri vera 100% nám og því teljist 22–30 ECTS einingar vera fullt nám eða 75–100% nám samkvæmt ffl. Einstök námskeið teljist ekki til náms samkvæmt skilgreiningu laganna á fullu námi. Með hliðsjón af framangreindu og þeim gögnum sem liggi fyrir um námsframvindu kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að hann hafi ekki uppfyllt almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns. Kærandi hafi ekki verið í fullu námi á haustmisseri 2008, vormisseri 2009 og sumarmisseri 2009 heldur tekið einstök námskeið.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 12. nóvember 2009. Kærandi eigi þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi og hafi verið afgreiddur sem slíkur, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 29. desember 2009.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi, dags. 12. nóvember 2009.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 19. gr. ffl. er heimilt að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Barn kæranda fæddist Y. desember 2009. Í málinu liggja fyrir gögn frá C- háskóla sem sýna fram á ástundun kæranda á haustönn 2009. Með vísan til þeirra lítur nefndin svo á að heimilt sé að taka tillit til ástundunar kæranda í stað námsárangurs á haustönn 2009.

Í kæru kemur fram að barnsmóðir kæranda hafi veikst alvarlega af orsökum sem rekja mátti til meðgöngunnar, þá komin um sex mánuði á leið. Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun hafi hún ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna. Ekki er að finna samsvarandi undanþágu fyrir feður vegna veikinda barnsmæðra í ffl. eða reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þarf kærandi því að öðru leyti að uppfylla skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, að undanþegnum þeim mánuðum sem haustönn 2009 tekur yfir. Því ber að skoða hvort kærandi nái að fylla upp í þá mánuði sem uppá vantar með fullu námi að öðru leyti innan viðmiðunartímabilsins, sem er frá Y. desember 2008 fram að fæðingu barnsins Y. desember 2009.

Fyrir liggur að kærandi lauk tólf einingum á vorönn 2009. Því er ljóst að kærandi var ekki í fullu námi þá önn. Kemur þá til skoðunar hvort kærandi geti talist hafa verið í fullu námi á sumarönn 2009, þegar hann lauk þeim tólf einingum sem í boði voru þá um sumarið.

Fullt nám við C-háskóla er 30 ECTS einingar á haust- og vorönn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 einingar á þeim önnum, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Samkvæmt upplýsingum frá C-háskóla og mennta- og menningarmálaráðuneytinu eru ekki til staðlaðar reglur um hvað teljist vera fullt nám á sumarönn á sama hátt og liggja fyrir um haust- og vorönn. Á haust- og vorönn er miðað við að á bak við hverja ECTS einingu liggi 25-30 klukkustunda vinna nemanda. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er fullt nám á sumarönn 20 ECTS einingar enda er hún styttri en haust- og vorönn. Byggist sá einingarfjöldi á sama vinnuframlagi nemanda á bak við hverja ECTS einingu og á haust- og vorönn. Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Samkvæmt þessu er fullt nám á sumarönn í skilningi ffl. 15-20 ECTS einingar. Kærandi lauk sem fyrr segir tólf einingum á sumarönn, en fullt nám var ekki í boði. Með vísan til þessa telur nefndin ekki unnt að líta svo á að kærandi hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Verður því hin kærða ákvörðun staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A, um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta