Hoppa yfir valmynd
14. júní 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vinnustofa um gerð alþjóðastaðals um Barnahús

Að frumkvæði mennta- og barnamálaráðuneytisins hafa alþjóðlegu staðlasamtökin ISO (e. International Standardization Organization) nú samþykkt að stofna til alþjóðlegrar vinnustofu á Íslandi í október til að staðla uppsetningu, rekstur og virkni Barnahúss á alþjóðavísu.

Ráðuneytið samdi við sænsku staðlastofnunina, Svenska institutet för standarder (SIS), og Staðlaráð Íslands um að vinna formlega umsókn um alþjóðlega vinnustofusamþykkt um Barnahús. Umsóknin var send ISO í upphafi árs og hefur hún nú verið samþykkt. Í því felst að staðlasamtökin skipuleggja vinnustofu eftir reglum sem um hana gilda. Hún hefur nú þegar vakið mikla athygli og hafa þó nokkrar alþjóðlegar stofnanir boðað komu sína.

„Með verkefninu er lagður grunnur að leiðbeiningum og kröfum sem byggja á virkni hins íslenska Barnahúss sem ríki heims geta innleitt og gert að sínum. Þannig búum við til alþjóðlega viðurkennda staðlaða meðferð sem reynst hefur vel og byggir á öllum helstu alþjóðasamningum um réttindi barna,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Íslenska barnaverndarúrræðið Barnahús hefur verið tekið upp í mörgum löndum undir sama heiti. Markmiðið með stöðlun þess er að skilgreina þær kröfur sem þarf að uppfylla til að bera heitið „Barnahus“ á alþjóðavísu og ná tilætluðum árangri. Vinnustofunni er ætlað að útfæra staðlaðar leiðbeiningar um gerð, uppsetningu og virkni Barnahúss sem nýst geta þjóðum sem vilja koma sér upp slíku kerfi og öðrum sem hafa þegar sett upp útgáfu af Barnahúsi.

Barnahús sinna börnum sem sætt hafa kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Í Barnahúsum fá börn einstaklingsmiðaðan stuðning í barnvænu umhverfi. Tilgangur Barnahúsa er að vernda börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi með því að veita alla þjónustu sem þau þurfa á að halda á einum stað. Þjónustan er þeim að kostnaðarlausu og felst meðal annars í að veita barninu sálfræðimeðferð í kjölfar ofbeldis og annast skýrslutökur fyrir dómi í barnvænu umhverfi. Með þjónustu Barnahúsa er markmiðið einnig að koma í veg fyrir að börnin þurfi að endurtaka sögu sína við ókunnuga aðila úr mismunandi þjónustukerfum.

Vinnustofan er þrískipt og verður kynnt á kynningarfundi fimmtudaginn 20. júní en frestur til að skrá sig er til 25. ágúst. Vinnustofan er ætluð sérfræðingum innan stofnana sem starfa við þetta málefni.

Dagskrá:

  • Kynningarfundur – fjarfundur 20. júní 2024
  • Vinnustofa 1 – fjarfundur 5. september 2024
  • Vinnustofa 2 – staðfundur í Reykjavík 23–24. október 2024
  • Vinnustofa 3 – fjarfundur 10. desember 2024
  • Nánari upplýsingar

Stefnt er að því að ISO gefi vinnustofusamþykktina út í febrúar 2025. Um einstakt tækifæri er að ræða við að skilgreina hvernig standa eigi að farsæld barna sem orðið hafa fyrir ofbeldi, með þjónustu Barnahúsa víða um heim.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta