Lára Björnsdóttir hlaut hvatningarverðlaunin Rósina 2011
Lára Björnsdóttir hlaut Rósina 2011, hvatningarverðlaun Landssamtakanna Þroskahjálpar og fjölskyldu Ástu B. Þorsteinsdóttur. Verðlaunin eru veitt árlega fyrir framúrskarandi störf sem stuðla að þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu til jafns við aðra.
Lára Björnsdóttir lauk prófi í félagsráðgjöf í Kaupmannahöfn árið 1968 og mastersgráðu í félagsráðgjöf í Englandi árið 1986. Í umsögn valnefndar um veitingu Rósarinnar 2011 er rakinn starfsferill Láru sem hefur unnið að velferðarmálum í rúm fjörutíu ár. Hún starfaði um skeið á Barna- og unglingageðdeild Kópavogshælis, hjá Ási styrktarfélagi, var framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík og félagsmálastjóri Reykjavíkur í tólf ár. Frá árinu 2007 hefur Lára starfað í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, nú velferðarráðuneyti. Lára var framkvæmdastjóri Þroskahjálpar um fjögurra ára skeið og var sæmd gullmerki samtakanna árið 1995.
Í umsögn valnefndar um veitingu Rósarinnar 2011 segir meðal annars: „Þegar rýnt er í starfsferil Láru verður fljótt ljóst að áhugi hennar á velferð fatlaðs fólks ásamt virðing fyrir einstaklingnum og ákvörðunarrétti hans hefur fylgt henni alla tíð. Samvinna við foreldra hefur verið henni hugleikinn og hún var meðal annars stofnfélagi og í stjórn Umsjónarfélags einhverfra. Eldmóður hennar var snemma ljós og einlægur vilji til að láta gott af sér leiða. Hún er því verðugur móttakandi Rósarinnar í minningu annars eldhuga með fjölþættan feril, Ástu B Þorsteinsdóttur.“
Ásta Bryndís Þorsteinsdóttir var hjúkrunarfræðingur að mennt og var um margra ára skeið einn ötulasti talsmaður fatlaðs fólks á Íslandi. Hún sat í stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar í 10 ár þar af 8 ár sem formaður. Hún sat í mörgum opinberum nefndum sem fjölluðu um málefni fataðs fólks og heilbrigðismál, var fulltrúi Íslands í norrænni samvinnu um málefni fatlaðra og sat á Alþingi Íslendinga frá árinu 1995 til dánardags 1998.
Verðlaunagripinn Rósina hannaði Jón Snorri Sigurðsson gullsmiður.
Fréttatilkynning um veitingu Rósarinnar 2011 á heimasíðu Þroskahjálpar