Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 4/2023 Úrskurður 5. janúar 2023

Mál nr. 4/2023 Eiginnafn: Æja (kvk.)

Hinn 5. janúar 2023 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 4/2023 en erindið barst nefndinni 3. janúar.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

1.Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
2.Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
3.Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
4.Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Eiginnafnið Æja (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Æju, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga um mannanöfn. Í nafninu reynir hins vegar hugsanlega á það hvort það geti orðið nafnbera til ama, sbr. líkindi við upphrópunina æ. Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að það séu auðsæilega mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi. Jafnframt er bent á að ákvæðið um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama sé vandmeðfarið þar sem erfitt sé að leggja hlutlægt mat á ama. Áréttað er að ákvæðinu skuli beita mjög varlega og er tekið fram að eðlilegt sé að ákvæðinu sé því aðeins beitt að telja megi merkingu nafns neikvæða eða óvirðulega. Ekki er hér talin þörf á að beita þessu ákvæði og nafninu Æja svipar til ýmissa kvenmannsnafna á mannanafnaskrá, t.d. Eyja, Kæja, Mæja, Dæja, sem eru mörg upphaflega gælunöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Æja (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta