Mál nr. 22/2022 - Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Styrktarsjóði BSRB
Greiðsla veikindadagpeninga. Mismunun á grundvelli fötlunar og skertrar starfsgetu. Ekki fallist á brot.
A kærði S fyrir að hafa greitt sér dagpeninga vegna veikinda í styttri tíma en þeim sem nutu skemmri veikindaréttar. Taldi A að úthlutunarreglur S fælu í sér mismunun gagnvart sjóðfélögum og brytu þar með gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, en hann væri fatlaður og með skerta starfsgetu. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað. Var því ekki fallist á að S hefði gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 29. desember 2023 er tekið fyrir mál nr. 22/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dags. 28. desember 2022, kærði A Styrktarsjóð BSRB fyrir að hafa greitt honum helmingi lægri dagpeninga vegna veikinda en öðrum með sama eða skemmri starfstíma. Kærandi telur að úthlutunarreglur kærða feli í sér mismunun gagnvart sjóðfélögum og brjóti þar með gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 5. júní 2023. Greinargerð kærða barst 23. s.m. og var send kæranda til athugasemda þann 27. s.m. Athugasemdir kæranda eru dags. 11. júlí s.á. og athugasemdir kærða dags. 14. s.m.
MÁLAVEXTIR
- Kærandi hafði starfað hjá sama vinnuveitanda í 26 ár þegar hann varð fyrir vinnuslysi. Naut hann veikindalauna í 360 daga í samræmi við ákvæði kjarasamnings en með því tæmdi hann veikindarétt sinn hjá atvinnurekanda og féll af launaskrá. Í framhaldinu leitaði hann til kærða sem er sjúkrasjóður stéttarfélags hans. Þar sem hann hafði notið veikindaréttar í 360 daga hjá vinnuveitanda sínum fékk hann greidda dagpeninga í 45 daga í samræmi við þá úthlutunarreglu sjóðsins að heimilt sé að greiða dagpeninga í allt að 45 daga til þeirra sem lokið hafa 360 daga veikindarétti hjá vinnuveitanda. Kærandi hélt því fram að í þessu fælist að hann nyti minni réttar en aðrir sem væru með styttri starfsaldur og gætu notið 90 daga réttar hjá sjóðnum, og að auki væri ekki tekið tillit til þess hvort viðkomandi væri óvinnufær á greiðslutímabilinu, svo sem átti við um kæranda. Með þessu hafi honum verið mismunað og sendi hann erindi þar um til stjórnar kærða. Stjórn kærða hafnaði sjónarmiðum kæranda með bókun í fundargerð.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Af kæru má ráða að kærandi haldi því fram að kærði hafi mismunað honum með því að greiða honum helmingi lægri dagpeninga en öðrum með sama eða skemmri starfstíma og að skilyrði úthlutunarreglna sjúkrasjóðs kærða feli í sér mismunun sem fari gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
- Kærandi tekur fram að hann hafi fengið greidda dagpeninga í 45 daga samkvæmt reglum kærða í stað 90 daga eins og aðrir sjóðfélagar hjá sama vinnuveitanda fái með sambærilegan starfsaldur eða jafnvel styttri. Skerðing gagnvart honum sem sjóðfélaga byggi eingöngu á því að atvinnurekandi hans, annar lögaðili, hafi greitt honum fullan veikindarétt í samtals 360 daga, enda hafi atvinnurekandi hans greitt iðgjöld af launum hans til sjúkrasjóðsins um áratugaskeið. Geti þetta ekki réttlætt minni styrk til hans eða að hann hafi minni rétt en aðrir. Sé honum með því mismunað. Bendir kærandi á að hann hafi fallið af launaskrá og njóti veikindaréttar eins og þeir sem fengu dagpeninga í 90 daga og hafi því verið launalaus eins og þeir.
- Kærandi tekur fram að í raun snúist málið um það hvort sjúkrasjóðir stéttarfélaga geti sett upp úthlutunarreglur sem mismuni starfsmönnum og félagsmönnum eingöngu vegna þess að atvinnurekandi þeirra hafi greitt þeim hámarksveikindarétt samkvæmt lögum eða kjarasamningum. Kærandi bendir á að það hafi ekki verið tilgangur sjúkrasjóða að mismuna sjóðfélögum heldur að veita öllum þeim sem áfram eru veikir stuðning í veikindum sínum. Úthlutunarreglur eigi ekki að mismuna félagsmönnum eingöngu á grundvelli þess að áunninn veikindaréttur hjá atvinnurekanda hafi verið betri en aðrir nutu með skemmri starfsaldur. Reglurnar eigi að vera hlutlausar gagnvart starfsaldursskilyrðum. Sé kæranda augljóslega mismunað miðað við aðra félagsmenn með sama starfsaldur og hann. Hann fái helmingi færri daga samkvæmt reglum sjóðsins.
- Kærandi tekur fram að samkvæmt 1. gr. laga nr. 86/2018 sé lögunum ætlað að tryggja jafna meðferð á vinnumarkaði og samkvæmt d-lið 1. mgr. ákvæðisins felist það m.a. í þeim hlunnindum sem stéttarfélög veita félagsmönnum. Stéttarfélög falli þannig undir lögin eins og aðrir lögaðilar og fyrirtæki og hafa ekki sjálfdæmi lengur um veitingu styrkja með úthlutunarreglum sínum. Vísar kærandi einnig til d-liðar 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 78/2000/EB sem lög nr. 86/2018 eru byggð á.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Kærði heldur því fram að kæran sé ekki reist á haldbærum rökum og því beri að hafna henni. Séu úthlutunarreglurnar í öllum atriðum hlutlægar og málefnalegar og ekki mismunað á neinn hátt á grundvelli atriða sem séu tilgreind í 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
- Kærði tekur fram að reglur kærða um dagpeninga feli í sér öryggisnet fyrir félagsmenn sem verði fyrir tekjumissi vegna veikinda, sem tekur við þegar rétti félagsmanna til forfallalauna frá vinnuveitanda eða veikindarétti sleppir. Um þann rétt hafi verið samið í kjarasamningum en hann sé þrepaskiptur eftir þjónustualdri félagsmanna. Telur kærði það sjálfsagt og eðlilegt að úthlutunarreglurnar taki meðal annars mið af því hversu ríkur þessi réttur gagnvart vinnuveitanda er.
- Kærði bendir á að það geti ekki talist ólögmæt mismunun að skilgreina rétt félagsmanna til styrkja miðað við mismunandi hlutlægar aðstæður. Þannig geti það ekki talist ómálefnalegt að réttur til slíkra greiðslna sé rýmri hjá þeim sem eiga lítinn veikindarétt gagnvart vinnuveitanda en hjá þeim sem njóta betri réttar. Með öðrum orðum geti ekki talist ómálefnalegt að þeir sem standi höllustum fæti og eigi minnst réttindi eigi rýmri rétt til styrks en þeir sem betur eru staddir í þessu tilliti. Sem dæmi verði það ekki talið brot gegn jafnréttislögum að félagsmaður sem nýtur 90 daga veikindaréttar fái dagpeninga í fleiri daga en sá sem nýtur 360 daga veikindaréttar eins og kærandi naut. Að slíkur greinarmunur sé gerður í lögum eða úthlutunarreglum eins og reynir hér á sé eðlilegt, fullkomlega málefnalegt og fari ekki gegn lögum nr. 86/2018.
NIÐURSTAÐA
- Af kæru má ráða að mál þetta snúi að því hvort kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 7. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með því að greiða kæranda dagpeninga vegna veikindaréttar í 45 daga en ekki 90 daga eins og sjóðfélögum með styttri starfsaldur og minni veikindarétt.
- Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar þátttöku í samtökum launafólks eða atvinnurekenda, þ.m.t. þau hlunnindi sem þau veita félagsmönnum, sbr. d-lið sömu málsgreinar. Í 1. mgr. 2. gr. er tekið fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.
- Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018 er tekið fram að hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna sé óheimil. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut þess sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað. Takist sú sönnun ber þeim sem er talinn hafa mismunað að sýna fram á að aðrar ástæður en þær sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aðrar ástæður en þær sem eru í 1. mgr. 1. gr. hafi haft áhrif á greiðslu sjúkradagpeninga í máli þessu.
- Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 86/2018 hafi verið brotin, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.
- Samkvæmt 2. gr. úthlutunarreglna kærða eiga þeir sem aðild eiga að sjóðnum og njóta veikindaréttar, samkvæmt gr. 2.2.1 í samkomulagi BSRB um veikindarétt, rétt til dagpeninga eða styrks úr sjóðnum, enda hafi verið greitt vegna þeirra í sjóðinn í a.m.k. sex mánuði fyrir styrkveitingu. Í 3. gr. reglnanna er fjallað um með hvaða hætti dagpeningar greiðast úr sjóðnum og í 4. gr. um rétt sjóðfélaga til dagpeninga á hverjum 12 mánuðum. Samkvæmt a-lið 4. gr. er sá réttur 45 dagar ef starfstími er 6–12 mánuðir en samkvæmt b-lið er rétturinn 90 dagar sé starfstíminn lengri en 12 mánuðir, þó þannig að samanlagt greiðslutímabil vinnuveitanda og sjóðsins verði aldrei lengra en 360 dagar. Sérstaklega er tekið fram að heimilt sé að greiða dagpeninga í allt að 45 daga til þeirra sem hafa lokið 360 daga veikindarétti hjá launagreiðanda. Af þessu er ljóst að úthlutunarreglur kærða hafa á sér yfirbragð samtryggingar sjóðfélaga, enda hafi sjóðfélagi greitt til sjóðsins tiltekinn lágmarkstíma. Þá taka reglurnar mið af því hversu mikinn rétt viðkomandi hefur öðlast hjá vinnuveitanda sínum.
- Í málinu liggur fyrir að kæranda voru greiddir dagpeningar í 45 daga í samræmi við heimild b-liðar 4. gr. úthlutunarreglnanna þar sem hann hafði lokið 360 daga veikindarétti, þ.e. hámarki, hjá launagreiðanda. Af þessu leiddi að kærandi fékk ekki greidda dagpeninga í 90 daga eins og gat átt við um þá sjóðfélaga sem nutu minni veikindaréttar hjá launagreiðanda. Réttur þeirra sem njóta dagpeninga samkvæmt úthlutunarreglum kærða byggir á óvinnufærni eftir lok veikindaréttar sjóðfélaga og er þannig til viðbótar við veikindarétt sem sjóðfélagar njóta hjá atvinnurekanda. Eru sjóðfélagar í sömu stöðu að þessu leyti. Ekki verður talið að reglur sem mæla fyrir um að rétta skuli hlut þeirra eða styrkja þá frekar sem notið hafi minni veikindaréttar hjá launagreiðanda með greiðslu dagpeninga í fleiri daga en þeirra sem hafa notið meiri veikindaréttar séu ómálefnalegar eða feli í sér mismunun í skilningi 1. mgr. 7. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018. Hefur kærði samkvæmt því svigrúm til að ákvarða inntak réttinda sjóðfélaga og þar með hvernig hann ráðstafar fjármunum sínum að þessu leyti. Eins og hér stendur á verður ekki annað séð en að reglur kærða séu innan þessa svigrúms og byggðar á málefnalegum sjónarmiðum.
- Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli 1. mgr. 7. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018 við greiðslu dagpeninga samkvæmt úthlutunarreglum kærða. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Styrktarsjóður BSRB, braut ekki gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við greiðslu dagpeninga til kæranda.
Kristín Benediktsdóttir
Andri Árnason
Ari Karlsson