Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Utanríkisráðuneytið

57 milljónum kr. veitt til mannúðar- og hjálparstarfs í Palestínu

SÞ Gréta Gunnarsdóttir

Íslensk stjórnvöld hafa nýverið veitt um 57 milljónum króna til mannúðar- og hjálparstarfs í Palestínu en Palestína er eitt af þremur áhersluríkjum í þróunarsamvinnuáætlun Íslands. Þá lýsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á miðvikudag þeirri skoðun íslenskra stjórnvalda í opinni umræðu um málefni Mið-Austurlanda að öryggisráð SÞ yrði að gera sig meira gildandi í viðleitni til að leysa deilumál Ísraela og Palestínumanna. Alþjóðasamfélagið hefði alltof lengi látið nægja að bregðast við atburðum á vettvangi eftirá með yfirlýsingum eða ályktunum, s.s. nýlegum ákvörðunum ísraelskra stjórnvalda að standa fyrir frekari landtökubyggðum á E1-svæðinu svonefnda í nágrenni Jerúsalem-borgar.

Af fjárframlögum til verkefna í Palestínu hefur að þessu sinni verið ákveðið að veita 12,9 m.kr. til Samræmingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA) í sameiginlegan neyðarsjóð fyrir Palestínu (Gasa og Vesturbakkann), en sjóður þessi hefur það hlutverk að úthluta fé með skjótum hætti til aðsteðjandi neyðar- og mannúðarverkefna. Ennfremur er 12,9 m.kr. veitt til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) til matargjafa í Palestínu. Þá er framlögum veitt til starfsemi Stofnunar SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Barnahjálpar  UNICEF í Palestínu, samtals 25,4 milljónum króna. Verkefni UN Women snýr að stuðningi við baráttuna gegn ofbeldi gegn konum og aðstoð við konur og börn þeirra sem orðið hafa fyrir ofbeldi. Verkefni UNICEF snýr hins vegar að mæðra- og ungbarnavernd en íslenskur starfsmaður hefur einmitt starfað á Gaza að sama verkefni á vegum Íslensku friðargæslunnar undanfarið ár. Að auki var 5,6 m.kr. veitt til Palestinian Medical Relief Society sem eru grasrótarsamtök á svið heilbrigðismála.

Heildarstuðningur Íslands til Palestínu á árinu 2012 nam um 175 m.kr., að fyrrgreindum 57 m.kr. meðtöldum. Fjárhagslegur og pólitískur stuðningur við Palestínu er í samræmi við þróunarsamvinnuáætlun Íslands sem samþykkt var á Alþingi 2011. Gréta Gunnarsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, lagði í ávarpi sínu í opnum umræðum öryggisráðs SÞ í New York á miðvikudag áherslu á að menn mættu aldrei gleyma því að ákvarðanir eins og sú, að setja niður nýja landtökubyggð á E1-svæðinu, hefði áhrif á líf venjulegs fólks, réttindi Palestínumanna til að lifa í friði og spekt og eiga og rækta sitt land. Hvatti hún öryggisráðið til að heimsækja Palestínu til að kynna sér sjálft aðstæður á vettvangi. Ennfremur ætti öryggisráðið að staðfesta enn á ný að landtökubyggðirnar í Palestínu séu ólöglegar, jafnframt því sem öryggisráðið ætti að samþykkja beiðni Palestínu um fulla aðild að SÞ, um leið og deiluaðilar væru hvattir til að hefja þegar viðræður um úrlausn allra deilumála.

Fastafulltrúi Íslands gerði ástandið í Sýrlandi einnig að umtalsefni og lagði fast að öryggisráðinu að grípa þar í taumana.

Hér má lesa ræðu fastafullrúa Íslands

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta