Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2007 Forsætisráðuneytið

A-239/2007 Úrskurður frá 16. janúar 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 16. janúar 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-239/2007.

Kæruefni

Með skriflegri kæru, dags. 8. desember sl., kærði [...] synjun ríkisskattstjóra, dags. 8. og 20. nóvember 2006, á að veita henni tilteknar upplýsingar og staðfesta tiltekin atriði um greiðendur fjármagnstekjuskatts tekjuárið 2004 (álagningarárið 2005).
Hinn 13. desember sl. lagði lögmaður kæranda fram kæru vegna synjunar embættis ríkisskattstjóra, dags. 12. desember sl., á að staðfesta tilteknar upplýsingar um greiðendur fjármagnstekjuskatts tekjuárið 2004 (álagningarárið 2005).
Ofangreindar kærur hafa verið sameinaðar.

 

Málsatvik

Samkvæmt framlögðum gögnum kæranda eru málavextir í stuttu máli þeir að lögmaður kæranda óskaði eftir því með bréfi 25. október 2005 að honum yrði, vegna dómsmáls sem hann ræki fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur f.h. kæranda, látnar í té upplýsingar um nánar tilgreind atriði til framlagningar í dómsmálinu og snertu fjölda einstaklinga sem náð höfðu 67 ára aldri á tekjuárinu 2004 og töldu fram fjármagnstekjuskatt en engar lífeyrisgreiðslur. Í svarbréfi embættis ríkisskattstjóra 8. nóvember sl. kemur fram að embættið hafi tekið saman og birt á vef embættisins tölfræðilegar upplýsingar, sem talið yrði að hefðu almennt upplýsingagildi fyrir almenning og að embættið teldi sér ekki skylt að útbúa þau gögn sem kærandi hafi óskað eftir, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Með bréfi, dags. 13. nóvember sl., óskaði lögmaður kæranda eftir því með bréfi, dags. 13. nóvember sl., að embætti Ríkiskattstjóra staðfesti skriflega nánar tilgreindar upplýsingar. Tekið var fram að staðfestingin yrði lög fram í ofangreindu dómsmáli. Í svarbréfi embættis ríkisskattstjóra, dags. 20. nóvember sl., er erindi kæranda hafnað með tilvísun til þess að því sé hvorki rétt né skylt að taka saman upplýsingar að ósk einstakra aðila.
Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 1. desember sl., er þess farið á leit að embætti ríkisskattstjóra staðfesti nánar tilgreindar upplýsingar um skattlagningu fjármagnstekna einstaklings tekjuárið 2004 (álagningarárið 2005) og yrði staðfestingin lögð fram í áðurnefndu dómsmáli. Í svarbréfi embættis ríkisskattstjóra 12. desember sl. segir að embættinu telji sér ekki skylt að útbúa eða taka sérstaklega saman gögn af þessu tilefni, sbr. bréf embættisins, dags. 8. og 20. nóvember sl.

 

Niðurstaða

Kæra þessi er tekin til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé upp um annað tveggja, skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits að öðrum gögnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skýrt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga svo að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggja, þegar um þau er beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki séu fyrirliggjandi, þegar eftir þeim sé leitað, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar í máli nr. A-181/2004. Fram kemur í þeim bréfaskiptum sem kærandi hefur átt við embætti ríkisskattstjóra að þær upplýsingar sem kærandi óski eftir liggi ekki fyrir í því formi sem hann hafi leitað eftir.

Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa kæru þessari frá nefndinni.

 


Úrskurðarorð:


Kæru [...] á hendur embætti ríkiskattstjóra er vísað frá.


Páll Hreinsson
formaður


                                            Símon Sigvaldason                                           Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta