Hoppa yfir valmynd
10. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 10. mars 2023

Komið þið sæl og blessuð,

Föstudagspósturinn spannar tvær vikur að þessu sinni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hélt til Genfar í febrúarlok þar sem hún flutti stefnuræðu Íslands um alþjóðleg mannréttindamál við upphaf 52. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Í ræðunni fordæmdi hún harkalega innrás Rússlands í Úkraínu og minnti á skelfilegar afleiðingar stríðsins sem hefðu víðtæk áhrif á mannréttindi víða um heim. Hún kom einnig inn á alvarleg mannréttindabrot stjórnvalda í Afganistan, Íran og Belarús og tók sérstaklega fram að Ísland haldi áfram að styðja við bakið á stjórnarandstöðunni þar í landi. Ráðherra sótti auk þess áheitaráðstefnu um Jemen, flutti ræðu fyrir hönd Norðurlanda á viðburði til stuðnings Úkraínu og átti þar að auki fjölda tvíhliða funda, þar sem tilefnið var meðal annars að afla framboði Íslands til setu í mannréttindaráðinu á tímabilinu 2025 - 2027 fylgis. 

Í sömu ferð undirritaði ráðherra tvísköttunarsamning við Andorra. "Samningurinn er skref sem við tökum til að bæta starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja og einstaklinga víða um heim", sagði ráðherra við undirritunina. 

Alþjóðlegs baráttudags kvenna þann 8. mars sl. var minnst víða. Þann dag hækkuðu íslensk stjórnvöld kjarnaframlög til lykilstofnana Íslands í þróunarsamvinnu innan Sameinuðu þjóðanna en þeirra á meðal er UN Women. Meðal verkefna stofnunarinnar sem Ísland styður við er valdefling kvenna í Palestínu og Malaví og verkefni tengt griðastöðum sýrlenskra kvenna í flóttamannabúðum í Jórdaníu, svo fátt eitt sé nefnt. Ísland er líka forysturíki í aðgerðabandalagi Kynslóðar jafnréttis (Generation Eqality Forum) sem UN Women stendur fyrir og starfar að upprætingu kynbundins ofbeldis gagnvart konum og stúlkum. Framlag var einnig hækkað til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) en innan beggja stofnana styður Ísland við verkefni sem stuðla að jafnrétti kynjanna.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri sótti fund stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins fyrir hönd ráðherra. Fundurinn fór fram í Haag þann 3. mars og lagði ráðuneytisstjóri áherslu á mikilvægi fjölþjóðasamvinnu í opnunarræðu sinni auk þess sem hann tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnu frjálsra félagasamtaka í Evrópu í Haag og fundi um annarsvegar ábyrgðarskyldu gagnvart Úkraínu og hins vegar viðbrögð Evrópusambandsins við stuðningsaðgerðum bandarískra yfirvalda við grænan iðnað.  

Ferðalögum ráðuneytisstjóra var ekki lokið heldur lá leið hans næst til Nýju-Delí þar sem við tók heilmikil dagskrá. Fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Indlands voru til umræðu á fundi með Piyush Goyal, viðskipta- og iðnaðarráðherra Indlands. Ráðuneytisstjóri tók þar að auki þátt í viðburði um jafnréttismál sem skipulagður var af sendiráði Íslands í Nýju-Delí, UN Women á Indlandi og UNESCO og málstofu um nýsköpun þar sem fulltrúar íslenskra fyrirtækja á sviði nýsköpunar sögðu frá reynslu sinni af viðskiptum á Indlandsmarkaði. Meðal þátttakenda voru Össur, Marel, Kerecis, ÍSOR/Verkís, GEGpower og ONGC, ríkisorkufyrirtæki Indlands. Auk alls þessa var haldinn fjarfundur með ráðuneytisstjóra og ræðismönnum Íslands á Indlandi. 

Það var mikið umleikis í New York í vikunni þegar 67. þing Kvennanefndar SÞ var sett. Forsætisráðherra leiddi sendinefnd Íslands. 

Alþjóðlegs baráttudags kvenna var minnst í allsherjarþingi SÞ og tóku fulltrúar Alþingis þátt í dagskrá.

Og fleiri tíðindi bárust frá New York en eftir langar og strangar viðræður tókust loks samningar um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni á úthöfunum. Um er að ræða sögulegt samkomulag en viðræður hafa staðið í tæplega tuttugu ár meðal aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Eitt helsta þrætueplið var skipting gróða á erfðaauðlindum í hafinu, þá sérstklega milli þróunarríkja og þróaðra ríkja en aðfararnótt 5. mars sl. tókst loks að leiða málið til lykta. Þá höfðu fulltrúar aðildarríkjanna ekki yfirgefið fundarsalinn í 48 klukkustundir samfleytt.

Nýverið kom út frönsk þýðing og ýtarlegar skýringar François-Xavier Dillmann, prófessor emeritus, á öðru bindi Heimskringlu eftir Snorra Sturluson.  Af því tilefni efndi sendiráðið í París til viðburðar til heiðurs Pr. Dillmann og útgáfu verksins í samstarfi við sendiráð Svíþjóðar og Noregs. Samkomuna heiðruðu æðstu fulltrúar miðaldabókmennta í hinni virtu stofnun, l’Académie française, sendiherrar og fulltrúar dönsku, sænsku og norsku sendiráðanna ásamt áhugasömum gestum.

Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Frakklandi og fastafulltrúi gagnvart OECD, var jafnframt heiðursgestur á morgunverðarfundi frönsku hugveitunnar Institut EGA þar sem hún kynnti m.a. áherslur og aðgerðir formennsku Íslands í Evrópuráðinu, leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík í maí, auk þess að ræða um áherslur Íslands á sviði mannréttinda og jafnréttis, málefni Norðurslóða og samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. 

Þá sótti hún einnig dagskrá á vegum OECD í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna á vegum starfshópsins „Friends of Gender Equality +“ sem Ísland er aðili að.  Þá tók hún þátt í fundi kvensendiherra í Frakklandi með utanríkisráðherra Frakklands, Catherine Colonna, og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis Frakklands, Anne-Marie Descôtes.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var í Berlín í vikunni og heimsótti ýmsa aðila í menningar- og viðskiptageiranum. Helst ber að nefna stærstu ferðamálasýningu í heimi, ITB 2023, tónlistarkonuna Hildi Guðnadóttur, og menningar- og fjölmiðlaráðherra Þýskalands, Claudiu Roth.

Á fimmtudagsmorgun fóru fram umræður í sameiginlegu húsnæði norrænu sendiráðanna í Berlín um áhrif gervigreindar í menningargeiranum á jafnréttismál. Viðburðurinn er svokallaður Frauentagsfrühstück sem norrænu sendiráðin halda um ýmis jafnréttismál árlega í kringum alþjóðlegan baráttudag kvenna. María Erla Marelsdóttir sendiherra opnaði viðburðinn sem bar yfirskriftina "Artificial intelligence as a catalyst for cultural change and innovation". Frá Íslandi tóku þátt Þórhallur Magnússon frá Háskóla Íslands, Oddur Magnússon frá Klang Games og Sif Björnsdóttir frá Merantix AI Campus.

Fleira hefur verið á dagskrá hjá sendiráðinu í Berlín undanfarið en María Erla Marelsdóttir afhenti á dögunum trúnaðarbréf sitt forseta Tékklands í Prag, Miloš Zeman. Auk afhendingarinnar sótti hún ýmsa fundi með tékkneskum embættismönnum og hitti einnig fyrir kollega sína í Prag frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum og ræðismann Íslands í Prag, Klöru Dvořákovu.

Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Ottawa ræddi við meðlimi þingmannasamtaka Kanada og Evrópu (Canada-Europe Parliamentary Association) um markmið og áherslur Íslands á meðan það gegnir formennsku í Evrópuráðinu, en fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Reykjavík í maí.

Kristín A. Árnadóttir fastafulltrúi Íslands í Vínarborg afhenti á dögunum fulltrúabréf sitt forseta Ungverjalands Katalin Novák.

Í Vínarborg fór jafnframt fram Stjórnarfundur Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar sem staðið hefur yfir alla vikuna. Þá setti alþjóðlegur baráttudagur kvenna mark sitt á fundi vikunnar og Ísland fór fyrir norrænni yfirlýsingu og stóð þar að auki að öflugum málflutningi um samhengi jafnréttis og friðar.

Staða barna í Úkraínu hefur verið ofarlega á baugi í Vínarborg og kynntu fulltrúar félagasamtaka og stjórnvalda alvarlega stöðu, nauðungarflutning barna til Rússlands þar sem uppruni þeirra er afmáður og ný fæðingarvottorð gefin út. Þar að auki kynnti ÖSE fyrstu niðurstöður úr viðamikilli úttekt, hinni fyrstu sinnar tegundar – á umhverfislegum áhrifum stríðsins í Úkraínu. Áhrifin koma ef til vill  ekki á óvart, eyðileggingin sem við blasir er þó á stærri skala og mun hafa víðtækari áhrif til langrar framtíðar en nokkurn óraði fyrir. Samfélagsmiðlar og gervihnattamyndir eru að nýtast vel til að safna gögnum og meta stöðuna.

Þórir Ibsen sendiherra í Kína sótti fund norrænu sendiherranna í Peking með framkvæmdastjóra Shanghai Cooperation Organization. 

Og Norræna kvikmyndahátíðin í Peking fór fram með pompi og prakt. Framlag Íslands að þessu sinni var kvikmyndin Kona fer í stríð. William Freyr Huntingdon-Williams, staðgengill sendiherra, flutti ávarp fyrir sýningu myndarinnar. 

Samnorrænn viðburður var haldinn í Brussel í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Þemað í ár var jafnrétti í sviðlistum. Fulltrúi Íslands í pallborðsumræðum var Anna Kolfinna Kuran, danshöfundur og gjörningalistakona.

Þórdís Sigurðardóttir sendiherra Íslands í Úganda undirritaði samning fyrir Íslands hönd um viðbótarstuðning til barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í Úganda til að bæta vatns- og hreinlætisaðstæður í héraðinu sem kennt er við Vestur-Níl. Verkefnin koma til með að nýtast um 45 þúsund íbúum, ekki síst konum og börnum. 

Sendiráðið Íslands í Úganda stóð einnig fyrir vel heppnuðum viðburði fyrir útskrifaða GRÓ nemendur. 

Og hélt upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna með því að segja frá þeim mikilvægu verkefnum sem sendiráðið í Kampala hefur stutt til að stuðla að jafnrétti kynjanna í Úganda. 

Með stuðningi Íslands gátu félagasamtökin Ipas afhent héraðssjúkrahúsi Mangochi héraðs í Malawi búnað til aðstoðar konum eftir þungunarrof. 

Og sendiráðið í Lilongwe greindi líka frá stuðningi íslenskra stjórnvalda vegna annars verkefnis sem snýr að forvörnum gegn kynferðislegri áreitni í Nkhotakota héraði. 

Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Moskvu tók á dögunum þátt í athöfn til minningar um stjórnarandstæðinginn og einn fremsta talsmann lýðræðis og mannréttinda í Rússlandi á sínum tíma Boris Nemtsov sem var myrtur árið 2015.

Sendiráðið í Osló fékk góða heimsókn frá atvinnuveganefnd Alþingis sem er í heimsókn í Osló þessa stundina. 

Og atvinnuveganefnd Alþingis var einnig á ferðinni í Færeyjum. 

Taste of Iceland viðburði í Washington lýkur á morgun en á meðan honum stendur fá íbúar borgarinnar að njóta fjölbreyttrar dagskrár og fá smjörþefinn af því besta sem Ísland hefur upp á að bjóða. 

Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington átti gott kvöld með frumkvöðlakonum og hitti þar Nancy Pelosi fyrrum forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. 

Þar að auki átti Bergdís mikilvægan fund með Dr. Mara Karlin í Pentagon um samvinnu Íslands og Bandaríkjanna á sviði varnar- og öryggismála í Norður-Atlantshafi. 

Undirbúningurinn fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins heldur áfram af fullum krafti hér heima og í Genf.

Arctic Circle Japan Forum fór fram í Tókýó með yfir 300 þátttakendum frá 20 löndum.

Við ljúkum föstudagspóstinum að þessu sinni á fréttum frá Grænlandi en aðalræðisskrifstofan í Nuuk er einn stuðningsaðila grænlenska þjóðleikhússins við uppsetningu rokkóperunnar PALASI sem verður sýnd nú um helgina.

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta