Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði gesti á málþingi Háskólans á Akureyri á föstudaginn var um hin víðtæku áhrif Vigdísar Finnbogadóttur á samfélagið. Málþingið var haldið í tilefni þess að Vigdís var þann sama dag sæmd heiðursdoktorsnafnbót við HA. Forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson, ávarpaði einnig þingið. Forsætisráðherra fjallaði um hin víðtæku áhrif Vigdísar á sviði umhverfismála, jafnréttismála og menningarlegrar fjölbreytni og hafði orð á hinum miklu áhrifum Vigdísar fyrir að vera fyrirmynd heillar kynslóðar sem ólst upp við það að kona gegndi embætti forseta Íslands.