Hoppa yfir valmynd
18. október 2006 Forsætisráðuneytið

A-233/2006B Úrskurður frá 18. október 2006

ÚRSKURÐUR

Hinn 18. október 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-233/2006B.

Kæruefni

Með bréfi, dags. 2. október sl., kröfðust Ríkiskaup þess með vísan til 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/2006, að réttaráhrifum úrskurðar í máli A-233/2006, sem kveðinn var upp 27. september sl., yrði frestað. Sömu kröfu gerðu Reykjavíkurborg og lögmaður [C] ehf. fyrir hönd þess með bréfum, dags. sama dag. Málið snérist um aðgang [A] hf. og [B] hf. að samningi Austurhafnar-TR ehf. og [C], dags. 9. mars 2006 að undanskildum tilteknum upplýsingum sem tilgreindar eru í úrskurðinum.

Í bréfum Ríkiskaupa og Reykjavíkurborgar kemur fram að [C] ehf. hafi lýst því yfir við samningsaðila sína að félagið hafi skuldbundið sig gagnvart þeim að halda leyndum mikilvægum fjárhags- og viðskiptahagsmunum annarra, svo sem hönnuða og listamanna, sem sé að finna í samningnum. Sömu upplýsingar sem leynt eigi að fara um [C] ehf. sé einnig að finna í samningnum.

Í bréfi lögmanns [C] ehf. kemur m.a. fram að aðilar samningsins hafi heitið trúnaði um efni hans enda séu í honum upplýsingar um atvinnu- og viðskiptaleyndarmál félagsins. Að auki séu í samningnum upplýsingar sem varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni annarra, svo sem hönnuða og listamanna. Hafi félagið skuldbundið sig gagnvart samstarfsaðilum til þess að halda slíkum upplýsingum leyndum. Telur félagið nauðsynlegt vegna ríkra hagsmuna þess að leitað verði úrlausnar dómstóla um aðgang að samningnum. Um aðild félagsins samkvæmt 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga er tekið fram að í einstaka málum geti einkaaðilar haft mikla hagsmuni af úrskurðum nefndarinnar og úrlausnum dómstóla í sama máli. Telur félagið sig hafa verulega og beina hagsmuni af því að hnekkja úrskurði nefndarinnar. Uppfylli félagið aðildarskilyrði stjórnsýsluréttar og einkamálaréttarfars þó svo að félagið hafi ekki verið aðili að málinu. Með lögjöfnun frá 18. gr. upplýsingalaga eigi félagið ennfremur rétt á að gera kröfu um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fresti réttaráhrifum úrskurðar í málinu og einnig rétt á að standa að málshöfðun í framhaldinu. Um rétt sinn til aðildar að málinu vísar [C] ehf. einnig til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er í bréfi lögmanns [C] ehf. áréttaðir frekar hagsmunir félagsins af því að fá réttaráhrifum úrskurðarins frestað og að hagsmunir þess séu mun meiri af frestun þeirra en hagsmunir kæranda í framangreindu máli.

Með bréfi, dags. 3. október sl., óskaði úrskurðarnefndin eftir því að [A] hf. og [B] hf. sendu nefndinni þær athugasemdir sem félögin teldu ástæðu til að gera við framkomnar kröfur um frestun réttaráhrifa úrskurðarins. Í svarbréfi lögmanns félaganna er á því byggt að engin efni séu til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðarins og að kröfur aðila séu ekki studdar haldbærum rökum. Ekkert liggi fyrir um það að sú upplýsingagjöf, sem úrskurðurinn mæli fyrir um, valdi [C] ehf. tjóni auk þess sem alltaf hafi legið fyrir að samningsaðili félagsins væri opinber aðili og að upplýsingalög nr. 50/1996 eigi þar við. Hafi félagið mátt gera ráð fyrir því að samningar yrðu gerðir opinberir að einhverju eða öllu leyti. Frestun myndi skaða hagsmuni kærenda sem hefðu þá ekki tök á að skoða hvort á þeim hafi verið brotið í samningskaupaferli Austurhafnar-TR ehf.


Niðurstaða

Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti að kröfu stjórnvalds ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess og skal krafa þess efnis gerð ekki síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. Í athugasemdum við 18. gr. frumvarps þess, er varð að upplýsingalögum nr. 50/1996, segir: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á. [...] Skal krafa stjórnvalds gerð ekki síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar, en um útreikning þessa frests fer eftir 8. gr. stjórnsýslulaga.“

Úrskurðurinn var birtur aðilum með bréfi fimmtudaginn 28. september sl. Upplýst er að hann barst aðilum 2. október sl. Með hliðsjón af 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, ber að telja kröfur aðila komnar fram innan þess frests, sem settur er í 18. gr. upplýsingalaga.

Ákvæði upplýsingalaga taka til aðgangs almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 3. gr. laganna. Í því ljósi og samkvæmt ótvíræðu orðalagi 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga veitir ákvæðið einungis stjórnvaldi rétt til að krefjast frestunar réttaráhrifa. Er því óhjákvæmilegt að vísa kröfum [C] ehf. frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðum A-78/1999C og A-117/2001B lagt til grundvallar að með 18. gr. upplýsingalaga hafi fyrst og fremst verið höfð í huga tilvik, þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum. Í því ljósi hefur nefndin við mat sitt á því hvort verða eigi við framkomnum kröfum um frestun réttaráhrifa úrskurðarins einnig litið til þeirra sjónarmiða sem fram koma í kröfu [C] ehf. 2. október sl.

Aðilar að samningnum frá 9. mars 2006 kusu að benda ekki á einstök ákvæði samningsins sem töldu að leynt ættu að fara en töldu að leynd ætti að gilda um samninginn í heild sinni.

Í úrskurði í málinu A-233/2006 eru tilgreind þau efnisatriði samningsins sem að mati úrskurðarnefndarinnar vörðuðu mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni [C] ehf. og annarra lögaðila og einstaklinga sem óheimilt er að veita aðgang að, sbr. 5. gr upplýsingalaga. Sá samningur sem fjallað var um í máli A-233/2006 varðar hagsmuni þriðja aðila með ýmsu móti. Þótt nefndin hafi í úrskurði sínum fellt út fjölmörg atriði í samningnum, þykir ekki hægt að útiloka að fullu að leitt verði í ljós undir rekstri dómsmáls að þar séu enn ákvæði er kunni að njóta verndar 5. gr. upplýsingalaga. Telur nefndin því rétt eins og hér hagar til að gefa Reykjavíkurborg og Ríkiskaupum möguleika á sönnunarfærslu af því tagi og fellst því á frestun réttaráhrifa úrskurðar A-233/2006, sem kveðinn var upp 27. september 2006.

Úrskurðarorð:

Fallist er á frestun réttaráhrifa úrskurðar A-233/2006 enda beri Reykjavíkurborg og Ríkiskaup málið undir dómstóla innan sjö daga frá birtingu þessa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð.

Kröfu [C] ehf. er vísað frá.

Friðgeir Björnsson
varaformaður

Skúli Magnússon                                                        Helga Guðrún Johnson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta