Hoppa yfir valmynd
18. maí 2010 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2010

Mál nr. 1/2010:

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Sveitarfélaginu Árborg

Ráðning í starf. Hæfnismat. Auglýsing.

Sveitarfélagið Árborg auglýsti í júní 2009 laust starf vaktformanns í Sundlaug Stokkseyrar. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum annars vegar vegna orðalags auglýsingar um lausa stöðu vaktformanns og hins vegar vegna þess að hún væri hæfari en karlmaður sá sem ráðinn var, bæði hvað varðaði menntun og reynslu, auk þess sem hún uppfyllti mun betur þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingunni. Sveitarfélagið Árborg vísaði til þess varðandi upphaflega auglýsingu að um mistök hefði verið að ræða og að leiðrétt auglýsing hafi verið birt viku síðar. Að því er varðar ráðningu karlmannsins taldi Sveitarfélagið Árborg að karlinn hefði verið hæfasti umsækjandinn um starf vaktformannsins, meðal annars hafi hann verið með iðnmenntun á sviði vélstjórnar og pípulagna sem talið var að myndi nýtast vel í umræddu starfi. Kærunefnd jafnréttismála taldi ekki ómálefnalegt af hálfu sveitarfélagsins, að við ráðninguna hafi verið vikið frá skilyrði í auglýsingu varðandi hæfnispróf laugarvarða og námskeið í skyndihjálp. Kærunefndin taldi heldur ekki tilefni til að draga í efa það mat sveitarfélagsins, að sá sem ráðinn var hafi verið hæfari en kærandi til að gegna starfi vaktformanns með hliðsjón af menntun hans og reynslu. Taldist Sveitarfélagið Árborg því ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf vaktformanns við Sundlaug Stokkseyrar.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 18. maí 2010 er tekið fyrir mál nr. 1/2010 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru dagsettri 5. febrúar 2010 óskaði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, fyrir hönd kæranda, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Sveitarfélagið Árborg hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er sveitarfélagið auglýsti eftir karlmanni og réð karlmann í starf vaktformanns við Sundlaug Stokkseyrar í júní 2009.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Sveitarfélaginu Árborg með bréfi dagsettu 2. mars 2010. Hinn 22. mars 2010 barst umsögn Sveitarfélagsins Árborgar með bréfi dagsettu 18. mars 2010 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 22. mars 2010.
  4. Hinn 9. apríl 2010 bárust athugasemdir kæranda með bréfi dagsettu 8. apríl 2010. Sveitarfélaginu Árborg var með bréfi kærunefndar dagsettu 9. apríl 2010 gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda en engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.
  5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  1. Í kæru, dagsettri 5. febrúar 2010, er bent á að 11. júní 2009 hafi Sveitarfélagið Árborg auglýst laust til umsóknar starf vaktformanns við Sundlaug Stokkseyrar í Dagskránni, fréttablaði Suðurlands. Sama auglýsing hafi einnig birst á heimasíðu sveitarfélagsins en efni hennar hafi síðar verið breytt. Í fyrirsögn auglýsingarinnar segi: Sundlaug Stokkseyrar – vaktformaður – karlmaður. Kærandi hafi gert athugasemdir við framsetningu auglýsingarinnar þar sem eingöngu hafi verið auglýst eftir karlmanni og þá hafi auglýsingin verið tekin af heimasíðu sveitarfélagsins.
  2. Kærandi hafi síðar fengið upplýsingar um það símleiðis að B hafi verið ráðinn í starfið. Með bréfi, dagsettu 30. júní 2009, hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni skv. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í beiðni sinni hafi kærandi sérstaklega óskað eftir því að tilgreint væri í rökstuðningi lið fyrir lið hæfni þess sem ráðinn var með vísan til auglýsingarinnar. Með bréfi Sveitarfélagsins Árborgar, dagsettu 6. ágúst 2009, barst kæranda rökstuðningur fyrir ráðningunni þar sem ekkert hafi komið fram sem benti til þess að sá sem ráðinn var hafi fullnægt skilyrðum fyrir veitingu starfsins samkvæmt auglýsingu að því undanskildu að honum hefði í námi sínu verið kennt á virkni tækja í sundlaugum.
  3. Í kjölfarið hafi kærandi leitað til Jafnréttisstofu og Félags opinberra starfsmanna á Suðurlandi. Jafnréttisstofa hafi að athuguðu máli talið að ekki yrði annað séð en að auglýsing vegna starfsins, líkt og hún birtist í Dagskránni, hafi verið í andstöðu við 3. mgr. 26. gr. jafnréttislaga. Jafnréttisstofa hafi sent Sveitarfélaginu Árborg bréf, dags. 24. ágúst 2009, og bent á að þar sem ótvírætt væri auglýst eftir karlmanni í starf vaktformanns Sundlaugar Stokkseyrar í Dagskránni 11. júní sama ár hafi virst sem Sveitarfélagið Árborg hefði ekki farið að 3. mgr. 26. gr. jafnréttislaga. Þeim tilmælum hafi verið beint til sveitarfélagsins að taka málið upp við þau svið og þá yfirmenn sem auglýsa eftir starfsfólki fyrir sveitarfélagið svo allir væru upplýstir um þær reglur sem gildi um starfsauglýsingar samkvæmt jafnréttislögum.
  4. Með bréfi, dagsettu 24. ágúst 2009, hafi kærandi óskað eftir afritum af öllum umsóknargögnum og minnispunktum/upplýsingum úr starfsviðtali þess sem ráðinn var í starf vaktformanns skv. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2009, hafi kæranda borist afrit af öllum umsóknargögnum þess sem ráðinn var og hennar sjálfrar, punktar úr starfsviðtölum og umsagnir þeirra beggja.
  5. Með bréfi, dagsettu 7. september 2009, hafi kærandi óskað eftir upplýsingum vegna ákvörðunar um ráðningu í umrætt starf vaktformanns, þar sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafi talið ráðninguna og auglýsingu vegna starfsins brjóta í bága við jafnréttislög samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.
  6. Með bréfi, dagsettu 7. október 2009, hafi erindi kæranda verið svarað þar sem fram komi að sveitarfélagið telji að fullnægjandi rök hafi verið færð fyrir ráðningunni með rökstuðningi sem kæranda var sendur með bréfi, dagsettu 6. ágúst 2009. Tekið sé fram að kærandi hafi verið eini umsækjandinn sem uppfyllti skilyrði sem sett var í auglýsingunni um hæfnispróf laugarvarða og námskeið í skyndihjálp. Síðan segi orðrétt: „Í þessu sambandi skal það hins vegar tekið fram að það tíðkast ekki að umsækjendur um störf í sundlaugarmannvirkjum séu útilokaðir frá ráðningu vegna þess að þeir hafi ekki lokið hæfnisprófi laugarvarða eða námskeiði í skyndihjálp.“ Sveitarfélagið hafi einnig vísað til þess að kærunefnd jafnréttismála og dómstólar hafi sagt að þegar metið sé hvort 4. mgr. 26. gr. jafnréttislaga hafi verið brotin skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa sé gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verði að annars komi að gagni í starfinu. Enn fremur hafi sveitarfélagið vísað til þess að það sé „almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð“.
  7. Í bréfinu frá 7. október 2009 til kæranda hafi verið tilgreint hvaða atriði það voru sem hafi ráðið mestu um val á þeim sem ráðinn var í starfið. Sérstaklega sé nefnt að iðnmenntun hans á sviði vélstjórnar og pípulagna hafi skipt máli. Síðan hafi verið vísað til reynslu hans af stjórnun sem hafi verið fólgin í því að stjórna á sinni vakt í kjötborði Nóatúns og að hann hafi komið að stjórn pípulagningadeildar í Byko um skeið.
  8. Kærandi telur að vegna orðalags auglýsingar um lausa stöðu vaktformanns hafi verið brotið gegn 3. mgr. 26. gr. jafnréttislaga. Í ákvæðinu segi að óheimilt sé að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið sé í skyn að fremur sé óskað eftir starfsmanni af öðru kyninu en hinu. Í ákvæðinu séu heimilaðar undantekningar frá framangreindu, en það sé einungis ef „tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir öðru kyninu.“ Hvergi í gögnum málsins komi fram að undantekningar þessar eigi við og kærandi telur ekki nægilegt að sveitarfélagið haldi því fram að það hafi birt auglýsinguna með framangreindu orðalagi fyrir mistök. Birting hennar brjóti engu að síður gegn 26. gr. jafnréttislaga og sé jafnframt til þess fallin að draga það í efa að kona sem sæki um stöðuna sitji við sama borð og karl.
  9. Kærandi vekur athygli á að Sveitarfélagið Árborg hafi ekki sent leiðrétta auglýsingu til birtingar í Dagskránni þegar á það hafi verið bent á af kæranda að orðalag auglýsingar bryti í bága við lög nr. 10/2008 heldur birt nýja auglýsingu í öðru blaði, Sunnlenska fréttablaðinu. Grundvallarmunur sé á þessum tveimur blöðum því Dagskránni sé dreift án endurgjalds á öll heimili í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum og liggi frammi á fjölda opinberra staða og í verslunum. Hverju upplagi Dagskrárinnar sé dreift í um 9.000 eintökum án endurgjalds. Sunnlenska fréttablaðið sé selt í áskrift og lausasölu og sé því dreifing þess ekki jafn mikil og Dagskrárinnar. Því hafnar kærandi alfarið að umrædd „mistök“ við birtingu auglýsingar hafi verið leiðrétt um leið og þeirra hafi orðið vart. Ekki hafi verið send leiðrétting í það blað er hafi birt auglýsingu um laust starf vaktformanns með áskilnaði um að umsækjendur þyrftu að vera karlkyns og geti því ekki verið um leiðréttingu að ræða.
  10. Kærandi telur að hún standi framar þeim sem ráðinn var hvað varðar menntun og reynslu sem nýtist beint í umræddu starfi, auk þess sem hún uppfylli öll hæfnisskilyrði sem sett voru fram í auglýsingunni. Sá sem var ráðinn búi ekki yfir áskilinni menntun, hafi takmarkaða stjórnunarreynslu og enga menntun eða reynslu svo heitið geti sem tengist sundlaugum eða íþróttamannvirkjum.
  11. Í auglýsingu Sveitarfélagsins Árborgar vegna stöðu vaktstjóra voru sérstaklega tilgreindar ákveðnar hæfniskröfur. Fram kom að þess væri krafist að umsækjendur um stöðuna hefðu hæfnispróf laugarvarða og námskeið í skyndihjálp. Þá hafi þekking á tækjum sundlauga verið kostur ásamt starfsreynslu í sundlaugum og/eða öðrum íþróttamannvirkjum. Í rökstuðningi Sveitarfélagsins Árborgar vegna ráðningar í stöðu vaktformanns hafi ekki verið tilgreint hvort sá sem ráðinn var hafi fullnægt skilyrðum fyrir veitingu starfsins samkvæmt auglýsingu að því undanskildu að hann hafi lokið iðnnámi í pípulagningum og hafi í tengslum við nám sitt komið nálægt viðhaldi á húsnæði eða tækjum í líkingu við sundlaugar. Hins vegar komi skýrt fram í þeim rökstuðningi að kærandi hafi, ein úr hópi umsækjenda, uppfyllt þessi hæfnisskilyrði sem sérstaklega voru tekin fram í auglýsingunni.
  12. Röksemdum kærða varðandi hæfnispróf laugarvarða og námskeið í skyndihjálp er alfarið hafnað þar sem samkvæmt auglýsingu um laust starf vaktformanns í Sundlaug Stokkseyrar hafi verið gerðar þær kröfur til starfsins að umsækjendur hefðu lokið hæfnisprófi laugarvarða og námskeiði í skyndihjálp. Þegar kærandi hafi verið ráðin til starfa sem laugarvörður í byrjun árs 2008 hafi ekki verið gerðar sömu kröfur, sbr. auglýsingu vegna þess starfs. Þá hafi Sveitarfélagið Árborg staðfest að kærandi hafi verið eini umsækjandinn sem uppfyllti skilyrði um hæfnispróf laugarvarða og námskeið í skyndihjálp.
  13. Kærandi telur að of mikið hafi verið gert úr þekkingu þess sem ráðinn var á tækjum sundlauga og reynslu hans af stjórnun. Reynsla hans af stjórnun samkvæmt ferilskrá og ráðningarviðtali sé helst fólgin í stjórnun vaktar í kjötborði Nóatúns og tímabundinni stjórnun pípulagningadeildar Byko en samkvæmt gögnum úr ráðningarviðtali hafi sú stjórnun verið í samstarfi við aðra.
  14. Enn fremur dregur kærandi verulega í efa að menntun þess sem ráðinn var nýtist svo vel í starfi vaktformanns að það geri hann hæfari til starfsins en kæranda. Almennt hljóti það að vera svo að gerðar séu þær kröfur að vaktformenn eða aðrir yfirmenn sundstaða hafi grundvallarþekkingu á tækjum staðarins, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 457/1998, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, sem sé eina ákvæði reglugerðarinnar sem kveði beint á um þá skyldu sem hvíli á eiganda sund- og baðstaða varðandi þekkingu starfsfólks á tækjum þess. Hvað varði reglulegt viðhald og aðra meðferð tækjanna verði að telja að þeim verkefnum sé sinnt af iðnaðarmönnum sem starfi sem slíkir. Þannig hafi til dæmis pípulagningamenn komið að viðgerðum á tækjum og reglubundnu viðhaldi í starfstíð fyrri forstöðumanna Sundlaugar Stokkseyrar.
  15. Kærandi getur ekki fallist á að rökstuðningur Sveitarfélagsins Árborgar um hæfni þess sem ráðinn var sé nægilegur til að líta megi svo á að hann sé hæfari til starfsins en kærandi. Hann hafi aldrei starfað í sundlaug né íþróttamannvirki áður, hann hafi hvorki langa né umfangsmikla reynslu af stjórnun og hann hafi hvorki lokið umbeðnu hæfnisprófi né námskeiði í skyndihjálp. Ekki sé unnt að sjá af viðtalspunktum að það sem fram hafi komið í viðtalinu geri hann hæfari en kæranda til að gegna starfinu, heldur þvert á móti. Viðtölin sýni miklu fremur fram á það að kærandi uppfylli þau skilyrði sem lagt hafi verið upp með í auglýsingunni og sé hæfari til að gegna starfinu.
  16. Kærandi bendir enn fremur á að það sé atvinnurekanda að sýna fram á að málefnalegar ástæður hafi legið að baki ákvörðun hans þegar leiddar hafi verið líkur að því, eins og hér sé haldið fram, að einstaklingum hafi verið mismunað á grundvelli kyns.
  17. Kærandi greinir frá því að í júní 2008 hafi starf forstöðumanns Sundlaugar Stokkseyrar verið laust til umsóknar þegar D hafi látið af störfum. Þegar ljóst hafi verið að D myndi láta af störfum í lok maí sama ár hafi kæranda verið boðið starfið. Á þeim tíma hafi hún ekki treyst sér til að taka því vegna félagslegra aðstæðna en hafi samþykkt að sinna starfinu þar til nýr forstöðumaður yrði ráðinn. Hún hafi því starfað sem forstöðumaður sundlaugarinnar í júní 2008 og fengið greitt aukalega fyrir að inna af hendi lengri vinnutíma í júlí og ágúst sama ár þegar hún hafi kennt nýráðnum forstöðumanni til verka, C, sem hafi hafið störf 1. júlí 2008. Því megi ljóst vera að sveitarfélagið hafi talið kæranda hæfa til starfsins.
  18. Þá hafi Sveitarfélagið Árborg vitnað í umsögn fyrrverandi forstöðumanns sundlaugarinnar, C, sem hann hafi átt að hafa veitt forstöðumanni sundlauga Árborgar, þess efnis að „kærandi gæti leyst einföld verk í tækjarými en ekki þau flóknari“. Fyrrverandi forstöðumaður hafni því hins vegar alfarið að hann hafi haft uppi slík orð um kæranda, samanber tölvupóst milli þeirra dagsettan 23. mars 2010, en hann hafi meðal annars gefið kæranda full og óskoruð meðmæli í stöðuna enda með mestu starfsreynsluna.
  19. Þrátt fyrir að unnt sé að færa málefnaleg rök fyrir því að iðnmenntun líkt og pípulagnir geti nýst vel í starfi við sundlaugar telur kærandi að menntun þess sem ráðinn var hafi verið gert svo hátt undir höfði að aðrir eiginleikar umsækjenda hafi ekki verið teknir til greina. Þannig hafi til að mynda hvergi í svörum Sveitarfélagsins Árborgar vegna þessa máls verið svarað þeirri spurningu hvers vegna réttmætt hafi verið að víkja frá því skilyrði sem tilgreint sé í auglýsingu um að krafist sé starfsreynslu í sundlaugum og/eða öðrum mannvirkjum sem og öðrum sem ekki feli í sér þekkingu á tækjum eða stjórnunarreynslu.
  20. Kærandi telur að ráða megi af greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar að kærandi og sá sem ráðinn var hafi verið einu umsækjendurnir sem komu til greina í starfið að loknum ráðningarviðtölum og megi ráða að það hafi haft úrslitavægi að sá sem ráðinn var væri menntaður pípulagningamaður og hefði stjórnunarreynslu. Draga verði í efa að starfandi vaktformanni sé ætlað að sinna umfangsmiklum framkvæmdum við tæki sundlaugarinnar þar sem sveitarfélagið hafi almennt keypt slíka þjónustu af starfandi fagmönnum líkt og það hafi gert áður og geri ef framkvæma þurfi að öðru leyti við sundlaugina, svo sem í tengslum við rafmagn, smíðar o.s.frv. Það hljóti einnig að vera í samræmi við þá ábyrgð sem sveitarfélagið beri á rekstri opinbers sund- og baðstaðar. Að lokum verði að nefna að hvergi sé af hálfu sveitarfélagsins tilgreint hve mikla kynningu á tækjum sundlauga sá sem ráðinn var hafi fengið í námi sínu og hve mikil kennslan hafi verið. Erfitt sé því að meta hvort sú þekking á tækjum sundlauga sem þurfi til að sinna starfi vaktformanns sé nokkuð minni hjá kæranda í ljósi starfsreynslu hennar en þekking þess sem ráðinn var vegna menntunar sinnar.
  21. Kæranda hafi verið boðið starfið og sinnt því tímabundið, verið treyst til að standa ein að því að kenna nýjum forstöðumanni sundlaugar á tækjabúnaðinn í júlí 2008 og þar af leiðandi hafi sveitarfélagið væntanlega talið sig starfa í fullu samræmi við reglugerð nr. 457/1998 og talið þekkingu kæranda nægilega til að sinna starfinu.
  22. Kærandi vekur einnig athygli á því að ekki verði séð að Sveitarfélagið Árborg hafi rætt við aðra umsagnaraðila þess sem ráðinn var en pípulagningameistara. Því sé vandséð að staðfesting hafi fengist á því að sá sem ráðinn var hafi farið með stjórn að hluta til eða öllu leyti við pípulagningadeild Byko og hjá Nóatúni. Þá sé hvergi tilgreint í hverju sú stjórnun hafi falist, hver ábyrgðin hafi verið eða hvort almennt sé unnt að flokka störfin sem stjórnunarstörf. Þá hafi í engu verið getið þess hvort sá sem ráðinn var hafi sérstaka reynslu af móttöku og þjálfun nýrra starfsmanna. Erfitt sé að sjá af gögnum málsins hver ábyrgð þess sem ráðinn var raunverulega hafi verið í nefndum störfum sem talin séu honum til tekna varðandi stjórnunarreynslu.
  23. Kærandi bendir á að sá sem ráðinn var hafi hvorki haft starfsreynslu né þekkingu af störfum við sundlaugar eða íþróttamannvirki að undanskilinni nefndri kynningu á tæki sundlauga. Vandséð sé hvernig sá sem ráðinn var gæti talist hæfari en kærandi sem hafi unnið og kennt öðrum forstöðumanni til verka við tilgreind verkefni. Kærandi hafnar því alfarið að menntun þess sem ráðinn var geri hann hæfari en sig til að hafa umsjón með birgðastöðu í samráði við forstöðumann, eftirlit með húsnæði, tækjum, áfyllingu, frágangi og þrifum eftir vakt. Menntun hans eða reynsla hafi til að mynda væntanlega ekki falið í sér þekkingu á viðbrögðum við leka í klórherbergi og hvað felist í þrifum eða hvernig skuli þrifið svo uppfylltar séu þær hreinlætiskröfur sem gerðar séu til opinberra sundstaða. Það verði að telja ljóst að þar sem sá sem ráðinn var hafi aldrei starfað við slík verkefni áður á sundstað eða íþróttamannvirki að hann hafi ekki haft þekkingu á framangreindu þegar hann hafi hafið störf. Menntun eða starfsreynsla hans geti með engu móti falið í sér að hann hafi meiri þekkingu á þessum verkefnum en starfsmaður sem hafði sinnt þeim í tæpt eitt og hálft ár.
  24. Kærandi telur að samkvæmt öllu framansögðu sé ljóst að Sveitarfélagið Árborg hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga, bæði með orðalagi auglýsingar sem birt var um stöðu vaktformanns og einnig með ráðningu karlmanns í starfið.

SJÓNARMIÐ SVEITARFÉLAGSINS ÁRBORGAR

  1. Varðandi auglýsinguna um starf vaktformanns við Sundlaug Stokkseyrar tekur Sveitarfélagið Árborg fram að fyrir mistök hafi verið auglýst eftir karlmanni í starfið. Sú auglýsing hafi birst 11. júní 2009 í staðarblaðinu Dagskránni og á heimasíðu sveitarfélagsins. Strax og mistökin hafi komið í ljós hafi auglýsingu um starfið á heimasíðu sveitarfélagsins verið breytt og áskilnaður um karlmann í starfið tekinn út. Ný og leiðrétt auglýsing um starfið hafi birst 19. júní 2009 í Sunnlenska fréttablaðinu.
  2. Sveitarfélagið Árborg áréttar að um mannleg mistök hafi verið að ræða sem leiðrétt hafi verið um leið og þau komu í ljós enda hafi aðstæður á þessum tíma ekki verið þannig að nota þyrfti undanþágu lokamálsliðar 3. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 vegna kynjasamsetningar starfsmannahópsins sem sinnir meðal annars baðvörslu. Í samræmi við leiðrétta auglýsingu hafi allar umsóknir sem bárust verið teknar til meðferðar sem gildar umsóknir en um starfið sóttu þrír karlar og ein kona.
  3. Sveitarfélagið Árborg harmar þessi mistök og óskar eftir að kærunefndin taki tillit til þeirra skýringa sem hér hafi verið settar fram og tekur fram að þessi mistök hafi á engan hátt haft áhrif á ákvörðun um ráðningu í starfið. Staða kæranda í ráðningarferlinu hafi verið sú sama og þeirra karlmanna sem hafi sótt um starfið. Í því sambandi sé rétt að benda á að allir umsækjendur, þar með talin kærandi, hafi verið boðaðir í ráðningarviðtal.
  4. Við ráðningu í starf vaktformanns Sundlaugar Stokkseyrar hafi verið leitast við að viðhafa vandaða málsmeðferð í anda stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, upplýsingalaga, nr. 50/1996, laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, jafnréttisstefnu sveitarfélagsins frá 7. desember 2005 og starfsmannastefnu sveitarfélagsins frá 12. október 2005. Vandlega hafi verið farið yfir umsóknir og allir umsækjendur boðaðir í ráðningarviðtal áður en ákvörðun hafi verið tekin um ráðningu í starfið. Íþrótta- og tómstundafulltrúi sveitarfélagsins og forstöðumaður sundlauga Árborgar tóku viðtölin. Í þeim hafi verið farið yfir menntun, starfsreynslu og persónulega eiginleika umsækjenda með vísan til og að teknu tilliti til þeirra krafna sem tilgreindar hafi verið í auglýsingu um starfið. Eftir viðtölin hafi verið rætt í síma við umsagnaraðila um þá umsækjendur sem hafi þótt koma til greina í starfið, þ.e. kæranda og þann sem ráðinn var.
  5. Kærandi hafi verið eini umsækjandinn sem hafði lokið hæfnisprófi laugarvarða. Kærandi hafi hafið störf í Sundlaug Stokkseyrar 14. febrúar 2008 og tekið hæfnispróf laugarvarða í fyrsta skipti 28. maí 2008 og síðan aftur 7. febrúar 2009. Hún hafi hins vegar tilkynnt veikindi daginn sem starfsmenn sundstaða í Sveitarfélaginu Árborg hafi mætt á skyndihjálparnámskeið fyrri hluta árs 2009. Í umsókn kæranda um starf vaktformanns komi fram að hún hafi lokið skyndihjálparnámskeiði 26. janúar 2008 þegar hún hafi lokið námskeiðinu björgunarmaður 1 hjá Björgunarskóla Landsbjargar. Sömu aðstæður hafi því verið uppi þegar kærandi hafi verið ráðin sem laugarvörður hjá sveitarfélaginu fyrri hluta árs 2008 og þegar ákvörðun hafi verið tekin um ráðninguna. Ástæðan sé sú að umsóknir séu teknar gildar þótt umsækjendur um störf í sundlaugum Árborgar hafi ekki lokið hæfnisprófi laugarvarða. Við ráðningu í máli þessu hafi vinnulagið því í engu verið frábrugðið því sem almennt sé við ráðningu starfsmanna í sundlaugar sveitarfélagsins og umsækjendur séu ekki útilokaðir frá ráðningu vegna þess að þeir hafi ekki lokið hæfnisprófi laugarvarða eða námskeiði í skyndihjálp þegar þeir sækja um. Væri svo yrði án efa erfitt að manna störf við gæslu í sundlaugum en talsverð starfsmannavelta sé í þeim. Sveitarfélagið Árborg tekur fram að eftirlitsaðili, þ.e. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, hafi ekki gert athugasemdir við þetta vinnulag. Sveitarfélagið sjái um að allir starfsmenn sundstaða taki árlega hæfnispróf. Þess skal getið að sá sem ráðinn var, sem hóf störf hjá sveitarfélaginu þann 30. júlí 2009, hafi gengist undir hæfnispróf 17. ágúst 2009 og staðist prófið með prýði. Hann hafi lokið skyndihjálparnámskeiði 13. október 2009 og farið á upprifjunarnámskeið 13. mars 2010. Sveitarfélagið Árborg vekur athygli á því að skyndihjálp er hluti af iðnnámi, sbr. prófskírteini þess sem ráðinn var.
  6. Sveitarfélagið Árborg bendir á að sá sem ráðinn var hafi verið eini umsækjandinn með iðnmenntun, nánar tiltekið á sviði pípulagna. Sú sérhæfða iðnmenntun og stjórnunarreynsla hafi verið þau atriði sem sérstaklega hafi verið horft til þegar hæfni umsækjendanna tveggja, þ.e. kæranda og þess sem ráðinn var, hafi verið metin. Ljóst hafi þótt að menntun þess sem ráðinn var myndi nýtast vel í starfi vaktformanns enda mikilvægt að fá til starfa mann sem byggi yfir þekkingu og reynslu á sviði vélbúnaðar og pípulagna. Vaktformaður Sundlaugar Stokkseyrar sé daglegur stjórnandi, bæði starfsmanna og tækjabúnaðar, sem og ábyrgðaraðili gagnvart forstöðumanni sundlauga Árborgar sem sinni bæði Sundlaug Stokkseyrar og Sundhöll Selfoss. Starf vaktformanns hafi orðið til í kjölfar skipulagsbreytinga í sundlaugum Árborgar vorið 2009. Fyrir þá breytingu og á þeim tíma sem kærandi hafi starfað sem sundlaugarvörður við Sundlaug Stokkseyrar hafi forstöðumaður stýrt lauginni og borið fyrst og fremst ábyrgð á og séð um eftirlit með húsnæði og tækjabúnaði laugarinnar. Störf kæranda við Sundlaug Stokkseyrar hafi fyrst og fremst verið afgreiðsla, eftirlit með gestum og baðvarsla. Fram hafi komið í umsögn fyrrverandi forstöðumanns sundlaugarinnar að kærandi gæti leyst einföld verk í tækjarými en ekki þau flóknari. Sá sem ráðinn var hafi ekki haft starfsreynslu úr sundlaugum og/eða íþróttamannvirkjum en fengið kynningu á sundlaugum í Iðnskóla Hafnarfjarðar og verið kennt á virkni tækjabúnaðar sundlauga. Sá sem ráðinn var hafi fengið góða umsögn pípulagningameistara.
  7. Þó svo ekki hafi verið gerð krafa um iðnmenntun í auglýsingu um starfið þyki vera fyrir því málefnaleg rök að viðurkenna rétt vinnuveitanda til að velja starfsmann sem hafi haft menntun sem nýttist í starfi, umfram aðra umsækjendur. Kærandi og sá sem ráðinn var hafi verið einu umsækjendurnir sem hafi komið til greina í starfið að loknum ráðningarviðtölum. Kærandi vegna starfsreynslu sinnar sem laugarvörður í Sundlaug Stokkseyrar og sá sem ráðinn var vegna menntunar á sviði vélstjórnar og pípulagna, reynslu af vinnu við pípulagnir og stjórnunarreynslu. Sveitarfélagið Árborg bendir á að um rekstur sundlauga gildi reglugerð nr. 457/1998, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Í reglugerðinni komi skýrt fram mikilvægi tækjabúnaða sundlauga. Vísast í því sambandi einkum til 1. mgr. 8. gr. og V. kafla reglugerðarinnar.
  8. Helstu verkefni vaktformanns séu dagleg stjórnun vaktar/staðarins, umsjón með mönnun á vakt í samráði við forstöðumann og móttaka nýrra starfsmanna og þjálfun þeirra. Eins og rakið hafi verið hér að framan hafi menntun og stjórnunarreynsla þess sem ráðinn var vegið þungt þegar lagt hafi verið heildstætt mat á hæfni umsækjenda og þau verkefni og ábyrgð sem fylgi starfinu. Sá sem ráðinn var hafi haft reynslu af stjórnun, annars vegar hjá Nóatúni á árunum 2000–2004 þar sem hann hafi stjórnað sinni vakt og hins vegar í Byko 2004–2005 þar sem hann hafi komið að stjórn pípulagningadeildar. Þessi reynsla og persónulegir eiginleikar á borð við sjálfstæði í vinnubrögðum þess sem ráðinn var hafi einnig vegið þungt þegar heildstætt mat hafi verið lagt á umsækjendur.
  9. Hvað varði umsjón með birgðastöðu í samráði við forstöðumann og eftirlit með húsnæði, tækjum, áfyllingu, frágangi og þrifum eftir vakt vísar Sveitarfélagið Árborg til umfjöllunar hér að framan um menntun þess sem ráðinn var. Sú staðreynd að sá sem ráðinn var hafi haft iðnmenntun á sviði vélstjórnar og pípulagna skipti sköpum þegar lagt hafi verið mat á kosti umsækjenda enda forsenda að flókinn tækjabúnaður sundlauga sé í góðu lagi og virki eins og lög og reglugerðir kveði á um.
  10. Með vísan til þess sem rakið sé hér að framan um menntun, starfsreynslu, þ.m.t. stjórnunarreynslu, og aðra sérstaka kosti sem telja verði mikilvæga í starfi vaktformanns Sundlaugar Stokkseyrar, svo sem sjálfstæði í vinnubrögðum og áreiðanleika, sé þeirri fullyrðingu kæranda að hæfasti umsækjandinn um starf vaktformanns í Sundlaug Stokkseyrar hafi ekki verið valinn alfarið vísað á bug. Miklu hafi varðað fyrir rekstur sundlaugarinnar að vel tækist til við val á vaktformanni. Mjög mikilvægt sé að véla- og tækjabúnaður sem stýri klór- og sýrustigi, hita og hreinleika vatns í sundlaugum sé í lagi og eftirlit rekstraraðila með búnaði sé virkt, sbr. kröfur reglugerðar nr. 457/1998. Því sé afar mikilvægt að hafa á að skipa starfsmanni sem hafi faglegar forsendur til fylgjast með tækjabúnaði, bregðast við ef bilun verði, hvort heldur úrlausnarefnið sé einfalt eða flókið.
  11. Sveitarfélagið Árborg telur sig í einu og öllu hafa farið að lögum um jafnan rétt kvenna og karla. Því sé þeirri fullyrðingu kæranda, að ómálefnaleg sjónarmið eins og kynferði umsækjanda hafi ráðið þegar ákvörðun var tekin um ráðningu í starf vaktformanns, alfarið vísað á bug.

NIÐURSTAÐA

  1. Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. laganna hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  2. Í kæru sinni til nefndarinnar fer kærandi, sem er kona, þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, annars vegar vegna orðalags auglýsingar um starf vaktformanns Sundlaugar Stokkseyrar, og hins vegar þegar karlmaður var ráðinn í starfið, en kærandi telur sig hafa verið hæfari en sá sem ráðinn var.
  3. Sveitarfélagið Árborg auglýsti starf vaktformanns við Sundlaug Stokkseyrar laust til umsóknar með auglýsingu sem birtist 11. júní 2009 í staðarblaðinu Dagskránni sem og á heimasíðu sveitarfélagsins. Var tekið fram í auglýsingunni að óskað væri eftir karlmanni í starfið. Sú auglýsing var dregin til baka og birtist ný auglýsing þann 19. júní s.á. Telst ráðningarferlið eftir það hafa tekið mið af hinni endurbirtu auglýsingu. Þar sem umrædd auglýsing, sem kærunefndin telur að hafi ekki samrýmst 3. mgr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, var dregin til baka kemur birting hennar ekki til frekari umfjöllunar í máli þessu.
  4. Í auglýsingunni, dags. 19. júní 2009, kom fram að sveitarfélagið væri að leita að reglusömum og áreiðanlegum einstaklingum sem hefðu meðal annars til að bera frumkvæði, góða samskiptahæfni og sjálfstæði í vinnubrögðum. Þá voru tilgreind í auglýsingunni helstu verkefni vaktformanns; dagleg stjórnun vaktar/staðarins, umsjón með mönnun á vakt í samráði við forstöðumann, móttaka nýrra starfsmanna og þjálfun þeirra, umsjón með birgðastöðu í samráði við forstöðumann og eftirlit með húsnæði, tækjum, áfyllingu, frágangi og þrifum eftir vakt.
  5. Þá kom fram í auglýsingunni að menntunar- og/eða hæfniskröfur væru hæfnispróf laugarvarða og námskeið í skyndihjálp, þekking á tækjum sundlauga væri kostur, starfsreynsla í sundlaugum og/eða öðrum íþróttamannvirkjum, heilbrigðisvottorð og hreint sakavottorð.
  6. Sá sem ráðinn var hafði lokið öðru stigi í vélstjórn og var með iðnmenntun á sviði pípulagna, auk þess sem hann hafði starfsreynslu á umræddum sviðum. Námskeið í skyndihjálp var hluti af iðnnámi þess sem ráðinn var. Hafði sá sem ráðinn var þannig reynslu af tækjum og viðhaldi véla og pípulagna úr námi sínu og störfum. Þá hafði viðkomandi einnig reynslu af stjórnunar- og þjónustustörfum í verslunum, auk þess sem hann hafði komið að þjálfun ungmenna í íþróttum.
  7. Kærandi er búfræðingur og hafði starfað sem bóndi um árabil. Kærandi var eini umsækjandinn sem lokið hafði hæfnisprófi laugarvarða. Þá hafði kærandi lokið námskeiði í skyndihjálp, auk þess sem hún hafði starfað sem laugarvörður við sundlaugina frá febrúar 2008.
  8. Af hálfu kæranda er á því byggt að hún uppfylli öll þau hæfnisskilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um starfið og standi þannig framar þeim karlmanni sem ráðinn var, en hann hafi hvorki búið yfir áskilinni menntun né haft reynslu sem tengdist sundlaugum eða íþróttamannvirkjum. Í auglýsingu hafi verið tilgreindar sérstaklega ákveðnar hæfniskröfur og Sveitarfélagið Árborg hafi fallist á það að kærandi ein hafi uppfyllt öll þau skilyrði. Of mikið hafi verið gert úr þekkingu þess sem ráðinn var á tækjum sundlauga og reynslu hans af stjórnun, sem og því að menntun hans sem pípulagningamaður myndi nýtast vel í starfi vaktformanns. Kærandi telur þannig ekkert hafa komið fram sem leiði til þess að Sveitarfélagið Árborg hafi getað talið karlmanninn hæfari til starfans en kæranda.
  9. Í rökstuðningi Sveitarfélagsins Árborgar kemur fram að almennt hafi það verið svo við ráðningu starfsmanna við sundlaugar sveitarfélagsins að umsækjendur hafi ekki verið útilokaðir frá ráðningu vegna þess eins að þeir hafi ekki lokið hæfnisprófi laugarvarða eða námskeiði í skyndihjálp þegar þeir sækja um. Væri það svo reyndist örðugt að manna störf við gæslu í sundlaugum þar sem talsverð starfsmannavelta sé. Þetta hafi meðal annars átt við er kærandi var ráðin sem laugarvörður. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi ekki gert athugasemdir við þetta verklag. Sveitarfélagið sjái hins vegar til þess að allir starfsmenn sundstaða taki árlega hæfnispróf. Vaktformaður Sundlaugar Stokkseyrar sé daglegur stjórnandi starfsmanna og tækjabúnaðar. Við mat og samanburð á hæfni kæranda og þess sem ráðinn var hafi það verið mat sveitarfélagsins að stjórnunarreynsla og sérstaklega hin sérhæfða iðnmenntun myndi nýtast vel í starfi vaktformanns. Sveitarfélagið hafi því valið hæfasta umsækjandann í starfið.
  10. Í auglýsingunni var tekið fram hvaða hæfnis- og menntunarkröfur voru gerðar til starfans, sbr. hér að framan, og þá voru helstu verkefni vaktformanns einnig tiltekin, þ. á m. að sinna eftirliti með húsnæði, tækjum o.fl. Laugargæsla var þar ekki tiltekin sérstaklega. Með hliðsjón af verkefnum þeim sem talin eru upp í auglýsingunni verður að telja að ekki hafi verið nauðsynlegt að umsækjandi um stöðuna hefði lokið hæfnisprófi laugarvarða enda er aðeins þeim sem sinna laugargæslu skylt að hafa lokið slíku prófi, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 457/1998. Samkvæmt IV. viðauka þeirrar reglugerðar ber þeim sem sinna laugargæslu árlega að gangast undir tiltekið hæfnispróf. Upplýst er að öllum starfsmönnum sundlauga sveitarfélagsins er gert að gangast undir slík próf árlega, þar með talið í skyndihjálp. Af framangreindum ástæðum verður ekki talið ómálefnalegt að vikið hafi verið frá skilyrði í auglýsingu um hæfnispróf laugarvarða.
  11. Almennt má játa ráðningaraðila nokkurt svigrúm við mat á því hvaða kostir umsækjenda eru taldir mestu máli skipta við endanlega ákvörðun um ráðningu í starf, enda sé við það mat gætt málefnalegra sjónarmiða. Kærunefndin telur af þeim ástæðum ekki tilefni til að draga í efa að málefnalegt hafi verið af hálfu sveitarfélagsins að líta til sérstakra kosta þess sem ráðinn var og að þeir kostir hafi leitt til þess að meta hafi mátt viðkomandi hæfari en kæranda. Í því sambandi er einkum litið til mats sveitarfélagsins á hinni sérhæfðu vélstjórnar- og iðnmenntun sem viðkomandi hafði og þess að sú menntun myndi nýtast vel í umræddu starfi vaktformanns.
  12. Með vísan til framangreinds telst Sveitarfélagið Árborg ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við framangreinda ráðningu í stöðu vaktformanns við Sundlaug Stokkseyrar.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Sveitarfélagið Árborg telst ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf vaktformanns við Sundlaug Stokkseyrar.

    

Andri Árnason

Ingibjörg Rafnar

Þórey S. Þórðardóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta