Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2007 Forsætisráðuneytið

A-241/2007 Úrskurður frá 16. janúar 2007


ÚRSKURÐUR

Hinn 16. janúar 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-241/2007:

Kæruefni

Með tölvubréfi, dags. 21. nóvember 2006, kærði [...] afgreiðslu utanríkisráðuneytisins, dags. 11. desember sl., varðandi afrit af bréfi þess til [X] dags. 6. nóvember sl.
Kæran var kynnt utanríkisráðuneytinu með bréfi, dags. 21. nóvember sl., og því beint til þess að taka ákvörðun um afgreiðslu á beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið. Yrði kæranda synjað um aðgang að umbeðnum gögnum var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin afrit þeirra í té sem trúnaðarmál. Í því tilviki var ráðuneytinu ennfremur gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sömu tímamarka. Umsögn ráðuneytisins barst nefndinni með bréfi, dags. 11. desember sl., ásamt afriti umrædds bréfs og synjun ráðuneytisins á beiðni kæranda dagsettri sama dag.
Kæranda var veittur frestur til 22. desember til þess að gera athugasemdir við umsögn utanríkisráðuneytisins. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með tölvubréfi frá 8. nóvember sl., fór kærandi þess á leit að utanríkisráðuneytið léti henni í té afrit af bréfi ráðuneytisins til [X], dags. 6. nóvember sl., í tilefni af beiðni hans frá 26. október sl., um leiðbeiningar um eðli og umfang trúnaðarskyldu hans vegna skýrslutöku um meinta ólögmæta hlerun á síma hans, er hann starfaði í utanríkisráðuneytinu.
Í synjun utanríkisráðuneytisins og umsögn þess til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að ráðuneytið hafi veitt [...]. leiðbeiningar í bréfi til hans, dags. 6. nóvember sl., varðandi þagnarskyldu hans og hafi bréfið jafnframt verið sent sýslumanninum á Akranesi. Leiðbeiningarnar hafi falið í sér afmörkun á þagnarskyldu opinbers starfsmanns í tengslum við skýrslugjöf sem væri liður í rannsókn opinbers máls, en samkvæmt 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nái gildissvið laganna ekki til rannsóknar eða saksóknar í opinberu máli.

 

Niðurstaða

Af hálfu utanríkisráðuneytisins er á því byggt að bréf þess frá 6. nóvember sl. tengist rannsókn eða saksókn í opinberu máli, sbr. niðurlag 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Hvorki í upplýsingalögum né lögskýringargögnum kemur fram hvers konar gögn það eru sem varða rannsókn eða saksókn í opinberu máli í skilningi hins tilvitnaða lagaákvæðis. Í úrskurðum sínum hefur úrskurðarnefndin tekið fram að ljóst sé að til þeirra teljist skjöl og önnur gögn, sem séu eða verði að öllum líkindum til skoðunar við rannsókn lögreglu á ætluðum refsiverðum brotum. Bréfaskipti milli lögregluyfirvalda, og eftir atvikum, handhafa ákæruvalds, vegna rannsóknar opinbers máls flokkist jafnframt undir slík gögn, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli A-137/2001. Þá hefur nefndin áskilið sér rétt, sbr. úrskurði hennar í málum A-127/2001 og A-167/2003, til þess að meta það, í ljósi atvika hverju sinni, hvort aðgangur skuli veittur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga þótt þau kunni að tengjast rannsókn opinbers máls og þá skipti m.a. máli hvort ætla megi að gögnin verði tekin til skoðunar við rannsókn málsins.
Bréf utanríkisráðuneytisins frá 6. nóvember sl. er til fyrrverandi starfsmanns þess í tilefni af boðun hans til skýrslutöku hjá sýslumanninum á Akranesi vegna sakamálarannsóknar á meintum hlerunum á síma hans vorið 1995. Í bréfinu kemur fram að sýslumaðurinn á Akranesi hafi óskað eftir því að þagnarskyldunni yrði aflétt vegna skýrslutökunnar, sbr. 53. og 54. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála, og er svar ráðuneytisins við þeirri beiðni rakið í bréfinu. Bréf ráðuneytisins felur í sér nánari afmörkun á þagnarskyldu starfsmanns, en þagnarskyldan helst eftir að hann hefur látið af störfum, sbr. nú 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ennfremur 2. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er í bréfi ráðuneytisins sérstaklega tilgreindir þeir verndarhagsmunir sem þagnarskyldunni er ætlað að vernda. Þá kemur fram í bréfinu að sýslumanninum á Akranesi hafi verið sent afrit þess. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að leggja til grundvallar að umrætt bréfi varði sérstaklega skýringu á vitnaskyldu ríkisstarfsmanns, sbr. áðurnefnd ákvæði laga nr. 19/1991, og komi því til sérstakrar skoðunar við rannsókn eða saksókn í opinberu mál, sbr. niðurlag 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga og fellur því málið utan gildissviðs upplýsingalaga.
Samkvæmt framansögðu verður synjun utanríkisráðuneytisins um aðgang kæranda að bréfi þess, dags. 6. nóvember sl., ekki kærð til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Ber því að vísa kærunni frá nefndinni.


Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur utanríkisráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd.

 

Páll Hreinsson
formaður


Friðgeir Björnsson                                                   Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta