Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 232/2001

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir, og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi til Úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 27. september 2001 kærir B f.h. eiginkonu, A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um bensínstyrk.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir að með ódagsettri umsókn, móttekinni af Tryggingastofnun 30. ágúst 2001 var sótt um uppbót á lífeyri kæranda vegna reksturs bifreiðar, svokallaðan bensínstyrk. Í læknisvottorði C dags. 23. ágúst 2001 segir:

„ Vaxandi dementia undanfarin 5 ár, er á biðlista fyrir vistun á D. Ratar ekkert utanhúss, þekkir orðið fáa af ættingjum. Er ekið flesta daga í dagvistun af eiginmanni."

Tryggingastofnun synjaði umsókn með bréfi dags. 6. september 2001.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„ Ég leyfi mér fyrir hönd eiginkonu minnar að benda á að þótt hún sé ekki líkamlega fötluð er hún svo illa komin vegna alseimer sjúkdóms að hún getur ekkert farið án hjálpar og er hún vistuð á E í Reykjavík alla virka daga dags. A bíður eftir innlögn á sjúkradeild.

Læknisvottorð varðandi A eru hjá yður.

Með vísan til ofanritaðs þá leyfi ég mér góðfúslegast að ítreka fyrri óskir mínar þar sem hún er alls ófær um að fara ferðir sínar vegna sjúkdómsins sem hana hrjáir."

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 1. október 2001 eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerðin er dags. 12. október 2001 og er þar vísað til greinargerðar tryggingalæknis dags. 10. október 2001 þar sem segir m.a.:

„ Við úrskurð þann 06.09.20001 lá fyrir læknisvottorð C dagsett 23.08.2001. Fram kom að A hefði Alsheimers sjúkdóm og rataði ekkert utanhúss.

Til að unnt sé að veita bensínstyrk þurfa ýmis skilyrði að vera uppfyllt. Meðal annars þarf að vera um að ræða líkamlega hreyfihömlun, en þar er átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni umsækjenda til að komast ferða sinna, svo sem vegna lömunar eða skerts hreyfanleika í ganglimum, mæði vegna hjarta eða lungnasjúkdóms eða blindu.

Ekki varð séð að A uppfyllti þetta skilyrði og því var umsókn hennar synjað."

Greinargerðin var send hlutaðeigandi með bréfi dags. 16. október 2001 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.

Álit úrskurðarnefndar:

Gildandi lagaheimild um greiðslu bensínstyrks er 2. mgr. 11. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð. Í 11. gr. segir:

„ Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega og umönnunarbótaþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar."

Gildandi reglugerð um greiðslu sérstakrar fjárhæðar til rekstrar ökutækis hreyfihamlaðra er nr. 690/2000.

Í 1. gr. reglugerðarinnar segir:

„ Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþegum svo og örorkustyrkþegum sérstaka fjárhæð vegna rekstrar bifreiðar, sem bótaþega er brýn nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar."

og í 2. grein er útskýring á því hvað átt er við með hreyfihömlun:

„ Með hreyfihömlun skv. reglugerð þessari er átt við líkamlega hreyfihömlun, þ.á.m. blindu, sem skerðir verulega færni umsækjanda til að komast ferða sinna án bifreiðar. Um mat á hreyfihömlun skv. þessari grein fer skv. almannatryggingalögum."

Samkvæmt lagaákvæðinu er heimilt en ekki skylt að veita styrk, enda viðkomandi nauðsynlegt að hafa ökutæki vegna hreyfihömlunar. Lagaákvæðið sjálft felur í sér takmörkun sem fólgin er í mati stjórnvalds í hverju tilviki hvort skilyrði nauðsynjar séu uppfyllt. Í reglugerðinni eru skilyrðin áréttuð með strangari hætti en í lagaákvæðinu þar sem talað er um brýna nauðsyn og að hreyfihömlun sé veruleg og að um líkamlega hreyfihömlun sé að tefla. Telur nefndin þessa þrengingu og nánari skilgreiningu í reglum heimila þar sem reglugerðarsetningin á skýra stoð í lögum, um heimildarákvæði er að ræða sem gefur stjórnvöldum rýmri rétt en ella til að marka nánari reglur og setja skilyrði styrkveitingar, enda eru reglurnar málefnalegar og gilda jafnt um alla sem eins er ástatt um. Um er að tefla styrk til reksturs bifreiðar en að mati nefndarinnar eru það fyrst og fremst þeir sem eru líkamlega fatlaðir sem eru í aukinni þörf fyrir bifreið til að komast frá einum stað til annars.

Þá hefur TR sett þá vinnureglu að miða fyrst og fremst við það að göngufærni sé skert og líta til þess hvort viðkomandi er í stakk búinn eður ei til að nota almenningssam- göngutæki. Þykir nefndinni þessi vinnuregla einnig reist á málefnalegum sjónarmiðum með sömu rökum og áður greinir.

Í greinargerð TR kemur fram sú túlkun á ofangreindum ákvæðum að með hreyfihömlun sé átt við líkamlega hreyfihömlun svo sem fötlun eða sjúkdóm sem skerðir verulega færni umsækjanda til að komast ferða sinna. Síðan er í dæmaskyni nefnt til lömun eða skerðing á hreyfanleika í ganglimum, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma eða blinda.

Úrskurðarnefndin fellst á þá skýringu að hreyfigeta verði að vera verulega skert til að skilyrði bótagreiðslu séu fyrir hendi. Sú viðmiðunarregla sem fram kemur í vinnureglum TR og á stoð í 2. gr. reglugerðarinnar að miða við að göngufærni sé verulega skert er eðlileg og við mat á því hvort svo sé má líta til þess hvort viðkomandi geti nýtt sér almenningssamgöngutæki. Að mati nefndarinnar verður hvorki af lagaákvæðinu né af ákvæðum reglugerðarinnar ráðið að takmörkunin á hreyfigetu verði að eiga rót að rekja til lömunar eða skerts hreyfanleika í ganglimum, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma eða blindu eða sambærilegrar fötlunar eða sjúkdóms. Kjarni málsins er sá að staðreyna þarf hvort hreyfigeta sé verulega skert í skilningi ákvæðisins og skiptir ekki máli af völdum hvaða sjúkdóms eða fötlunar það er. Þessi lagaskýring er einnig í samræmi við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir liggur að kærandi er með Alzheimersjúkdóm. Í bréfi C læknis dags. 23. ágúst 2001 kemur fram að kærandi er verulega hreyfiskert í þeim skilningi að hún getur ekki nýtt sér almenningssamgöngur og að hún kemst ekki ferða sinna án aðstoðar. Fyrir liggur að hún þarf á umönnun og þjálfun að halda utan heimilis og eiginmaður hennar ekur henni það sem hún þarf að fara, svo sem nær daglega í dagvistun í E í Reykjavík.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi sé verulega hreyfihömluð og henni sé nauðsyn að hafa aðgang að bifreið. Skilyrði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 118/1993 um nauðsyn bifreiðar vegna hreyfihömlunar er því uppfyllt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Réttur A til bensínstyrks vegna hreyfihömlunar er viðurkenndur.

F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga

_______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta