Hoppa yfir valmynd
10. september 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stutt við öflugt atvinnulíf og forgangsraðað í þágu viðkvæmra hópa

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025 sem kynnt var í dag er áhersla lögð á forgangsröðun og bætta afkomu ríkissjóðs með markvissu aðhaldi í opinberum umsvifum. Þannig stuðlar ríkisfjármálastefnan að áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og skapar betri skilyrði fyrir lækkun vaxta. Staðinn verður vörður um heilbrigðis- og velferðarmál í samræmi við þá ætlan ríkisstjórnarinnar að hlúa að viðkvæmum hópum á sama tíma og stutt er við öflugt atvinnulíf. Hvort tveggja er mikilvægt enda leggur aukin verðmætasköpun atvinnulífsins grunninn að góðu velferðarkerfi.

Gert er ráð fyrir að á árinu 2025 batni afkoman talsvert milli ára frá uppfærðri áætlun fyrir yfirstandandi ár, eða um 0,4% af vergri landsframleiðslu (VLF) og að tæplega 41 ma.kr halli verði á heildarafkomu ríkissjóðs, eða sem samsvarar 0,8% af VLF, samanborið við ríflega 57 ma.kr halla á yfirstandandi ári. Það er mikill viðsnúningur frá tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar þegar halli ríkissjóðs náði hámarki við rúmlega 8% af VLF. Þá er áætlað að frumjöfnuður ríkissjóðs á næsta ári, þ.e. afkoma án vaxtagjalda og tekna, verði jákvæður um rúmlega 36 ma.kr., eða 0,7% af VLF, sem er rúmlega 4 ma.kr. bati milli ára.

 

Áætlað er að skuldir ríkissjóðs, á mælikvarða skuldareglu laga um opinber fjármál, verði í lok næsta árs rúmlega 31% af VLF og lækkar hlutfallið um 0,7% af VLF milli ára.

 

Grunnkerfi varin með markvissum ráðstöfunum og forgangsröðun brýnna verkefna

Í fjárlagafrumvarpinu er áhersla lögð á hóflegan raunvöxt útgjalda og sem fyrr segir er forgangsraðað og hagrætt í þágu viðkvæmra hópa. Til viðbótar almennri aðhaldskröfu og öðrum útgjaldalækkunum sem tilgreindar eru í fjármálaáætlun er nú búið að útfæra niður á einstaka gjaldaliði 9 ma.kr. afkomubætandi ráðstafanir sem gert var ráð fyrir í áætluninni. Samanlagt skila þessar breytingar um 29 ma.kr. lækkun útgjalda á næsta ári samanborið við fyrri áætlanir. Verður þetta að hluta nýtt til forgangsröðunar nýrra og brýnna verkefna.

Velferðarkerfi verða styrkt:

  • Nýtt örorkukerfi sem tekur gildi í september á næsta ári mun bæta kjör örorkulífeyris¬þega verulega.
  • Kjör ellilífeyrisþega batna en almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar um 46% í ársbyrjun 2025. Það þýðir 138 þús.kr. kjara¬bót á ári.
  • Aukinn þungi verður settur á inngildingu flóttafólks og innflytjenda í íslenskt samfélag og fjárframlög til styttingar málsmeðferðartíma við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd verða aukin.

Samgöngur bættar:

  • Nýframkvæmdir og viðhald á vegakerfinu verða áfram í forgrunni
  • Framlög til uppbyggingar samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu verða aukin um 6,4 ma.kr.

Heilbrigðismál áfram í forgangi:

  • Alls aukast framlög til málaflokksins milli ára um 10,4 ma.kr. á föstu verðlagi eða sem nemur um 3%.
  • Fjárveitingar til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga verða auknar vegna fjölgunar og öldrunar þjóðarinnar
  • Aukið fjármagn verður sett í rekstur nýrra hjúkrunarrýma.
  • Framlög vegna lyfja og hjálpartækja aukast um 1,3 ma.kr.
  • Áframhaldandi kraftur verður í byggingu nýs Landsspítala en á árinu 2025 verður 18,4 ma.kr. varið til verkefnisins.

Fjárfestingar og fjármagnstilfærslur:

  • Hafist verður handa við byggingu nýs fangelsis í stað Litla-Hrauns.
  • Fyrstu skrefin tekin í átt að byggingu Þjóðarhallar.

Rannsóknir og þróun

  • Áframhaldandi stuðningur við fyrirtæki vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar.

Stuðningur við ungt fólk sem verðbólga og háir vextir bitna einkum á

Brýnt er að horfast í augu við að helsta meðalið við verðbólgu, þ.e. háir stýrivextir Seðlabankans, hefur mest áhrif á skuldsetta heimili. Vaxtabyrði ungs fólks hefur aukist hraðar en annarra aldurshópa. Aðgerðir stjórnvalda til að styðja við markmið langtímakjarasamninga eru í forgangi og styðja sérstaklega við barnafólk, leigjendur og skuldsetta íbúðaeigendur á tímabili samningsins. Má nefna að sérstakur vaxta¬stuðningur til heimila með íbúðalán var greiddur út á liðnu ári, grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og eignaskerðingarmörk í húsnæðisbótakerfinu voru hækkuð umtalsvert og stuðningur við barna¬fjölskyldur stórefldur. Umfang aðgerðanna nemur um 14 ma.kr. á árinu 2025. Í tengslum við gerð langtímakjarasamninga ákvað ríkisstjórnin að styðja við byggingu
1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum og er fjármögnun þeirra tryggð.

 

Stærsta skattkerfisbreytingin gjaldtaka af ökutækjum og eldsneyti

Samhliða hóflegum raunvexti útgjalda taka breytingar á sköttum á árinu 2025 m.a. mið af viðbrögðum stjórnvalda við efnahagslegri þróun og áhrifum tæknibreytinga á tekjustofna ríkisins.
Stærsta skattkerfisbreyting ársins felst í kerfisbreytingu á gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Með hröðum orkuskiptum í samgöngum og sífellt sparneytnari bílvélum hafa tekjur af ökutækjum og eldsneyti fallið töluvert. Til að bregðast við þeirri þróun hefur verið ákveðið að taka upp kílómetragjald vegna notkunar bifreiða en samhliða verða eldri gjöld felld niður, þ.e. vörugjöld af bensíni og olíugjald af dísilolíu. Jafnframt verður kolefnisgjald hækkað til að viðhalda hvötum til orkuskipta.
Fyrsta skrefið í þessari kerfisbreytingu var tekið í byrjun árs 2024 með upptöku kílómetragjalds á notkun rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbifreiða. Annað skrefið verður stigið í byrjun árs 2025 og felst í því að kílómetragjald verður einnig lagt á bifreiðar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Með þessum breytingum er ekki aðeins skotið styrkari stoðum undir tekjuöflun ríkisins heldur einnig komið á skilvirkara og sanngjarnara gjaldakerfi þar sem þeir borga sem nota vegakerfið en þó að teknu tilliti til áhrifa af þyngd ökutækja á vegslit.

Vegna fyrirhugaðrar kerfisbreytingar á gjaldtöku af notkun ökutækja munu bensín- og olíugjöld falla niður. Önnur krónutölugjöld hækka um 2,5%, í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga og í takt við verðbólgumarkmið þrátt fyrir að verðbólga sé áætluð 5,2% á yfirstandandi ári.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta