Ríkissjóður greiðir 19 milljarða króna inn á lífeyrisskuldbindingar
Fjármála- og efnahagsráðuneytið staðfesti í dag samkomulag við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) um framsal eigna fyrir 19 milljarða króna, sem voru hluti af svonefndum stöðugleikaframlögum fallinna fjármálafyrirtækja. Framsalið er gert á grundvelli heimildar í fjáraukalögum fyrir árið 2017 sem Alþingi samþykkti 30. desember sl.
Stöðugleikaframlög slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja, sem innt voru af hendi í tengslum við undanþágu frá fjármagnshöftum, fólust í eignarhlutum í viðskiptabönkum, skuldabréfum, skráðum og óskráðum hlutabréfum, lánaeignum og ýmsum öðrum eignum. Var sérstöku félagi í eigu ríkisins, Lindarhvoli ehf., falin umsýsla og innlausn eignanna að frátöldum framlögum vegna viðskiptabanka. Verkefni félagsins hafa verið leyst á grundvelli sérstaks samnings sem það gerði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Mestur hluti þeirra eigna sem Lindarhvoli ehf. var falið að koma í verð hefur þegar verið seldur og andvirðið runnið í ríkissjóð. Talið er að hluti þeirra eigna sem eftir standa séu ekki vel fallnar til almennrar sölu með sama hætti og aðrar eignir í umsýslu félagsins sem seldar hafa verið á undanförnum misserum.
Af þessum ástæðum er talið skynsamlegt að LSR yfirtaki umræddar eignir, en sjóðurinn er ekki háður sérstökum tímatakmörkunum í eignaumsýslu sinni og býr yfir sérhæfðri þekkingu sem þarf til þess að hámarka virði eignanna. Eignirnar eru framseldar til sjóðsins sem innborgun inn á skuldbindingar ríkissjóðs gagnvart B-deild LSR. Með þeirri ráðstöfun næst að hámarka virði þeirra fyrir ríkissjóð með lágmarks tilkostnaði.
Ríkissjóður ber áfram ábyrgð á skuldbindingum B-deildar LSR og umrædd ráðstöfun hefur engin áhrif þar á. Standi eignirnar ekki undir því verðmati sem sett er á þær í dag leiðir það að öðru óbreyttu til hækkunar á skuldbindingum ríkissjóðs í framtíðinni, en skili eignirnar meiri verðmætum í framtíðinni hefur það jákvæð áhrif á skuldbindingarnar.