Hoppa yfir valmynd
4. október 2006 Forsætisráðuneytið

A-231/2006 Úrskurður frá 4. júlí 2006

ÚRSKURÐUR

Hinn 4. júlí 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-231/2006.

Kæruefni

Hinn 30. maí sl. kærði [...] synjun Þingvallanefndar um aðgang að afritum gagna um sölu sumarhúsa í þjóðgarðinum á Þingvöllum.
Með bréfi, dags. 2. júní sl., var kæran kynnt Þingvallanefnd og henni gefinn kostur á að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum er kæran laut að. Í svarbréfi Þingvallanefndar, 16. júní sl., er þess krafist að kærunni verði vísað frá nefndinni en annars verði kröfu kæranda hafnað.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir Þingvallanefndar með bréfi, dags. 21. júní sl. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með tölvupósti hans, dags. 28. júní s.l.


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með tölvupósti 18. maí sl. óskaði kærandi eftir afritum gagna um sölu sumarhúsa í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Sérstaklega var beðið um upplýsingar um viðskipti vegna fjögurra tilgreindra eigna við [M-stíg] í landi Þjóðgarðsins:
„...“
Í svari þjóðgarðsvarðar sama dag er vísað til þess að samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga sé nefndinni óheimilt að veita umbeðnar upplýsingar. Með tölvupósti 22. maí sl. óskaði kærandi eftir því að Þingvallanefnd léti honum í té öll skjöl; kaupsamninga og bréfaskipti, varðandi fasteignaviðskipti sem verið hefðu á borði nefndarinnar vegna áðurnefndra eigna. Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvupósti 29. maí sl. Í svarskeyti Þingvallanefndar, dags. 30. maí sl., er vísað til svars þjóðgarðsvarðar frá 18. maí sl. og að öðru leyti til þess að hjá embætti sýslumannsins á Selfossi eigi að vera hægt að fá upplýsingar og afrit þinglýstra skjala varðandi umræddar fasteignir.
Í umsögn Þingvallanefndar um kæruna er vísað til þess að úrskurðarnefndin hafi skýrt 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga þannig að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu máli, jafnvel þótt skjölin séu nægilega tilgreind. Í þessu sambandi séu hver fasteignaviðskipti aðskilin mál og lúti beiðni kæranda því að gögnum í fjórum aðskildum málum. Telur nefndin að beiðni kæranda sé ekki svo afmörkuð að leysa beri úr henni á grundvelli upplýsingalaga. Beri því að vísa kærunni frá, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Verði kærunni á hinn bóginn ekki vísað frá beri að synja um aðgang að gögnunum skv. 5. gr. upplýsingalaga. Hafi úrskurðarnefndin litið svo á að almenningur eigi ríkari rétt til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinberra fjármuna og gæða heldur en upplýsingum um viðskipti milli einkaaðila, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli A-222/2005. Þær upplýsingar sem kærandi krefjist aðgangs að megi finna í samningum einkaaðila sem séu í vörslu Þingvallanefndar. Séu þau gögn einkaréttarlegir gerningar og varpi ekki ljósi á störf nefndarinnar. Hafi þau eftir atvikum að geyma upplýsingar um einka- og fjárhagshagsmuni einkaaðila, svo sem um kaupverð fasteigna. Telur Þingvallanefnd að umbeðin gögn varði slíka einka- og fjárhagshagsmuni einkaaðila sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga.
Með tölvupósti 28. júní sl. hafnaði kærandi þeim röksemdum sem fram komu í umsögn Þingvallanefndar og krafðist þess að úrskurðarnefndin úrskurðaði um rétt hans til aðgangs að umræddum gögnum í samræmi við ákvæði upplýsingalaga.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum fer þingvallanefnd með stjórn þjóðgarðsins. Er nefndinni m.a. heimilt, eftir því sem fjárveitingar á fjárlögum leyfa, að kaupa einstakar fasteignir, mannvirki og nytjaréttindi sem eru innan þjóðgarðsins og ekki eru í eigu íslenska ríkisins. Þá er gert ráð fyrir því í 8. gr. reglugerðar nr. 845/2005 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð að þingvallanefnd kveði á um forkaupsrétt ríkisins í lóðarleigusamningum. Af framangreindum lagaheimildum leiðir ennfremur að Þingvallanefnd er stjórnsýslunefnd er tekur m.a. ákvörðun hvort og þá með hvaða hætti hún nýtir forkaupsrétt vegna sölu eigna innan þjóðgarðsins.
Þingvallanefnd hefur látið úrskurðarnefndinni í té þau gögn sem lögð hafa verið fyrir nefndina, þar sem óskað er eftir því að hún falli frá forkaupsrétti vegna aðilaskipta að umræddum sumarhúsum. Þau gögn sem hér um ræðir eru erindi til nefndarinnar ásamt fylgigögnum, svo sem samþykkt kauptilboð eða kaupsamningar og svör nefndarinnar við þeim erindum.

2.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur kærandi óskað eftir öllum skjölum, kaupsamningum og bréfaskiptum vegna aðilaskipta að fjórum sumarhúsum við [M-stíg] í þjóðgarðinum á Þingvöllum þar sem Þingvallanefnd hefur ákveðið að nýta ekki forkaupsrétt ríkisins. Með vísun til þess að um er að ræða sams konar upplýsingar og með hliðsjón af málsatvikum að öðru leyti er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að beiðnin sé nægilega afmörkuð í skilningi 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Verður kærunni því ekki vísað frá á þessum grundvelli.

3.

Um takmarkanir á upplýsingarétti almennings samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er fjallað í 4.-6. gr. þeirra laga. Samkvæmt 5. gr. laganna er „Óheimilt ... að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á því hvaða fjárhagsmálefni einstaklinga séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þau fari leynt, að óheimilt sé að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild.
Með hliðsjón af síðastgreindu orðalagi hefur úrskurðarnefndin litið svo á, að samningar einstaklinga um kaup og sölu fasteigna og lausafjár, sem geymi upplýsingar um kaup- og söluverð, svo og upplýsingar um greiðsluskilmála, séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsingalaga. Sérstaklega ber að hafa í huga í þessu samhengi að ákvæðum greinarinnar er ætlað að koma í veg fyrir að veittar séu upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni nafngreindra einstaklinga eða lögaðila.
Í því máli, sem hér er til úrlausnar, fer kærandi fram á að fá afrit gagna í málum þar sem Þingvallanefnd hefur fallið frá forkaupsrétti vegna aðilaskipta að fjórum tilgreindum sumarhúsum. Líta verður svo á að kaupsamningar og kauptilboð einkaaðila, sem lögð hafa verið fyrir Þingvallanefnd í þeim málum, séu undanþegin upplýsingarétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga. Annað gildir um önnur gögn þessara mála svo sem bréfaskipti Þingvallanefndar og þeirra aðila sem hlut eiga þar að máli, enda geymi þau ekki upplýsingar sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari skv. nefndu lagaákvæði. Geymi gögnin aftur á móti að hluta upplýsingar sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, fer um aðgang að þeim eftir 7. gr. upplýsingalaga. Þau gögn sem hér er vísað til og varða bréfaskipti þingvallanefndar vegna umræddra sumarhúsa geyma að mati úrskurðarnefndarinnar ekki upplýsingar sem falla undir 5. gr. upplýsingalaga.

4.

Gögn sem þinglýst hefur verið, þ. á m. kaupsamningar, fá aðra réttarstöðu við slíka aðgerð þar sem þau hafa þá verið gerð opinber, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. A-12/1997 og A-34/1997. Í 9. gr. reglugerðar nr. 284/1996 um þinglýsingar segir: "Almenningur skal hafa aðgang að þinglýsingabókum og skjalahylkjum þeim eða möppum, sem geyma eintök þinglýstra skjala í þeim tilgangi að kynna sér efni þeirra, eftir nánari ákvörðun viðkomandi þinglýsingarstjóra."
Kauptilboðum, kaupsamningum og þeim afsölum, sem lögð hafa verið fyrir Þingvallanefnd, hefur ekki verið þinglýst. Á meðan svo er standa ákvæði 5. gr. upplýsingalaga í vegi fyrir aðgangi almennings að þeim hjá Þingvallanefnd.

Úrskurðarorð:

Staðfest er synjun Þingvallanefndar á beiðni kæranda um afhendingu kauptilboða, kaupsamninga og afsala vegna aðilaskipta að fjórum tilgreindum sumarhúsum við [M-stíg] í landi þjóðgarðsins.
Þingvallanefnd er skylt að veita kæranda aðgang að þeim bréfum þar sem óskað hefur verið eftir því að nefndin falli frá forkaupsrétti vegna nefndra sumarhúsa og svörum nefndarinnar við slíkum erindum.

 

Páll Hreinsson
formaður

Friðgeir Björnsson                                                   Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta