Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2007 Innviðaráðuneytið

Umhverfisráðherra úrskurðar um Vestfjarðaveg

Umhverfisráðherra hefur kveðið upp úrskurð í kæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um vegagerð á Vestfjarðavegi nr. 60 þar sem hann liggur milli Bjarkarlundar og Eyrar í Kollafirði. Tillaga Vegagerðarinnar er að leggja nýjan veg á kafla meðfram ströndum og þvera Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð í stað þess að fylgja núverandi vegarstæði. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra fellst á þessa tillögu Vegagerðarinnar með nokkrum skilyrðum, meðal annars að ræktaður yrði sambærilegur birkiskógur og raskast myndi við framkvæmdina.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fagnar þessum úrskurði umhverfisráðherra og vonar að þar með sé séð fyrir endann á deilum um vegarstæðið. ,,Með þessum úrskurði er umhverfisráðherra að heimila framkvæmd með skilyrðum sem ég hef frá upphafi lagt ríka áherslu á að ráðist verði í. Leiðin gerir ráð fyrir að vegurinn værði færður af hálsunum niður á strönd og tillaga mín til Vegagerðarinnar um það er ekki síst út frá öryggissjónarmiðum,” segir ráðherra. Hann segir Vegagerðina nú hefjast handa um undirbúning verksins. ,,Ég legg áherslu á að þetta verði unnið í sátt við alla aðila og í samræmi við þau skilyrði sem kveðið er á um í úrskurði umhverfisráðherra. Með ákvörðun um vegagerðina með þessum hætti verður tenging við suðurfirði Vestfjarða best tryggð og því lýsi ég sérstakri ánægju með að nú stefni í að hægt verði að fara þessa leið,” segir samgönguráðherra einnig.

Fyrirhugað er að ljúka uppbyggingu Vestfjarðavegar á kaflanum milli Bjarkarlundar í Reykhólahreppi og Flókalundar í Vatnsfirði sem er 48 km. Er framkvæmdinni ætlað að bæta samgöngur annars vegar innan Reykhólahrepps og hins vegar frá Hringvegi til og um Vestur Barðastrandarsýslu og norðanverða Vestfirði. Veginum skal haldið opnum að vetrarlagi og á burðargeta hans að fullnægja ítrustu kröfum. Verkinu er skipt í áfanga og lagðar til nokkrar útfærslur á hinum ýmsu köflum.

Vegagerðin leggur til að á kafla milli Bjarkarlundar og Eyrar í Kollafirði verði vegurinn lagður meðfram stönd í stað þess að fara yfir tvo hálsa, Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Tillagan gerir ráð fyrir þverun Þorskafjarðar, nýjum vegi út með strönd fjarðarins og um Hallsteinsnes þar sem er Teigsskógur. Þá lægi vegurinn yfir utanverðan Djúpafjörð og um Grónes og síðan á þverun yfir Gufufjörð þar sem hann tengdist núverandi vegi á Skálanesi.

Nokkrir aðilar kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar frá 28. febrúar 2006 en þar var lagst gegn vegarlagningu um Teigsskóg en þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar heimiluð með skilyrðum. Kærurnar voru frá sveitarfélögum, Vegagerðinni og einstaklingum.

Umhverfisráðherra staðfestir úrskurð Skipulagsstofnunar frá 28. febrúar 2006 um vegagerðina nema að vegagerð um Teigsskóg er heimiluð en sett eru sex eftirfarandi skilyrði:

1. Framkvæmdaraðili skal rækta birkiskóg á Vestfjörðum við sambærilegar aðstæður og eru í Teigsskógi a.m.k. til jafns að flatarmáli við þann birkiskóg sem raskast eða verður fyrir áhrifum við fyrirhugaða framkvæmd. Framkvæmdaraðili skal vinna áætlunina í samráði við Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins og leggja fram áætlunina áður en framkvæmdir hefjast. Í áætluninni skal gera grein fyrir hvaða efnivið er áætlað að nota við ræktunina þ.e. hvort fyrirhugað sé að nota erfðaefni úr Teigsskógi eða annars staðar á Vestfjörðum. Meta skal plöntunarárangur á ræktunarsvæðinu eftir að plöntun er lokið og meðan skógurinn er að ná sambærilegum vexti og í Teigsskógi og gera grein fyrir til hvaða ráðstafana er ætlað að grípa ef árangur verður ekki sá sem vænst er. Gera skal grein fyrir hvort það svæði sem valið verður bjóði upp á aðstæður til landnáms viðkomandi tegunda eða hvort fyrirhugaðar séu ráðstafanir til þess að stuðla að landnámi síðar meir, ef það reynist takmarkað.

2. Framkvæmdaraðila ber við útfærslu á vali á vegkostum velja þann kost sem er bestur með hliðsjón af verndun Teigsskóga. Við nánari útfærsla á vegstæðinu, frágangi þess og ræsum skal leitast við að lágmarka áhrif vegagerðar á skóginn og skal framkvæmdaraðili hafa samráð um það við Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins.

3. Framkvæmdaraðili skal hanna veginn þannig að hann uppfylli skilyrði 19. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum og villtum fuglum nr. 64/1994. Við hliðrun á vegstæði skal hafa samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands.

4. Í Teigsskógi frá Gröf að Hallsteinsnesi skal vegstæði skilgreint þröngt og efnisnám, skeringar og slóðagerð skulu takmörkuð við vegstæðið sjálft. Samráð skal haft við Umhverfisstofnun um efnisnám fyrir veginn og skeringar í Teigsskógi.

5. Vegna áhrifa framkvæmdanna á menningarminjar skal framkvæmdaraðili merkja og greina Fornleifavernd ríkisins frá fornminjum við vegstæðið. Framkvæmdaraðili skal hafa samráð við Fornleifavernd ríkisins um nánari útfærslu á staðsetningu vegstæðisins.

6. Framkvæmdaraðili skal tryggja að þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar takmarki ekki hefðbundin þangskurð í þeim.

Úrskurðinn er að finna hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta