Hoppa yfir valmynd
12. desember 2011 Utanríkisráðuneytið

Samningum lokið um fjórðung kafla

Ossur-Skarphedinsson-a-rikjaradstefnu-ESB-og-Islands-i-Brussel---des-2011
Ossur-Skarphedinsson-a-rikjaradstefnu-ESB-og-Islands-i-Brussel---des-2011

Þriðja ríkjaráðstefna Íslands og Evrópusambandsins fór fram í Brussel í dag og tók Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra þátt í henni fyrir hönd Íslands. Þar var fjallað um fimm samningskafla og lauk viðræðum um fjóra þeirra. Frá því að efnislegar viðræður hófust í júní hafa 11 af þeim 33 samningsköflum sem viðræðurnar snúast um verið opnaðir og er viðræðum lokið um 8 þeirra eða um fjórðung.

Í upphafi ávarps síns á ríkjaráðstefnunni dag fagnaði utanríkisráðherra ákvörðunum Evrópusambandsins frá því í síðustu viku til að styrkja evrusamstarfið og yfirvinna skuldavanda einstakra ríkja. Hann sagði aðgerðir til að tryggja framtíð evrunnar vera mikilvægt hagsmunamál fyrir Íslendinga sem stæðu frammi fyrir valkostinum um óstöðuga krónu í gjaldeyrishöftum eða stöðuga evru til sem stæði á tryggari grunni en áður.  Utanríkisráðherra fagnaði þeim góða árangri sem náðst hefur í aðildarviðræðunum og hvatti til þess að viðræður verði hafnar um þyngri samningskafla, s.s. um sjávarútveg, landbúnað, byggðamál og myntsamstarf.

Mikilvægir málaflokkar

Ráðherra sagði að nú væri í fyrsta sinn fjallað um kafla sem ekki er hluti af EES. Það er kafli 23 um réttarvörslu og grundvallarréttindi en þeim kafla var lokað samdægurs endu eru lög á Íslandi sambærileg regluverki ESB. Það helgast meðal annars af aðild Íslands að Mannréttindasáttmála Evrópu og öðrum alþjóðlegum sáttmálum. Utanríkisráðherra sagði baráttuna fyrir mannréttindum vera forgangsmál og þar ætti Ísland sannarlega samleið með ESB.

Utanríkisráðherra sagði á fundinum að þegar Íslendingar verða aðilar að ESB, að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, þá myndu þeir leggja til að verkefni sem tengjast lagningu sæstrengs, norðursiglingum og uppbyggingu Íslands sem fjarskiptamiðstöðvar á norðurslóðum verði hluti af styrkhæfum áætlanunum ESB, en samningskaflinn um samevrópsk net fjallar um uppbyggingu samgöngu-, orku-, og fjarskiptaneta í Evrópu.

Utanríkisráðherra sagði að íslenskt atvinnulíf hefði frá gildistöku EES-samningsins notið góðs af þátttöku í verkefnum tengdum atvinnu- og iðnstefnu ESB, sem og evrópskum félagarétti. Það hefði meðal annars styrkt samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, veitt þeim aðgang að stórum markaði. Það væri litlum og meðalstórum fyrirtækjum til hagsbóta en vöxtur þeirra er lykilatriði í að skapa þau 35 þúsund störf sem þurfa að verða til á Íslandi á næsta áratug.

Loks sagði utanríkisráðherra að þrátt fyrir að Ísland hafi náð góðum árangri í endurreisn efnahagslífsins eftir hrun væri enn verk að vinna sem krefðist varkárni og aga í ríkisfjármálum. Af þeim sökum óskar Ísland í samningsafstöðu sinni í kaflanum um framlagsmál eftir aðlögunartímabili þannig að sem minnst áhrif verði á greiðslustöðu ríkissjóðs þegar til aðildar kemur.

Ráðstefnuna ávörpuðu einnig Maciej Szpunar aðstoðarutanríkisráðherra Póllands en Pólverjar fara með formennsku í ESB, og Stefan Fule stækkunarstjóri Evrópusambandsins. Þá greindi fulltrúi Danmerkur hjá ESB frá áformum danskra stjórnvalda í formennsku sinni í Evrópusambandinu í upphafi næsta árs.

Nánari upplýsingar um þá samningskafla sem fjallað var um í dag eru hér fyrir neðan:

Félagaréttur (6. kafli)

Atvinnu- og iðnstefna (20. kafli)

Samevrópsk net (21. kafli)

Réttarvarsla og grundvallarréttindi (23. kafli)

Framlagsmál (33. kafli)

Næsta ríkjaráðstefna er ráðgerð í Brussel í mars á næsta ári en Stefán Haukur Jóhannesson aðalsamningamaður Íslands mun sækja hana fyrir Íslands hönd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta