Hoppa yfir valmynd
14. maí 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2009

Fimmtudaginn 14. maí 2009

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. mars 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 17. mars 2009.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 11. mars 2009 um að synja kæranda um fjárhagslega aðstoð samkvæmt lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, vegna sonar hennar B.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

„Ég er móðir fjögurra ára drengs sem er með hreyfihömlun CP og þroskahömlun og flogaveiki. Við búum á D-stað og hann er leikskóla frá 8.00-14.00.

Vikuleg dagskrá okkar er eftirfarandi:

Á mánudögum fer ég með hann í sjúkraþjálfun til E-staðar. Þangað er Y km akstur í góðri færð. Við erum komin aftur heim klukkan 15.30. Eftir það erum við heima eða förum út allt eftir heilsufari og líðan drengsins.

Á þriðjudögum á hann frí úr þjálfun.

Á miðvikudögum förum við aftur til E-staðar og dagurinn líkur mánudögunum.

Á fimmtudögum leggjum við af stað um 13.00 og förum til H-staðar í tal- og sjúkraþjálfun. Akstur til H-staðar er Y km. aðra leið. Þá erum við komin heim um kl. 17.00. Þá er drengurinn mjög þreyttur og þarf að hvíla sig en jafnframt þarf að halda honum vakandi svo nóttin verði ekki erfið.

Á föstudögum er hann á leikskólanum til 14.00 og fær iðjuþjálfun á leikskólanum.

B er flogaveikur og þarf oft að fara í blóðprufur til að fylgjast með lyfjagildum í blóðinu. Við förum til H-staðar í blóðprufurnar, að minnsta kosti einu sinni í mánuði en stundum oftar. Á fjögurra mánaða fresti förum við til I-staðar í botox sprautur. B er oft veikur og fær allar flensur. Því er hann oft heima vegna veikinda.

B greindist með flogaveiki 6 mánaða og var oft inni á spítala fyrstu mánuðina, illa gekk að finna út réttan lyfjaskammt, um tíma var hann of hár svo drengnum fór mikið aftur. Þetta gekk ekki til baka. Ég fór að vinna þegar B var eins og hálfs árs, aðra hverja helgi í N. Þarna vann ég þegar drengurinn var hjá föður sínum. Nýlega var vinnufyrirkomulaginu breytt og mér sagt upp vegna skipulagsbreytinga en vaktirnar voru lengdar. Einnig vann ég í O frá desember 2006 og þangað til í desember síðastliðnum en var sagt upp vegna samdráttar. Þar naut ég mikils skilnings vinnuveitanda og gat hagrætt vinnutímanum. Ég hef fengið atvinnuleysisbætur einu sinni og voru það um X kr. Ef mér verður boðin vinna get ég ekki tekið hana vegna þess hve mikið ég þarf að fara með drenginn í þjálfun. Þess vegna eru foreldragreiðslur mun hagstæðari fyrir mig en atvinnuleysisbætur.“

 

Með bréfi, dagsettu 26. mars 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 8. apríl 2009. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um synjum á greiðslum samkvæmt lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingu, vegna B.

Í málinu liggur fyrir umsókn móður B, um greiðslur til foreldra á vinnumarkaði dags. 26. febrúar 2009, læknisvottorð læknis á J-sjúkrahúsi dagsett 13. febrúar, vinnuvottorð frá F og frá G tilkynning um greiðslu úr sjúkrasjóði K dagsett 30. júní 2008 og staðfesting á atvinnuleysisskráningu dagsett 23. febrúar 2009.

Í umsókn móður um foreldragreiðslur kemur fram að móðirin hafi ekki getað stundað fulla vinnu vegna heilsufarsvanda drengsins. Hann sé með ótilgreinda þroskaröskun, sé flogaveikur, með viðkvæmt ofnæmiskerfi, seinkaðan hreyfiþroska og heilalömun. Drengurinn er með pláss á leikskólanum L frá kl. 08:00 -16:00 og er þar með stuðning alla virka daga, nema föstudaga, en þá kemur iðjuþjálfi á leikskólann og þjálfar hann. Vegna fötlunar sinnar þurfi drengurinn að fara í sjúkraþjálfun 3x í viku, iðjuþjálfun 1x í viku og talþjálfun 1x í viku. Fram kemur að talþjálfunin og hluti sjúkraþjálfunarinnar fari fram á H-stað.

Í læknisvottorði segir að B sé með flogaveiki, heilalömun og skerðingu á tjáningu, hreyfigetu og sjálfsbjargargetu. Hann geti ekki gengið óstuddur, muni þurfa sjúkraþjálfun um ókomin ár, sé í talþjálfun og sé í sprautumeðferð með Botox vegna vöðvastyttinga. Ennfremur að drengurinn þurfi mikinn stuðning heima og í leikskólanum.

Fram kemur í vinnuvottorðum frá F og G að A hafi verið sagt upp störfum þar. Þá kemur fram í staðfestingu á atvinnuleysisskráningu að A hafi verið skráð atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun frá 2. febrúar 2009. Samkvæmt upplýsingum þaðan hefur hún fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 19. febrúar sl.

Í 29. gr. laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, með síðari breytingu, kemur fram að foreldri sem fái atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögunum fyrir sama tímabil. Þar sem A hefur þegið atvinnuleysisbætur taldi Tryggingastofnun að hún ætti ekki einnig rétt á greiðslum samkvæmt lögum nr. 22/2006 og því var umsókn hennar synjað.

Í kæru segir A að hún hafi fengið atvinnuleysisbætur einu sinni en ef henni yrði boðin vinna gæti hún ekki tekið hana vegna þess hve mikið hún þurfi að fara með drenginn í þjálfun. Þess vegna væru foreldragreiðslur mun hagstæðari fyrir hana en atvinnuleysisbætur segir hún.

Samkvæmt 20 gr. laga nr. 158/2007, sem breyttu lögum nr. 22/2006, er það skilyrði að barn hafi greinst eftir 1. október 2007 til að foreldri eigi rétt á vinnumarkaðstengdum greiðslum. Þar sem B greindist ekki fyrir 1. október 2007 á A ekki rétt á greiðslum sem foreldri á vinnumarkaði.

Hins vegar er kveðið á um heimild til almennrar fjárhagsaðstoðar til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna í 19. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingu. Þar kemur fram í 2. mgr. að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum skv. 1. mgr. hafi barn þess greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig skv. 26. og 27. gr. samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu, barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi, sbr. og 25. gr. laganna.

Í gögnum málsins kemur fram að B sé á leikskóla og sé með stuðning alla virka daga, nema á föstudögum komi iðjuþjálfi og sé með hann í þjálfun. Þrátt fyrir að hægt sé að flokka veikindi B undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig skv. 26. og 27. gr. laganna, kemur fram í umsókn móður að hann sé með vistun allan daginn, þrátt fyrir að í kæru segi A að hann nýti hana ekki alla daga. Tryggingastofnun telur því að skýrt skilyrði 19. gr., sbr. og  25. gr. laganna, um að annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila verði ekki við komið, sé ekki uppfyllt og því sé ekki heldur réttur á almennri fjárhagsaðstoð samkvæmt 19. grein laganna.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 14. apríl 2009, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. mars 2009 um synjun á greiðslum samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, með síðari breytingum, vegna sonar kæranda.

Samkvæmt 20 gr. laga nr. 158/2007, um breytingu á lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, er það skilyrði að barn hafi greinst eftir 1. október 2007 til að foreldri eigi rétt á vinnumarkaðstengdum greiðslum. Barn kæranda er fætt X. mars 2005 og fékk greiningu í ágúst 2005. Samkvæmt því getur kærandi ekki átt rétt til vinnumarkaðstengdra greiðslna skv. III. kafla laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 17. gr. laga nr. 158/2007, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, getur foreldri sem hvorki getur sinnt störfum utan heimilis né námi vegna þess að barn þess þarfnast verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar átt sameiginlegan rétt á grunngreiðslum skv. 20. gr. með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati framkvæmdaraðila. Síðan segir í 2. mgr. 19. gr.: „Foreldri getur átt rétt á grunngreiðslum skv. 1. mgr. hafi barn þess greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig skv. 26. og 27. gr. samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu, barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi.“

Með 17. gr. laga nr. 158/2007, um breytingu á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, kom nýr kafli, IV. kafli, inn í lögin sem hefur fyrirsögnina „Almenn fjárhagsaðstoð“ með sex nýjum greinum. Í athugasemdum í greinargerð með a-lið 17. gr. segir meðal annars:

„(19. gr.) ... Skilyrði fyrir réttinum til greiðslna eru sambærileg þeim sem gilda um framlengingu á rétti foreldra innan vinnumarkaðstengda kerfisins skv. 3. mgr. 8. gr. laganna. Auk skilyrða um alvarleika sjúkdóms eða fötlunar, sbr. 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig skv. 18. gr. b og c frumvarps þessa, er miðað við að sérfræðingur þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu votti hvenær barnið greindist með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun og um ástand barnsins þegar sótt er um greiðslur. Enn fremur er það skilyrði að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris þannig að foreldrið eigi þess ekki kost að starfa utan heimilisins. ... Framkvæmdaraðila ber að meta aðstæður fjölskyldna heildstætt, meðal annars með hliðsjón af þeirri vistunarþjónustu sem í boði er á vegum opinberra aðila, svo sem hjá leikskólum, dagvistunarþjónustu og skammtímavistun fyrir fatlaða. Er við það miðað að standi barni til boða vistunarþjónusta á vegum opinberra aðila komi foreldrar ekki til með að eiga rétt á þessum greiðslum. Þó er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili meti aðstæður ávallt heildstætt en sem dæmi geta komið upp þær aðstæður að barn geti ekki nýtt vistunarþjónustu sem skyldi, til dæmis vegna ónæmisbælingar sökum illkynja sjúkdóma eða annarra alvarlegra veikinda og foreldrar geti því ekki verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Við mat á því hvort foreldrar kunni að eiga rétt á greiðslum samkvæmt ákvæði þessu skal framkvæmdaraðili jafnframt taka mið af lengd vistunar á sjúkrahúsi eða hjúkrunar í heimahúsi sem og yfirsetu foreldris vegna alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða mjög alvarlegrar fötlunar. Einnig ber að líta til þess hvort um sé að ræða tíðar sjúkrahúsinnlagnir enda þótt hver þeirra standi yfir í skamman tíma. Gert er ráð fyrir að samhliða tíðum sjúkrahúsinnlögnum þarfnist barn meðferðar í heimahúsi vegna alvarlegs og langvarandi sjúkdóms. Að því er varðar börn með mjög alvarlega fötlun ber að líta til þeirrar umönnunar sem fötlunin krefst enda er miðað við að barnið sé algjörlega háð öðrum með hreyfifærni eða flestar athafnir daglegs lífs. Er því miðað við að fatlað barn þurfi mjög víðtæka aðstoð, umönnun og þjálfun sem ekki verður veitt með öðrum hætti. ...“

Í 25. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 18. gr. laga nr. 158/2007, er það skilyrði fyrir greiðslum til foreldris skv. III. og IV. kafla (þar á meðal er 19. gr.) að langveikt eða alvarlega fatlað barn þess þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris vegna sjúkdóms eða fötlunar sem fellur undir sjúkdómsstig skv. 26. gr. eða fötlunarstig skv. 27. gr. Miða skuli við að foreldri geti ekki verið virkur þátttakandi á vinnumarkaði vegna umönnunarinnar meðan greiðslur standa yfir enda verði annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila, svo sem hjá leikskólum, dagvistunarþjónustu eða skammtímavistun fyrir fatlaða, ekki við komið.

Í athugasemdum við ákvæði 18. gr. í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 158/2007, um breytingu á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, segir meðal annars:

„... í tilvikum þegar foreldrar eiga kost á vistunarþjónustu fyrir börn sín á vegum opinberra aðila, svo sem hjá leikskólum, dagvistunarþjónustu eða skammtímavistun fyrir fatlaða, er ekki gert ráð fyrir að þeir eigi rétt á greiðslum samkvæmt frumvarpi þessu. Þó er alltaf gert ráð fyrir mati framkvæmdaraðila á heildaraðstæðum foreldra, sbr. einnig athugasemdir við 17. gr. a frumvarpsins ...“

Í læknisvottorði, dagsettu 3. febrúar 2009, segir meðal annars:

„Það vottast að B er með flogaveiki, heilalömun og skerðingu á tjáningu, hreyfigetu og sjálfsbjargargetu. Sjúkdómurinn er af óþekktum uppruna.

Flogaveikin gefur honum breytileg einkenni, hann fær sjaldan grand mal krampa, en tíð stutt stjarfaflog, á tímabilum daglega. Hann þarf lyfjameðferð með Orfril og Lamictal, erfiðleikar hafa verið við innstillingu lyfjaskammta (ónóg verkun og áhrif á blóðhag og lifur), og því nokkuð tíðar (1-2 x í mánuði) blóðprufur.

Drengurinn er í sjúkraþjálfun 3 x í viku, bæði á E-stað og H-stað, og þarf að halda því áfram um ókomin ár. Hann getur ekki gengið óstuddur, en skríður og reisir sig upp. Miklar ósjálfráða hreyfingar (ataxia) sem hefur áhrif á fínhreyfigetu og grófhreyfingar/jafnvægi. Vikuleg talþjálfun á H-stað. Hann er með vöðvastyttingar í ganglimum, þarf sérsmíðaða skó, sjúkraþjálfun og spelkur. Er í sprautumeðferð með Botox vegna vöðvastyttinga, ef það heldur áfram þarf hann að fara á M-spítala á um þriggja mánaða fresti til þessa.

Hann þarf mikinn stuðning heima fyrir og í leikskóla. Hann talar lítið, en tjáir sig með „tákn með tali“. Málskilningur er nokkuð góður, þó metinn um sex til átta mánaða á eftir jafnöldrum. Strákurinn er félagslyndur og glaður en þreytist fljótt. Er mikið á hreyfingu, forvitinn að eðlisfari, en er samtímis jafnvægislítill og líklega ekki með aldurssamsvarandi dómgreind og þarf þess vegna mjög mikið eftirlit til að hann fari sér ekki að voða. Drengurinn býr við varanlega fötlun og flogaveiki. ...“

Samkvæmt gögnum málsins er óumdeilt að fötlun sonar kæranda fellur undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig skv. 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006. Af því sem fram kemur í kæru og staðfest er í læknisvottorði er einnig ljóst að drengurinn þarfnast verulegrar og sérstakrar umönnunar og stuðnings sem kærandi veitir í ríkum mæli og takmarkar möguleika hennar á vinnumarkaði. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að eitt af skilyrðum 19. gr., sbr. 25. gr., laganna er að vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila verði ekki við komið og það skilyrði áréttað í athugasemdum í greinargerð um skýringu ákvæðisins. Þar sem sonur kæranda er á leikskóla þar sem hann nýtur sérstaks stuðnings verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslur samkvæmt lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, vegna sonar hennar, B, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta