Hlynntur núllsýn í umferðarmálum á Íslandi
Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði á umferðarþingi í morgun að stefna ætti að því að taka upp núllsýn í umferðarmálum hér á landi. Enginn ætti að farast í umferðarslysum og brýnt væri að allir gerðu sér ljósa ábyrgð sína til að unnt væri að ná slíku markmiði.
Núllsýnin var meðal umfjöllunarefna á umferðarþinginu en sænski umferðarsérfræðingurinn Claes Tingvall flutti erindi um málið og reynslu Svía. Í grundvallaratriðum gengur núllsýnin út á að dauðaslys í umferðinni séu óviðunandi og að allt skuli gert sem hægt er til að koma í veg fyrir þau. Sumir telji banaslys óumflýjanlegan fylgifisk umferðarslysa en Claes Tingvall og aðrir þeir sem fylgja núllsýninni telja svo ekki vera. Ábyrgðin sé allra; bílaframleiðenda, -ökumanna og vegfarenda, yfirvalda sem setja reglur og allra sem sinna umferðarmálum.
Í máli sínu sagði Ögmundur Jónasson meðal annars að góður árangur hefði náðst í fækkun banaslysa undanfarin ár en ,,betur má ef duga skal,” sagði ráðherra. Á örfáum árum hefðu um 100 manns látist í umferðarslysum. ,,Við viljum ekki sjá svona tölur, við viljum ekki svona fórnir og við viljum ekki verða vitni að öllum þeim harmi sem umferðarlsys valda. Þess vegna skulum við sameinast um að tileinka okkur núllsýn.”
Ráðherrann sagði meðal annars um núllsýnina: ,,Núllsýnin er áhugaverð og metnaðarfull sýn, að stefna að því marki að útrýma banaslysum í umferðinni. Auðvitað eigum við að stefna að þessu. Það á enginn að týna lífinu í umferðarslysi.
Ýmislegt þarf til þess að svo megi verða. Ábyrgðin liggur hjá okkur öllum. Til dæmis:
- Hjá vegfarendum hvernig svo sem þeir ferðast.
- Hjá samgönguyfirvöldum sem setja reglurnar og halda uppi kynningu.
- Hjá fræðsluyfirvöldum sem sjá okkur fyrir umferðarfræðslu.
- Hjá löggæslunni sem veitir okkur aðhald.
- Hjá Vegagerðinni sem sér um gerð og umsjón samgöngumannvirkja.
Ég hef undanfarið fengið í heimsókn ýmsa sérfræðinga sem hafa kynnt mér þessi mál og það er mikilvægt að við innprentum okkur að þetta verði ekki aðeins í orði heldur og í verki.
Við þurfum líka að ákveða hvort núllsýnin verður hluti af samgönguáætlun eins og hjá Norðmönnum eða hluti af umferðarlöggjöf eins og er í tilviki Svía. Þetta allt tekur tíma og sérfræðingar hafa upplýst mig um að það gæti tekið allt að tveimur árum að koma á núllsýn hér á landi.
Ég tel að við eigum að hefja þegar undirbúning. Núllsýn hlýtur að vera það takmark sem við stefnum að, það á enginn að láta lífið í umferðarslysum – við eigum að gera allt sem við getum til að ná því takmarki. Þankagangur minn hefur breyst við það að fá sérfræðingana í heimsókn og ég ítreka að við hrindum þessu raunverulega í framkvæmd.”
Í framhaldi af erindi Claes Tingvall ræddu þrír þingmenn málið í pallborði ásamt honum, þeir Einar K. Guðfinnsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Róbert Marshall.