Hoppa yfir valmynd
21. október 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

319/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 319/2020

Miðvikudaginn 21. október 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. maí 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. apríl 2020, þar sem greiðslur ellilífeyris til kæranda voru stöðvaðar á grundvelli búsetuskráningar hans erlendis.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. ágúst 2018, var umsókn kæranda um ellilífeyri samþykkt. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 22. apríl 2020, var kæranda tilkynnt um stöðvun á greiðslu ellilífeyris vegna búsetuskráningar hans erlendis.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. júní 2020. Með bréfi, dags. 25. júní 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. júlí 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júlí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kæru að kærandi óski þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á greiðslu ellilífeyris verði endurskoðuð.

Af kæru má ráða að kærandi vilji koma því á framfæri að hann sé ekki búsettur í B heldur hafi hann verið að bíða eftir því að flugsamgöngur, þar með talið til B, yrðu greiðfærar aftur vegna Covid-19 veirunnar. Fram kemur að hann þurfi auk þess lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun til þess að kaupa flugmiða til Íslands því að hann hafi hann notað lífeyrisgreiðslur sínar til þess að kaupa nauðsynleg lyf vegna X sjúkdóms sem hann sé með. Aðstæður í B séu ekki góðar vegna lokunarinnar. Kærandi sé íslenskur ríkisborgari og hann ætli sér að snúa aftur til landsins. Hann hafi starfað á Íslandi í X ár. Af kæru megi ráða að hann vonist til þess að útskýringar hans á aðstæðum sínum skili jákvæðum viðbrögðum.

Í tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 13. maí 2020 segir að kærandi hafi komið til B til þess að heimsækja börn sín sem hann hafi síðast séð árið X. Af tölvupósti kæranda má ráða að hann hafi áhyggjur af því að geta ekki ferðast til fjölskyldu sinnar í framtíðinni þar sem hann sé að eldast. Kærandi greinir frá því að hann eigi enga peninga vegna þess að greiðslur til hans hafi verið stöðvaðar af Tryggingastofnun ríkisins. Börn hans geti ekki aðstoðað hann fjárhagslega vegna aðstæðna í B. Hann geti hvorki keypt lyf né fengið læknisaðstoð þar sem hann eigi enga peninga.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva greiðslur ellilífeyris í framhaldi af flutningi á lögheimili kæranda úr landi.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé tryggingavernd miðuð við búsetu einstaklinga hér á landi, sbr. tilvísun 5. tölul. 2. gr. laganna til lögheimilislaga nr. 80/2018. Tryggingavernd falli því niður þegar búseta sé flutt frá Íslandi, nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum I. kafla laganna.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 22. maí 2018, en hann hafi þá verið með skráð lögheimili á C. Hafi umsókn hans verið samþykkt frá og með 1. september 2018.

Með bréfi, dags. 22. apríl 2020 hafi kæranda verið tilkynnt að með vísan til upplýsinga úr Þjóðskrá um að lögheimili hans hefði verið flutt frá Íslandi þann 7. febrúar 2020 yrðu lífeyrisgreiðslur til hans stöðvaðar frá og með 1. maí 2020.

Í bréfi Tryggingastofnunar hafi verið vísað til þess að þar sem lögheimili kæranda hefði verið skráð úr landi uppfyllti hann ekki lengur skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt 4. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi hafi svarað bréfi Tryggingastofnunar með netpósti, dags. 2. maí 2020. Þar komi meðal annars fram að þegar hann hafi byrjað töku ellilífeyris árið 2018 hafi hann af fjölskylduástæðum flutt til B. Hann hafi hins vegar ekki gert sér grein fyrir samspili lögheimilisskráningar á Íslandi og tryggingaverndar samkvæmt lögum um almannatryggingar. Honum hafi ekki verið þetta ljóst og hann hafi ekki verið upplýstur um að réttarstaða hans hér á landi myndi breytast, dveldi hann lengur en sex mánuði utan Íslands. Hann hafi verið í sambandi við Þjóðskrá Íslands og upplýst að hann myndi snúa aftur til Íslands þegar heilsa hans og aðstæður leyfðu.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar sé búseta hér á landi grunnskilyrði tryggingaverndar og þá sé miðað við skráningu lögheimilis hér á landi í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur.

Undanþága frá þessari reglu sé gerð vegna þeirra einstaklinga sem hafi búsetu í þeim löndum sem Ísland hafi gert samninga við, sbr. 58. gr. laga um almannatryggingar. Greiðslur almannatrygginga falli að öðrum kosti niður við brottflutning til þeirra landa sem enginn samningur hafi verið gerður við um almannatryggingar.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá sé kærandi ekki lengur með lögheimili skráð á Íslandi og sé sú breyting miðuð við 7. febrúar 2020. Samkvæmt gögnum málsins sé hann í dag búsettur í B og hafi væntanlega verið það síðan haustið 2018, sbr. upplýsingar þar um í ofangreindum netpósti hans til Tryggingastofnunar.

Á milli Íslands og B séu engir samningar á sviði almannatrygginga sem kveði á um rétt bótaþega til að fá lífeyri sinn greiddan úr landi og hafi Tryggingastofnun því ekki heimild til að greiða kæranda lífeyri sinn við núverandi aðstæður.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva lífeyrisgreiðslur til kæranda hafi verið í samræmi við gildandi lög.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. apríl 2020, um stöðvun greiðslna ellilífeyris til kæranda vegna flutnings á lögheimili hans úr landi.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar telst sá tryggður sem búsettur er hér á landi, sbr. 5. tölul. 2. gr. laganna, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna nema annað leiði af milliríkjasamningum. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að tryggingavernd falli niður þegar búseta sé flutt frá Íslandi, nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum I. kafla laganna. Samkvæmt 5. tölul. 2. gr. laganna, sem skírskotað er til í framangreindu ákvæði, er með búsetu átt við lögheimili í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars. Um ellilífeyri er fjallað í 17. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt framangreindu er það almennt skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris að umsækjandi sé búsettur á Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá var lögheimili kæranda flutt til B 7. febrúar 2020 og kærandi viðurkennir að hann hafi dvalist í B. Ljóst er því að kærandi uppfyllir ekki framangreint skilyrði um búsetu á Íslandi. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í þeim má meðal annars veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra. Enginn slíkur samningur hefur verið gerður við B. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslum ellilífeyris, sbr. 4. gr. laga um almannatryggingar.

Í tölvupósti kæranda til Tryggingastofnunar þann 2. júní 2020 kemur fram að kærandi hafi ákveðið að heimsækja börn sín til B árið 2018 eftir að hann fór á eftirlaun. Þá byggir kærandi á því að hvergi í þeim gögnum sem hann hafi haft undir höndum frá Tryggingastofnun hafi verið tekið fram að greiðslur til hans yrðu stöðvaðar og að hann hafi því ekki verið meðvitaður um að hann myndi ekki fá greiðslur frá Tryggingastofnun ef hann myndi yfirgefa landið lengur en í sex mánuði. Þá hafi hann verið greindur með X sjúkdóminn sem þýði að hann sé í áhættuhópi vegna Covid-19. Hann vilji komast til Íslands sem fyrst í ljósi aðstæðna en öll flugfélög hafi hætt starfsemi vegna heimsfaraldursins.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar er skylt að tilkynna um breytingar á tekjum og öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Kærandi var upplýstur um það í umsókn sinni um ellilífeyri, dags. 22. maí 2018. Þá benda gögn málsins til þess að kærandi hafi farið til X árið 2018, eða löngu áður en að Covid-19 fór að hafa áhrif á flugsamgöngur. Úrskurðarnefndin telur að engin heimild sé til þess að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi með vísan til þeirra málsástæðna sem kærandi vísar til.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. apríl 2020 um að stöðva greiðslur ellilífeyris til kæranda vegna lögheimilisskráningar erlendis staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. apríl 2020, um að stöðva greiðslur ellilífeyris til X, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                                Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta